Opnar myndlistarsýningu 2 mai

Pálmar örn í einlægu viðtali

1.Maí'15 | 10:06
Pálmar

Mynd dv.is

DV birtir viðtal við Grindvíkinginn Pálmar Örn Guðmundsson sem opnar fyrstu myndlistarsýningu sína í Reykjavík í Art 67 á Laugavegi 67 laugardaginn 2. maí. Viðtalið við Pálmar sem er mjög einlægt og gott. Viðtalið fylgir hér í heild sinni. 

Pálmar Örn Guðmundsson opnar fyrstu myndlistarsýningu sína í Reykjavík í Art 67 á Laugavegi 67 laugardaginn 2. maí. Hann er fæddur og uppalinn í Grindavík og flakkaði frá 17 ára aldri um landið þar til hann flutti aftur til Grindavíkur árið 2005. Hann segist vera einfari í eðli sínu, en að sama skapi hópsál sem hefur gaman af félagsskap annarra. Pálmar Örn er afar listhneigður og sveiflast áhugamálin og atvinnan á milli þessara póla, einfarans og félagsverunnar, hann kennir börnum, málar, spilar og syngur sem trúbador og dansar salsa. Í haust ákvað hann að stíga út fyrir þægindarammann, sagði upp vinnunni og keypti sér flug til Kúbu. Þar ferðaðist hann um í 10 vikur, kynntist landi og þjóð og fann ástina um leið og hann fann sjálfan sig. Pálmar Örn sneri með fullt af minningum í farteskinu til fyrra starfs síns sem grunnskólakennari, en er staðráðinn í að ferðast meira um heiminn við fyrsta tækifæri.

„Myndlistin hefur alltaf fylgt mér“

Sem barn dundaði Pálmar mikið við að lita og teikna og segir hann marga í ættinni hafa mikla hæfileika á því sviði þó að enginn hafi fylgt því eftir nema hann. Í grunnskóla var honum beint í þessa átt, en hann sá ekki fyrir sér að hann gæti lifað af þessu. Fyrir fimm árum var það síðan fyrrverandi kærasta hans sem tók af skarið, hún hafði séð teikningar og stillti Pálmari upp við vegg; „„núna málar þú mynd fyrir ofan sófann“, sagði hún við mig. Pálmar gíraði sig upp og málaði mynd. „Ég setti mynd af listaverkinu inn á Facebook og fékk heilmikil viðbrögð, alveg fimm „like“,” segir hann og skellihlær.

Síðan vatt myndlistin upp á sig og frekar hratt. „Kristinn Reimarsson sem var þá menningarfulltrúi bað mig um að halda myndlistarsýningu,“ segir Pálmar. Hann segir það hafa vakið athygli að knattspyrnuþjálfarinn Pálmar væri að fara að halda sýningu. Einkasýningarnar eru orðnar fimm og nú stendur sú sjötta fyrir dyrum, sem er jafnframt sú fyrsta í Reykjavík.

Pálmar hefur að mestu málað myndir af heimaslóðum í Grindavík, en vinnur nú að myndum annars staðar frá bæði úr Reykjavík og frá Kúbu.

Einfarinn togast á við félagsveruna

“Ég var kannski pínu einfari þegar ég var yngri og átti ekki mikið af vinum. Ég held þó að ég hafi verið nokkuð prúður og ágætlega liðinn,” segir Pálmar sem er yngstur af fimm systkinum, á þrjá eldri bræður og segist oft hafa fengið að finna fyrir því. “Við fórum mikið í sveitina og ég var alltaf tuskaður til, samt ekkert sem maður grætur í dag,” segir Pálmar og hlær og bætir við að það hafi verið svolítið prentað í hann sem barn frá bræðrunum að vera sterkur, “ ég er samt ekki svoleiðis týpa, hef engan áhuga á að slást.” Faðir hans og tveir bræður eru sjómenn, en Pálmar valdi sér annan starfsvettvang, en endaði að lokum óvænt sem grunnskólakennari.
“Ég byrjaði í viðskiptafræði í Háskóla Íslands, en ég einfaldlega fann mig ekki þar, kynntist fáum og háskólaárin sem áttu að vera gaman voru það ekki.” Hann ákváð því að breyta til og byrjaði í íþróttafræði á Laugarvatni. Á þeim tíma hitti hann kennara úr Grindavík sem hvatti hann til að koma og kenna í Grindavík, þar vantaði hinsvegar ekki íþróttakennara og Pálmar byrjaði því að kenna almenna kennslu.

Tónlistin tekin í kennsluna

Pálmar er umsjónarkennari í 5. bekk, honum finnst mikilvægt að ná til allra og segir að það sé hægt að kenna svo margt á aðra vegu en hefðbundið er. Sjálfur notar Pálmar mikið tónlist við kennsluna. “Það hentar mér vel að vinna með börnum, ég finn mig vel í því, en kannski missi ég þetta stundum út í of mikinn fíflagang, segir Pálmar og hlær. Aðspurður um hvernig hann notar tónlistina við kennsluna, segir hann að núna séu nemendurnir að syngja margföldunartöfluna, “við erum búin að taka upp lagið og stefnum á að taka upp myndband og setja á netið ef leyfi foreldra fæst.”

Dúettinn Dúbilló

Pálmar ákvað ungur að slá í gegn sem tónlistarmaður. “Ég reyndi alveg, en vantaði kannski þennan x-faktor, þannig að ég setti draumana um að meika það til hliðar. Ég hef þó mjög gaman af tónlist og ég og vinur minn, Svanur Bjarki Úlfarsson,skipum dúettinn Dúbilló og við erum bara nokkuð góðir og vinsælir. Dúbilló spilar í allskonar veislum og partýum og það hafa nánast allar helgar verið bókaðar hjá þeim fram að þessu.
Þeir kynntust fyrir tilviljun þegar Pálmar var í útilegu með vinum sínum á tjaldstæði þar sem að Svanur var að vinna. Þegar Pálmar tók upp gítarinn til að spila, tók Svanur upp melódiku og Pálmari fannst hljóðfærin hljóma vel saman og að þarna væri komin hugmynd að einhverju skemmtilegu. “Við spilum báðir á gítar, svo dregur Svanur melódikuna upp af og til,” segir Pálmar. Hann segir að það sé oft mesta stemningin að spila í stelpupartýum, þær nái að sleppa fram af sér beislinu og skemmta sér konunglega og syngja með.
“Eini gallinn við að spila í stelpupartýum er að þær eru allar farnar í bæinn áður en við erum búnir að spila,” segir Pálmar. Þegar blaðamaður spyr hvort að það sé merki um hæfileikana að allir séu farnir áður en spilamennsku er lokið, hlær Pálmar og segir svo alls ekki vera, “við erum bara búnir að gíra alla upp í stuð og fólk vill halda áfram.”

Þreyta hverdagsins og þægindaramminn

Pálmar var farinn að finna fyrir mikilli þreytu, hann var í sambandi í langan tíma sem lauk svo. “Það er ótrúlega skrítið að vera allt í einu á lausu,” segir Pálmar. “Ég fann að ég var orðinn ótrúlega þreyttur, bæði í vinnu og við fótboltaþjálfunina, eitthvað sem ég hafði aldrei upplifað áður og ég fann að mig vantaði ævintýri í lífið.” Eftir að gamall vinur hans sem hann hitti á förnum vegi dásamaði Kúbuferð við Pálmar og sagði við hann “Pálmar þú veist að þú getur farið,” ákváð hann að láta slag standa, sagði upp vinnunni, leigði út íbúðina sína og pantaði ferð til Kúbu.
“Ævintýrið hófst með töluverðum vandræðum, ég var næstum búinn að missa af tengifluginu, lenti á Kúbu með enga tösku og svo virkaði hraðbankinn ekki,” segir Pálmar. Þjóðverji sem hann hafði kynnst í vélinni sá aumur á honum og lánaði honum bæði föt og peninga. “Hann var bæði stór og mikill og því var ég hálfasnalegur fyrstu dagana mína á Kúbu.”

Pálmar leigði af kúbverskri konu í Havana og kynntist ungum kúbverskum dreng sem hafði af sjálfsdáðum lært fimm tungumál, sem lóðsaði hann um í byrjun. “Svo var þetta bara þannig að ef að mér fannst gaman var ég um kyrrt, ef að mér leiddist þá færði ég mig annað,” segir Pálmar sem þvældist um alla eyjuna, kynntist fólki frá öllum heimshornum sem hann heldur enn sambandi við í gegnum facebook, varð ástfanginn af eyjunni, fólkinu og ítalskri konu sem hann varði hluta ferðarinnar með. “Svo kom bara að kveðjustund og það var kannski ekki mikið mál,” segir Pálmar. Hann reyndi þó að finna hana og sendi henni tölvupóst sem skilaði sér ekki, síðan tóku bara ný ævintýri við. Rétt fyrir heimferð fann hún hann á facebook og eru þau vinir þar, “þetta var bara hluti af ævintýrinu, það sem gerðist á Kúbu segir hann og hlær.
“Ég kom rosalega endurnærður frá Kúbu og langar til að skoða heiminn meira,” segir Pálmar. Hann var þó alveg tilbúinn til að koma heim eftir 10 vikurnar á Kúbu.

Næsta ævintýri gigg í Berlín

Meðal fjölmargra vina sem Pálmar kynntist á Kúbu er Kaj sem er búsettur í Berlín. Þeir hafa rætt í gegnum facebook að ferðast meira saman og segir Pálmar að Kaj hafi sent honum póst fyrir stuttu síðan þar sem að hann var staddur á bar í Berlín “þú ert að koma til Berlínar að spila á þessum bar,” og segir Pálmar að hann ætli að kýla á það um miðjan maí.
Pálmar er uppfullur af hugmyndum sem hann vill hrinda í framkvæmd, ein er að vera með comeback með gömlum félögum sem hann var með í hljómsveit og halda eitt gigg, hafa fjör og gleðja fólk. “Stundum dett ég í gírinn og sem lög og það væri gaman að gera eitthvað úr því, setja saman hljómsveit, fara í stúdíó og taka upp, ég á 4 – 5 lög sem eru svona kántrí slegin þjóðlaga fílingur og væri gaman að taka þau upp og setja á netið.” Pálmar labbar einnig mikið á fjöll og segir að gaman væri að taka upp og koma með sketsa tengda því.

Heillaður af salsa

Nýjasta áhugamálið er salsa, en Pálmar Örn lærði grunnsporin í salsa á Kúbu. Hann segir þó ekki sjálfgefið þó að maður kunni grunnsporin að maður geti eitthvað í salsa eða þori yfirhöfuð út á dansgólfið, hann skráði sig þessvegna í háskóladansana í byrjun árs og hefur einstaklega gaman af salsa. “Eini gallinn er að salsadansinn er á sömu kvöldum og kórkvöldin, ég er nefnilega líka í kór,” segir Pálmar og hlær, “maður er í öllu” en Pálmar er í Sönghóp Suðurnesja, sem Magnús Kjartansson stjórnar. “Ég ætla að mæta grimmt í sumar, en þá er kórinn í fríi.”

Konur heillast ekki af karlmönnum sem þegja

“Kannski vill ég ekki vera einfari, en hef það samt pínu í mér,” segir Pálmar og rekur það til barnæskunnar þar sem að hann var oft einn. Hann er að vinna markvisst að því að vera opinn í samskiptum við aðra, sérstaklega kvenfólkið.“Það heillast enginn af þeim sem segir aldrei orð,” segir hann og segist oft þurfa að minna sjálfan sig á að vera opinn í samskiptum við aðra.
Hann segist vera pínu leikari og fara oft í hlutverk, sem trúbador, sem kennari og svo framvegis. “Ég þarf alveg að minna sjálfan mig á að vera opinn og ég sjálfur. Mig hefur alltaf langað að vera þannig týpa, en þarf pínu að gíra mig upp í það. Það er mér ekki eðlislægt að vera þessi “Hei hér er ég”, en mig langar samt að vera þannig,” segir hann einlægur að lokum.