Ólöf Daðey skrifar

Að ferðast um heiminn með barn

1.Maí'15 | 22:44

Tveggja og hálfs árs gamall, sumir segja orkumikill –aðrir kalla hann hreinlega óþekkan. Hann hefur búið í stúdíóíbúð í New York alla sína ævi og hefur þar af leiðandi ekki hlotið þá lukku að eiga mikið af leikföngum. Hann á pabba sem vinnur út um allt og er mikið í burtu og mömmu sem með lögum má ekki vinna. Hann er ekki á leikskóla eins og önnur börn á hans aldri og eyðir mestum tíma á rólóvöllum New York borgar og í nýmóðins barna-jógatímum. 

 

Foreldrarnir ákveða að gera breytingu á lífinu, eitthvað stöðugra fyrir greyið barnið með áherslu á að fá eigin herbergi fyrir hann og koma honum á leikskóla. Þau lögðu höfuðið í bleyti og úr kom þessi fína lausn –heimsreisa skyldi það vera. Sjö mánuðir, tveir bakpokar, mamma, pabbi og Óskar. Stöðugleiki, jafnvægi og stefna eru jú eins og allir vita ofmetin fyrirbæri. Samvera skiptir nú öllu máli, allt hitt kemur með tímanum.

 

Nú þegar að fjórir mánuðir eru liðnir, fimm lönd og þrjár heimsálfur hafa verið heimsóttar, þrennar buxur, fernir bolir, einir skór og eitt gleraugnapar hafa glatast hafa foreldrarnir tekið saman topp fimm lista af því sem ber að varast með börn á ferðalög um heiminn.

 

1. Safaríferð í Tanzaníu

Þegar að safarí ferð er skipulögð skal hafa í huga að mjög mikill tími fer í það að sitja í bíl og horfa/leita að dýrum. Börn eiga erfitt með að sitja kyrr og hafa hljóð og þegar að fílahjörðinni er náð er ekki beint ákjósanlegt að heyra barn öskra ELEPHANT!! með tilheyrandi hræðslu fílahjarðarinnar. Þegar að bílstjórinn finnur svo hýenurnar er erfitt að útskýra fyrir barninu af hverju þær eru að gæða sér á flóðhesti sem flatmagar steindauður meter fyrir framan bílinn. Að safaríferð lokinni er komið að því að leysa barnið úr bílnum og leyfa því að hlaupa lausu um sléttur Serengeti á meðan að foreldrarnir njóta þess að horfa á sólina setjast á tjaldstæðinu með kokteil í hönd. Barnið er í augsýn og lífið er yndislegt. Þá kemur þjóðgarðsvörður aðvífandi og biður þá vinsamlegast ekki að skilja barnið eftir á sléttunum því hérna búa ljón og blettatígrar sem gætu hugsanlega veitt barnið í kvöldmat, slíkt gerðist fyrir ári síðan fyrir sjö ára gamlan dreng og því hefur átaki gegn “barnaáti” verið hrint af stað.

 

2. Kvöldganga í Bangkok

Saklaus kvöldganga í Bangkok, kæru foreldrar, aldrei vanmeta saklaus boð um skrýtna hluti í Bangkok. Rauða hverfið í Bangkok er ekki hluti af Sjóaranum Síkáta eða öðrum bæjarhátíðum. Rauða hverfið sem foreldrarnir röltu með afkvæmið um bauð upp á borðtennis-sýningar, p**** chopstick-sýningar, hálfnaktar konur í furðulegum stellingum fyrir utan krána og slíkt í þeim dúr sem ekki er hægt að nefna á þessari síðu. Þessi annars magnaða borg ætti að vera með dyraverði inn á sumar götur eftir sólsetur.

