Páll Þorbjörnsson skrifar

Hvenær varð ég svona gamall?

27.Mars'15 | 00:29

Ég veit stundum ekki hvort ég sé gamall eða ungur. Allavega þegar ég var ungur þá voru menn á mínum aldri kallar að mér fannst. Já og enn þann dag í dag horfi ég á þessa menn jafnvel 30 árum seinna og þeir hafa ekkert breyst. Hafa þeir bara staðið í stað og ég haldið áfram að eldast. Svo allt í einu verða þessir kallar svo gamlir að það mætti halda að leppalúði hafi hlaupið í þá. 

Ég var í heita pottinum í sundlauginni fyrir nokkrum dögum, þarna voru fermingastrákar að ræða sín á milli í hvorum pottinum þeir ættu að vera í. Annar byrjar að rýna yfir í hinn pottinn til að sjá hver væri þar, og hann segir það eru einhverjir krakkar þarna og svo einhver kall. Ég er hugsi og lýt yfir í hinn pottinn því ekki var ég búinn að sjá neitt gamalmenni fara í pottinn. Þarna sat strákur á mínum aldri, 35 ára jú með skegg en ekki með útlitið eldra en 35. Þetta fékk mig til að hugsa, hvenær varð ég svona gamall. Ég man að ég var lengi 24, ég var 24 frá 20 til 28 ára, þá varð ég 27 mjög lengi. Trúlega vegna Janish joplin, Curt copain og Jim morrison. Öll dóu þau 27 ára.

Núna er ég bara á fertugsaldri. Þá get ég tekið fimm ár af eða lagt nokkur á eftir því hve alvarlegur ég þarf að vera. En fljótlega verð ég 50.ára og ég hugsa mikið um það að geta lifað lífinu. En það er  stundum ekki hægt þar sem standardinn er hár, þá fer mikill tími í vinnu. En gæða tími með fjölskyldunni þarf ekki að kosta svo mikið ef hann kostar þá yfir höfuð. 

Ég reyni oft að rýna í framtíðina, hvar verð ég eftir 10 ár. Hér eða þar. Ómögulegt að spá. Ég reyni að sjá fyrir mér fjölskylduna, mömmu og pabba, börnin sem verða 13 til 26 ára og ég í blóma lífsins 45 ára. Held að það sé tíminn sem mig hlakkar til að lifa. Kannski komin barnabörn en vonandi að allt hafi gengið áfallalaust þangað til.