Emma Viktorsdóttir skrifar

Skemmtilegri Heimsreisu að ljúka

12.Maí'15 | 11:55

Það styttist í heimför. Ferðin er búin að vera svo yndisleg í alla staði. Búin að kynnast helling af fólki og mörg þeirra vináttusambanda eru komin til að vera. Ég fór í La Point á Balí, það er semí eins og heimavist fyrir surfnema hjá rip curl.

Það var yndislegt. Að læra að surfa var mun auðveldara en ég hélt þó ég hafi verið langverst af öllum fyrsta daginn. Dagur tvö var mögulega besti dagurinn minn, það gekk bara allt upp og það var líka ógeðslega gaman. Mæli algjörlega með að prófa!

Í Ástralíu er gaman en að fara úr 29 stiga hita yfir í 8 stiga hita í Melbourne er ekkert grín. Þar nældi ég mér í þetta flotta kvef eða ég var virkilega lasin bara ef ég á að segja eins og er. Fór í Neighbourstúrinn fræga, þar fékk ég að vita að Íslendingar eru mjög duglegir að kíkja í túrinn enda eru Nágrannar eitt besta sjónvarpsefni allra tíma. Ömmu finnst það allavega, mér kannski líka en bara smá. Mikið. Ég gerði lítið sem ekkert í Melbourne vegna veikinda. Ég ætlaði til Sydney en þegar ég kom út á flugvöll þá frétti ég það að það væri bara ekkert flug. Nei, ekkert flug. Ég ákvað þá bara að sleppa Sydney og kíkja á Atla frænda og Írisi í Brisbane.

Brisbane er skemmtileg, flott og hlý. Loksins komin aftur í hita sem ég er orðin vön - ég á eftir að ganga um í tveimur flíspeysum og föðurlandi undir buxum þegar ég kem heim. Þá er ég auðvitað að meina þegar ég lendi á Keflavíkurflugvelli en fer auðvitað bara aftur í bikiníið þegar ég kem í Sunny Grindó. Í Brisbane er hinsvegar ýkt flottur dýragarður þar sem þú getur fengið að halda á Kóala birni eða legið og tjillað með kengúrum. Ég gerði bæði sem þýðir að ég er kúl. Ásgeir Trausti og bandið hans stóðu sig svo vel á sviðinu í Brisbane en þar hituðu þeir upp fyrir hljómsveitina Alt-J. Það var þvílík upplifun.

Við kíktum svo yfir í Dubai Ástralíu en sá staður er kallaður Gold Coast. Háhýsi útum allt, heitt, flottir bílar, ríkt fólk eru orð sem einkenna staðinn vel. Háhýsin eru eiginlega of há því það kom bara skuggi af þeim á ströndina og ég sem ætlaði að koma brún heim.

Fiji er land kurteisa fólksins. Þegar ég kom út úr vélinni voru menn að spila á ukulele og dansa í pilsum, mega næs. Bula, bula, allir heilsa þér og láta þér líða eins og þú sért kóngur eða drottning og þeir eru þjónarnir þínir. Yndislegt og svo jákvætt að upplifa þetta, manni getur bara ekki liðið illa. Ég kem ábyggilega heim mun jákvæðari en áður bara útaf Fijibúum - nema Ameríkanarnir eigi eftir að eyðileggja mig, efast samt um það. Þau eru vel þekkt líka fyrir að vera kurteis.

Það er 12 tíma mismunur á Fiji og Íslandi en það sem er enn skemmtilegra er að ég fer í flug kl 21:40 þann 12. Maí frá Fiji en ég á að lenda kl 13:20 þann 12. Maí í Los Angeles sem er snilld, fæ að upplifa sama daginn tvisvar. Svo missi ég auðvitað þennan tíma aftur þegar ég fer yfir á austurströndina eða nánar tiltekið New York og svo til Íslands.

Að ferðast einn kennir manni ýmislegt en það skemmtilega við það er að maður kynnist sjálfum sér upp á nýtt. Þú lærir að standa með sjálfum þér, meta hlutina í kringum þig, fólkið í lífi þínu, landið þitt og það sem þú hefur lært frá æsku eins og tungumál. Þetta er ómetanlegt og gerir ferðalagið auðvitað mikið skemmtilegra fyrir vikið. Það getur oft verið rosalega erfitt að ferðast einn og oft langar manni bara að grýta sér í götuna og öskra á mömmu og pabba og biðja þau að koma að sækja sig en maður verður bara frekar áttavilltur í smástund, sest niður, dregur andann og segir sjálfum sér ,, þetta reddast". Það reddast yfirleitt allt fyrr eða seinna og ef það var of seint, þá reynir maður bara að gera gott úr hlutunum. Ef þú ert ennþá sjálf heil, þà reddast allt.

Annars mæli ég með fyrir alla að kíkja í svona ferð ef áhuginn er fyrir hendi. Flestir sem ég hef hitt á leið minni eru frá 18-30 en alveg nokkur eldri en það. Aðal aldurinn til að fara er 22 myndi ég halda. Klára stúdent, vinna í ár - 1 1/2 og kíkja svo í reisu hvert sem er farið.

Ég á pottþétt eftir að fara aftur en það er margt sem ég hef lært í þessari ferð sem ég myndi gera á annan hátt í næstu en þetta er allt svo persónubundið.

 

- Emma heimsfari.