 

3. Tveggja ára börn vilja ekki alltaf snorkla

Þegar fólk vogar sér á annað borð að kafa ofan í heim hafsins er margt sem ber að hafa í huga. Eru marglyttur á sveimi? Eru snákar á ferð? Hvernig er hitastigið? Það eru ekki hákarlar á þessu svæði er það? Þegar maður vill svo heitt og innilega að barnið manns kunni að meta þá fegurð sem hafið hefur upp á að bjóða og uppáhalds teiknimynda-fígúra barnsins er rétt hjá þá hendir maður stiganum á bátnum niður, dregur barnið með sér í fremur kaldan sjóinn og segir því að setja á sig gleraugun, kafa og sjá Nemo með eigin augum. Maður vonar að enginn sé hákarlinn og að marglytturnar láti hann vera. Faðirinn sem er þekktur fyrir fremur litla þolinmæði var ekki að höndla þessa hræðslu hjá litla kút, henti á hann sundgleraugunum, kíkti sjálfur til að sjá hvort Nemo væri nokkuð farinn, sá að hann var enn á sveimi og í æsingi sínum ýtir hausnum á barninu ofan í sjóinn. Til að gera langa sögu stutta brá Nemo að sjá þessa meðferð, fór í felur og Óskar harðneitar að setja á sig gleraugu eða fara ofan í sjóinn.

 

4. Óþarfa fjögurra tíma leigubílaferð um miðja nótt í Manila

Fyrir þá sem eru vel að sér í þeirri ágætu borg Manila vita að umferðin er hræðileg. Foreldrarnir vildu því vera vör um sig og pöntuðu hótel í korters fjarlægð frá flugvellinum og nú var bara að finna sér leigubíl og hendast á koddann. Leigubílstjórinn vildi eitthvað græða á foreldrunum og tók þau krókaleið á hótelið sem endaði í fjögurra tíma ferðalagi, næstum-því-handtöku-pabbans og gleðitapi fyrir allan peninginn. Vinsamlegast vandið valið á leigubílstjórum í nýjum aðstæðum eða gangið allavegana úr skugga um að hótelið sé til.

 

5. Að stranda árabát á Palawan-eyjum í Filippseyjum

Móðirin ákvað að skella sér að skoða fiskana og skildi feðgana eftir í góðu yfirlæti með strandgæslunni sem var svo góð að bjóða okkur á flekann sinn og leyfði Óskari að róla á hengirúminu sínu. Næsta sem hún veit mætir hún feðgunum á filippseyska árabátnum og heilsar létt í lund. Þegar hún kemst á flekann aftur snýr hún sér við og sér árabátinn og feðgana í sjónum og strandgæsluliðinn mættur á öðrum árabát að bjarga barninu á meðan að faðirinn synti með strandaða bátinn að flekanum. Næst munum við læra á filippseyska árabáta áður en við höldum til hafs með barnið.

 

Nú eru þrír mánuðir eftir og erum við stödd í Ástralíu. Við erum öll að koma til í tungumálinu (nei þetta er ekki bara enska, “thongs” þýðir til að mynda inniskór og singlets eru ekki einhleypingar heldur ermalausir bolir!). Kengúruborgarar og kengúru “road-kill” eru á hverju strái og skilti á þjóðveginum sýna númer sem maður á að hringja í ef maður sér Kóalabirni.

 

Þennan yndislega stað kveðjum við svo eftir um viku og suðvesturströnd Bandaríkjanna tekur við. Ég er viss um að það að ferðast um í húsbíl í tvær vikur eigi eftir að komast á næsta topp fimm lista yfir það sem á ekki að gera með börn undir fimm ára aldri, en best að prófa bara til að vera viss.

 

Tveggja og hálfs árs snáðinn fer að skríða í þriggja ára aldurinn. Hann er enn “orkumikill”, leikfanga-og leikskólalaus en við fjölskyldan höfum sjaldan verið hamingjusamari með lífið. Ég væri að ljúga ef ég segði að ég saknaði ekki alvöru Rauða hverfisins í Grindavík, en stundum þarf maður bara að fljúga úr hreiðrinu, gefa sig á vald örlaganna og leyfa hlutunum að ganga upp að sjálfu sér.