Húsbílaferðalagið

16.Maí'15 | 00:23

Eftir tvö tíu tíma flug lentum við heilu og höldnu í borg Englanna. Unginn stóð sig eins og hetja og er það okkur foreldrunum mikil ráðgáta. Hvernig getur hann verið eins og engill fastur í flugvélasætinu í heilan sólahring en það er ekki fræðilegur möguleiki að halda honum kyrrum í tuttugu mínútur við matarborðið. Kannski fáum við okkur eldhús í formi flugvélar þegar við eignumst einn daginn heimili. 

Næsti leggur ferðarinnar var að leigja fjölskyldubíl sem kaninn kýs að kalla “soccer mom van” sem hefur verið breytt í húsbíl. Dodge-míní-vaninn okkar er fallega skreyttur fjólubláum og grænum litum, með apparati ofan á bílnum sem breytist í tjald þegar að kvölda tekur. Fyrir einn næstum því þriggja ára er þessi bíll heill ævintýraheimur og hefði verið nóg að tjalda honum á bílastæðinu fyrir hans sakir.

En foreldrarnir eru ferðaþyrstir og eiginmaðurinn búinn að undirbúa þetta ferðalag lengi, nú skyldi þjóðgarðar Bandaríkjanna grandskoðaðir. Fyrsta stopp var hvorki meira né minna en Las Vegas, borg syndanna. Undir venjulegum kringumstæðum hefðum við miklu frekar viljað krúsa niður aðalgötuna í limma eða á blæjubíl, en ekki á grænum og fjólubláum míní-van. Við splæstum í hótel og frúin skellti á sig maskara, varalit og meira að segja blómum í hárið í tilefni frumferðar sinnar til Vegas.

Eiginmaðurinn hafði komið þrisvar áður til borgar syndanna en aldrei hafði frúin fengið það á hreint hvað þarna gengi á. Við vorum á áströlsku tímabeltinu og miðnætti var miðdagur hjá okkur og því fengum við nokkrar athugasemdir frá syndugum túristum hvað við værum að spá í að vera með barn á röltinu um Vegas um hánótt. Við brostum bara og fórum með slagorðið góða, what happens in Vegas stays in Vegas. Við heimsóttum Bellagio kasínóið, Planet Hollywood kasínóið, The Cosmopolitan kasínóíð, sáum stúlku vera hent út af einum stað í yppon, sáum mann ná sér í gleðikonur (eina á hvern handlegg) og fylgdumst með ljósunum og fólkinu. Alveg magnaður staður –en mælum með því að heimsækja hana barnlaus til að sleppa við dóm götunnar.

Frá Las Vegas brunuðum við svo til Zion þjóðgarðarins sem er alveg ótrúlega magnaður staður og talsvert örðuvísi en eyðimörkin í Vegas. Við “tjölduðum” míní-vaninum og hituðum Campell súpuna okkar í eldhúsinu í skottinu. Við áttuðum okkur ekki alveg á myrkrinu þegar að kvölda tók og vorum í fullri vinnu við að týna ekki barninu. Nú hafa “glow-sticks” verið keypt og er einu skellt á ungann á kvöldin til að týna honum ekki. Eftir tvær nætur og endalausar göngur fórum við svo til Bryce Canyon sem er einstök sjón og mæli ég með því að allir fari nú að “gúggla” staðinn til að sjá hvað ég á við. Þar skelltum við okkur í tíu kílómetra langa göngu upp og niður gilin og keyrðum um þjóðgarðinn (við hættum okkur ekki í frekari göngu þar sem að það var bjarnar-viðvörun í gangi).

Eftir frábæran dag í Bryce Canyon keyrðum við svo áleiðis til Moab en stoppuðum á tjaldstæði sem heitir Shooting Star og bauð upp á alvöru bílabíó þar sem maður sat í gamaldags bíl, borðaði rauðar lakkrísreimar og drakk kók í gleri. Þaðan keyrðum við svo hina svokölluðu Burrtrail sem er kannski fallegasta leið sem ég hef séð (allir að “gúggla” hana líka). Við gistum á fáförnu tjaldstæði í Cedar Mesa en við vildum endilega ná einu góðu stjörnukvöldi. Það byrjaði að sjálfsögðu að rigna og eini nágranni okkar á tjaldstæðinu sturtaði sig allsber undir berum himni með páfagaukinn sinn á öxlinni. Ekkert varð úr stjörnusýningunni og pökkuðum við saman eldsnemma um morguninn, en frúin átti erfitt með svefn vegna allsberra nágrannans með páfagaukinn á öxlinni.

Núna erum við stödd í Moab og ætlum að skoða Arches og Canyonlands (þar sem myndin 127 hours var tekin) þjóðgarðana næstu daga. Útilegukonan ég þurfti eina nótt til að jafna mig og fékk eiginmanninn til að splæsa í hótel. Við fórum meira að segja út að borða og erum að horfa á sjónvarp –þvílíkur lúxus!

Fyrsta vikan í “road-trippinu” búin og ótrúlegt hvað þetta hefur gengið vel. Við höfum lært mikið á þessum stutta tíma. Míní-vaninn okkar er hitalaus og því þurfti að splæsa í ábreiðu. Rennilásinn á tjaldinu er ónýtur og því var splæst í límband. Það skiptir víst máli hvernig bílnum er lagt upp á svefninn að gera og þótt það sé 28 stiga hiti á daginn geta næturnar farið niður í frostmark með tilheyrandi hitaveseni. En þá er bara að klæða sig í öll fötin sín og hjúfra sig saman þar til að birtir á ný.

Vonandi eigið til góða helgi kæru landar, við ætlum að reyna að vera ekki étin af björnum, bitin af snákum eða glápa á allsbera gamla karla með páfagauka á öxlinni.

 

Ferðalangarnir.