Bjarni Hallfreðsson hrósar hér unglingum í Grindavík

29.Mars'15 | 01:29

Góðir Grindvíkingar. Ég hef verið að vinna í Þrumunni, félagsmiðstöð unglinga í Grindavík í rúmt ár núna og skrifa ég þetta til að hrósa unglingum í Grindavík. Ég hef lesið nokkra pistlanna í gegnum tíðina og hafa þeir margir hverjir verið á neikvæðum nótum en ekki þessi. Þetta hefur verið viðburðarríkt ár og mikið hefur gerst í Þrumunni og hefur hún til að mynda fært sig upp í skóla þar sem hún hefur blómstrað og er vonandi komin til að vera. 

Margir viðburðir hafa verið í tengslum við Þrumuna og hef ég t.d. farið á Samfés tvisvar og fóru yfir 60 krakkar frá Grindavík í bæði skiptin. Einnig héldum við söngkeppnina Kragann í vetur sem er undankeppni fyrir Samfés og komu þá um 250 manns til Grindavíkur, hlustuðu á góða tónlist og skemmtu sér eftir það. Svo hafa minni viðburðir verið og má þar nefna nokkur böll, kökukeppni, kappátskeppni og margt fleira. Í öll þessi skipti hafa nemendur skólans staðið sig með miklum sóma og verið virkilega góð fyrirmynd fyrir Grindavík.

Fyrir um átta vikum tók ég að mér að leikstýra árshátíðarleikritinu í grunnskólanum ásamt Hönnu Dís Gestsdóttur og tóku um 40 nemendur þátt í þeim leikritum. Við vorum með tvö leikrit, Hin fjögur fræknu og Hakuna Matata. Við fengum að kynnast þessum unglingum mjög vel, hverjum einasta og kem ég varla upp orði yfir því hversu ótrúlega skemmtilegir og flottir krakkar eru í Grindavík.

Ég og Hanna lögðum mikla vinnu á okkur og lögðum okkur ótrúlega mikið fram til að gera eins vel og hægt er. Ég tel að við höfum gert gott betur en það. Ég og Hanna erum bæði í kringum tvítugt og höfðum enga reynslu á einhverju líkt og þessu. Við vissum bæði að þetta væru virkilega góð leikrit og en okkur hefði aldrei grunað að við myndum fá þessi hrós sem við fengum frá ykkur bæjarbúum og viljum við þakka kærlega fyrir þau. En persónulega finnst mér að við eigum lítinn part af þessum hrósum því að hrósin eiga unglingarnir skilið. Þau tóku okkur með opnum örmum, gáfu okkur leiðbeiningar hvað mætti laga, gáfu leikritunum líf og voru hreint út sagt ótrúleg. Mig hefði aldrei nokkurn tímann getað grunað að Grindavík ætti svona ótrúlegt safn af unglingum.

Allir unglingar í Grindavík, haldið áfram á sömu braut. Ég get hreinlega ekki beðið eftir því að sjá hversu langt þið munuð ná í lífinu. Foreldrar, verið stolt af börnunum ykkar, þið eigið frábær börn! Þið eruð að gera eitthvað mikið rétt í uppeldinu. Haldið öll áfram að gera Grindavík að paradísinni sem það er.

Sjáumst í Þrumunni!

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson