AÐ VERÐA FAÐIR UM FIMMTUGT

5.Maí'15 | 22:30

Þegar ég kynntist núverandi konu minni þá tjáði ég henni það að ég væri búinn að eignast þau börn sem ég ætlaði mér að eignast.  Enda var ég að nálgast fimmtugt og átti þrjú yndisleg börn, svo á ég líka hlut í Nínu minni . Ég var samt minnugur þess að afi minn eignaðist barn fimmtíu og þriggja ára. 

 

Þegar að fólk er saman, þá bankar tilgangur lífsins uppá og fólki fer að langa til að eignast barn saman. Hvort sem það svo lætur verða af því eða ekki.

 

En við ákváðum sem sagt að láta verða af því að eignast barn. Það er furðulegt að þegar maður er að ákveða þetta þá horfir maður bara á fallegu björtu og léttu stundirnar við það að eiga börn. Þetta er eins og sjómaðurinn sem gleymir alltaf brælunum, annars væri hann löngu hættur öllum siglingum.

 

En þrátt fyrir veikindi, bleyjustúss, andvökunætur og alls þess sem fylgir því að eignast barn þá er þetta það besta sem að kom fyrir mig, það er algjörlega klárt. Það er svo gott og gaman að eignast barn á þessum aldri. Ekki gleyma því heldur að um leið eignaðist ég lítinn vin.

Oft hef ég velt hennar hlið fyrir mér. Er gott að eiga aldraðan föður. Ég sé fyrir mér fermingu. Pabbi Maríu kjagar inn í kirkjuna með staf rígfullorðinn og þreyttur. Á meðan skokka yngri menn þetta lífsglaðir og fullir af orku. Hvað þá þegar hún giftir sig, eignast börn, skírir þau og svo framvegis. Ég viðurkenni að ég hef svitnað pínu yfir þessu.    

 

Ég er sjómaður. Því fylgir að maður sér ekki fjölskylduna jafnvel mánuðum saman. Það getur verið erfitt. Ég hef verið hissa á því hvað María litla man vel eftir mér þegar ég kem heim af sjó. Ég velti því oft fyrir mér hvað hún hugsi um þennan sjó sem að pabbi hennar er alltaf að hverfa á. Einu sinni þegar ég var á leið á sjó þá segir María litla að hún ætlaði að koma með á sjó, bara taka sængina sína og mömmu með. Auðvitað eru þá allir sem eru í burtu á annað borð á sjó. Hún hefur haldið að amma og afi séu á sjó þegar þau eru í Færeyjum.

 

Hún hefur sagt við mömmu sína þegar þær eru að keyra heim eftir leikskóla að pabbi sé heima og þrætt ef mamma hennar segir nei, blessaður engillinn. Börn sjómanna missa stundum af miklum samskiptum við feður sína. Það hefur samt lagast eftir að sjómenn fóru að fá meiri frí.

Talandi um leikskóla. Þegar að barnið okkar byrjaði í leikskóla þá tók hún mikið þroskastökk. Leikskólinn er klárlega fyrsta skólastigið á því er enginn vafi í mínum huga. Mig langar að taka fram að ég tel Heilsuleikskólann Krók afburða vel rekinn skóla. Það geislar af starfsfólki og börnunum í skólanum.

Í foreldraviðtali var talað um það við okkur að María vildi helst til mikla þjónustu við að klæða sig í. Ég fór að hugsa þetta og man eftir nokkrum atvikum sem að styðja þetta með þjónustuna. Til dæmis kallaði hún á mig úr hinum enda heimilisins. Ég var að gera annað en hún hafði mig til sín að lokum. Hún lá þá í rúminu og snuðið hennar lá í mesta lagi tuttugu sentímetra utan hennar seilingar. Pabbi réttu mér snudduna. Ég rétti henni snuðið og hélt áfram að bardúsa. Ég hugsaði ekki um þetta fyrr en á þessum fundi.   

Núna sit ég hérna og hugsa um þessa tveggja og hálfsárs stelpu, þvílík guðs gjöf sem hún er. Skemmtilegustu stundirnar eru á morgnana. Það fyrsta sem hún kallar þegar að hún vaknar er pabbi. Kannski vegna þess að hún veit að hann vaknar strax við fyrsta kall. Er kominn innan tveggja sekúnda, eins og stálfjöður inn í næsta herbergi. Konunni minni leiðist ekki að liggja í rúminu fram eftir. Stundum hlustar konan á samningaviðræðurnar sem fara fram á milli okkar Maríu í eldhúsinu. Hún segir að María hafi mig í vasanum en mér finnst ég alveg vera með þetta.

 María hringdi áköf í mig í fyrradag og sagði mér að ég væri maður og mamma væri kona. Aðspurð var hún ekki viss hvað afi og Ragna frænka væru. Það er alltaf gott að manni sé haldið upplýstum um stöðu mála.

Ef þú ert að nálgast fimmtugt og ert að spá í barneignir. Þá getur þetta oft verið erfitt. Þú ert ekkert að yngjast. Það er vond lykt af kúkableyjum. Það er gott að sofa á nóttunni. Þú skilar ekki barni eins og barnabarni. Þú ert líka orðinn meira meðvitaður um lífið og finnur meira til með barninu. En á móti getur þú upplifað og tekið þátt í allskyns ævintýrum sem minna þig  á barnið sem býr í þér.

Ævintýri barnsins eru óteljandi, þau eru alltaf að uppgötva eitthvað nýtt. Það er svo gaman að fylgjast með þessum litlu krílum. María mín minnir mig á þann tíma þegar lítil spýta varð að hafskipi, nokkrir njólar urðu að frumskógi og maður skottaðist um algjörlega í núinu. Það er gott að muna þessa tíma. María minnkar hættuna á því að maður verði pirrað gamalmenni sem að allt veit. Ég finn alveg fyrir þeirri hlið eftir því sem að árin líða. Ef manni gengur vel í lífinu, þá er manni hættara við að vita alla hluti. Ég þarf alveg að passa mig að vera réttu megin við strikið. Litli Sólargeislinn minn hjálpar til við það.