Páll Þorbjörnsson skrifar

Breyttir tímar í upplýsingarflæði

1.Apríl'15 | 09:24

Ótrúlegar tækniframfarir hafa átt sér stað síðustu 15 árin. Hér áður fyrr var hlustað á alla fréttatíma. Veðurfréttir voru snemma á morgnana. Þær voru talaðar með rödd sem var ekki úr þessu jarðríki og svo yfirþyrmandi dánarfregnir . Allt er þetta ennþá til staðar. En fyrir tímalausan einstakling eins og mig er fínt að geta flett þessu upp.  Þegar ég vakna á morgnana get ég átt rólegan tíma og lít í tölvupóstinn minn og stuttlega á helstu vefsíður. Þá eru guttarnir komnir á stjá. Það þarf að keppast við að græja heimilisfólkið þannig að allir séu komnir á réttum tíma. Er ekki til app fyrir þetta.

Já samskipti milli fólks eru önnur. Það er ekki bara gamli góði heimasíminn. Ég man að þegar ég var að alast upp í Eyjum. Þegar farið var í ferðalag þá var alltaf hnútur í maganum. Hugsunin um hvort Herjólfur fer eða ekki. Bæði spenna og undirbúningur andlega  fyrir það að ferðin væri ekki farin. Þarna var það bara heimasíminn og þurfti maður að hringja í þjálfarann kvölds og morgna til að fá staðfest hvort við færum eða ekki. Svo var bara haldið í ferðina og komið heim 2 til 5 dögum síðar. Án þess að hafa verið í sambandi við einn né neinn á meðan nema liðsfélaga.  Þetta lætur mig hugsa um svitaböndin, skotthúfur, útvíðar buxur og stáltá skó.

Í dag eru símar öflugri en strærstu iðntölvur voru fyrir rúmum 20 árum. Þær tóku heilt herbergi. Ég átti mínar leikjatölvur alveg eins og krakkar í dag. Var rosalega ánægður með þær. Fyrst fékk ég Commador 64 sem var knúin áfram með kassettu drifi og tók margar mínútur að hlaða inn leikinn. Stýripinninn var á stærð við veglegan blómavasa. Síðar eignaðist ég Nintendo tölvu með mun betri gæðum og meðfæranlegri. Ég keypti sjónvarp í sumarfríi í Hollandi, svart hvítt. Það var nenfilega enginn tollur á svarthvítum sjónvörpum. Ég lét það duga enda hef ég verið nægjusamur í gegnum tíðina. Ég eyddi bara einum skópörum í einu.

Vídeótækið var besti heimilisvinurinn. Við tókum upp heilu sjónvarpsdagskrárnar ef það var einhver heima til að taka upp. Betri spilarar höfðu stillanlegan tíma á upptöku. Þeir náðu jafnvel einhverskonar signali þegar tiltekinn þáttur var að byrja. Núna þarf maður ekki að eyða tíma í þetta, maður nær bara í þetta í gegnum sjónvarpið.

En hvað gerum við við allann þann tíma sem við höfum sparað okkur. Erum við bara í sófanum, eða klifrandi fjöll og dyngjur. Ég held að öll þessi tækni sé að taka stóran hluta af okkar athygli þó svo við sjáum það ekki. Spilakvöld eru svona old og hvað þá Bingó. Þetta var vikulegur atburður þar sem ég ólst upp en í dag er Bingó til skrauts og hátíðarbrygða.

Mikið er nú samt gott að hafa þetta sér við hlið. Ég kann passlega lítið á þetta. Langar að kunna meira en vil samt ekki missa mig í störu á símann. Síðan fáeinum mínútum seinna man ég ekkert hvað ég var að skoða. Inn út system, sem skilur ekki neitt eftir.

Ég man það vel þegar ég var í ferðalagi með foreldrum mínum fyrir 25 árum. Á milli sætanna var NMT sími. Þetta var magnað. Að geta bara hringt í vini sem ég var að fara að hitta í bæjarfélögum sem við ætluðum að stoppa í. Eða kannski vildu mamma og pabbi bara frí frá mér.

Hér áður fyrr fór maður með handskrifað bréf frá foreldri ef maður þurfti að fá frí eða til að tilkynna forföll í grunnskóla. Það kom fyrir að maður gerði þau sjálfur. Hryllilega hefur mamma skrifað illa þar sem engar athugasemdir voru gerðar við þetta. En það var samt stundum að einhver stúlkan í bekknum hjálpaði með til að hafa þetta meira PRO. Í dag er það bara tilkynning í tölvuformi, puntkur pasta.

Ég er þessi af gamla skólanum. Vill fá munnlegar tilkynninar.  Þoli ekki að fá skilaboð þar sem ég vil stjórna tíma mínum. Hvenær ég kíki í símann minn o.fl.  Enda geta liðið dagar og nætur þar til að ég svara sms skilaboðum. Þannig hef ég þetta bara hjá mér, rétt eða rangt. Ég vil bara geta stjórnað umferðinni í kringum mig.

En tímarnir breytast og mennirnir með. Unglingarnir eru margir komnir fram úr mér í tækninni, enda oft á tíðum meðtækilegri. Á því eru þó undantekningar.

Í dag eru tveggja ára börn komin með góða færni á spjaldtölvur, gott mál segi ég. Þetta er framtíðin. Afhverju ekki að byrja að kenna tungumál fyrr, það er líka framtíðin. Í dag eru samskipti milli heimsálfa enginn vandi. Maður þarf ekki að senda FAX eins og var gert fyrir systir mína þegar hún bjó í USA til að upplýsa um hvað væri að frétta. En börnin og við fullorðna fólkið megum ekki týnast í þessum heimi.  Við viljum auka mannlíf ekki hamla því, ekki satt.