Sædýrasafn í Kvikunni!

20.Maí'15 | 22:12

Ferðaþjónusta getur hjálpað okkur mikið til að skapa fjölbreytta atvinnumöguleika, en það er líka í höndum bæjarstjórnar hvernig við tökum á móti ferðalöngum. Land Grindavíkur er einn mest sótti ferðamannastaður landsins, allavega fyrir norðan Þorbjörn. En hvað getur bæjarfélagið gert til að stuðla að meiri þjónustu við ferðamenn. Ég heyri fólk kvarta yfir því að Kvikan sé lítið opin. Það er ekki gott.

Minn draumur er stórt sædýra og náttúrusafn, sambyggt við kvikuna. Gera sérstöðu sem samræmist auðlindastefnu okkar. Við höfum auðlind, svo mikla auðlind og sögu allt í kringum okkur sem er ónýtt. Náttúran og landslagið er með sérstæðara móti. Náttúruperlur á borð við Gunnuhver, Brimketil, Eldvörp, Kleifarvatn (já það tilheyrir Grindavík) og Krísuvíkurberg. Einnig er mikið um tóftir í landi Grindavíkur sem hægt er að gera betri skil á. Byggja upp eftirmynd af kirkju sem var út í staðarhverfi allt til ársins 1907.  Öllu þessu er hægt að byggja á ásamt mörgu fleiru.

Við búum á tækniöld, nýtum okkur tæknina. Hvað með app sem þú færð á mismunandi tungumálum, sem segir sögu hvers stað eða hlutar í gegnum bluetooth. Einnig hef ég séð fyrir mér heilsársbústaðabyggð út í bót, með fisk sem að sleppt er í vatnið, leiktækjum, grillaðstöðu svo eitthvað sé nefnt. Í fjörunum við land Grindavíkur eru fjölmörg gömul og forvitnileg skipsflök. Gönguleiðir eru margar og auðvitað er við hæfi að rölta upp á bæjarfellið Þorbjörn. Tyrkjaránið árið 1627 hafði áhrif í Grindavík. þar var Grindvískum íbúum rænt og þeir seldir sem þrælar í  ánauð. Virkjum það sem við höfum og bætum við. Í dag fara yfir 100.000 manns út á Reykjanes ár hvert, náum stórum hluta þeirra til okkar.

Sífellt meiri tækni er í Sjávarútvegi. Það þýðir færri störf. Hvernig getum við þá lifað hér 4000 manns?( 3000 í dag). Við erum fiskveiðiþjóð nýtum hráefnið betur. Ég tel einnig að ferðaþjónusta og orkufrek atvinnustarfsemi sem nýtir jarðvarma, orku, vatns, sjólindir og ásýnd lands Grindavíkur sé okkar framtíð. Verum skapandi. Hraunið er líka auðlind, ekki má raska því um og of. Það tengist líka mikið sögu enda eru til kenningar um að nafn bæjarfélagsins megi rekja til íll farinna hraunslóða, að úfið hraunið hafi verið grindur fyrir menn og dýr. Sagan er verðmæt.

Bæjarfélagið í heild sinni þarf að koma að auðlindasköpun. Síðustu ár hafa margir komið að tali við sveitarstjórn um nýjar og stórar verksmiðjur í landi Grindavíkur. Lítið hefur orðið að veruleika. Er það vegna þess að þessar framkvæmdir voru skýjaborgir. Vildi bæjarfélagið ekki þessi fyrirtæki eða var það ekki tilbúið að taka á móti þessum verkefnum skipulagslega. Ég vona ekki. En mikil vinna hefur farið fram á skipulagsmálum í Grindavík undanfarin misseri og vona ég svo sannanlega að við munum byggja á auðlind okkar í náinni framtíð og fáum greiddan arð í samræmi við arðgreiðslur fyrirtækjanna sem nýta auðlind okkar eins og lög segja til um. Auðlind sem er í eigu Grindvíkinga.  

Að lokum segi ég aftur að ég vona að hér eigi eftir að rísa fiska og náttúrusafn sem mun hafa lifandi starfsemi, bæði tengt rannsóknum og upplýsingum fyrir okkar ört fjölgandi ferðamannaiðnað. Sædýrasafn myndi laða að mikinn fjölda ferðamanna, innlenda sem erlenda. Bryggjan okkar er vinsæll viðkomustaður fyrir ferðamenn allsstaðar að, þar sem þeir komast í tengingu við harðduglega sjómenn. Sædýrasafnið/kvikan myndi klárlega verða miðpunktur ferðamanna með yfirsýn yfir höfnina. Hugsum um það.