100 km áskorun – 2.Maí

26.Apríl'15 | 06:57

Þann annan maí fer fram  hluti af 100 km áskoruninni, samstarfsverkefnis SÍBS, Vesens og vergangs. Áskorunin felst í því að þátttakendur stefna að því að ganga 100 km á 28 dögum frá 8. apríl til 6. maí. Og í þetta sinn er það land Grindavíkur sem varð fyrir valinu.

Það er nóg að ganga 3,6 km á dag til að standast áskorunina. Sumir vilja ganga á jafnsléttu á meðan aðrir vilja ganga á fjöll. Þetta er ekki keppni á milli fólks eða liða, þetta er áskorun fyrir einstaklinginn og tækifæri fyrir aðra til að hvetja hann áfram. Núna eru það Árnastígur, Brauðstígur, Eldvörp og Skipsstígur á milli Grindavíkur og Njarðvíkur sem urðu fyrir valinu.

Byrjað verður á að ganga Árnastíg. Þaðan farið inn á Brauðstíg, kíkt á Tyrkjabyrgin svonefndu á leiðinni og gengið svo með gígaröðinni í Eldvörpum að hluta og aftur inn á Árnastíg og þaðan inn á Skipsstíg og hann þræddur alla leið að Fitjum í Njarðvík.

Vegalengd er rúmlega 20 km og óveruleg hækkun á leiðinni. Göngutími er líklega um sjö tímar með stoppum. Þarna verður farið um gamlar götur, skoðuð fallegar jarðmyndanir og mörg merki þess að sumarið er að halda innreið sína í líf okkar.