SAGA AF SJÓNUM

7.Júní'15 | 07:39

Til hamingju með daginn Sjómenn og  fjölskyldur þeirra. Það er oft talað um starf sjómanna og starfsskilyrði þeirra á þessum degi. Við minnumst líka þeirra félaga okkar sem að hafa farið yfir móðuna miklu á árinu, en einnig þeirra sem að hafa látið lífið í gegnum árin við sjómannsstörf. Þetta er nauðsynlegur þáttur í Sjómannadeginum.

Ég er á leiðinni í land í Barentshafi þegar þetta er skrifað. Þetta var í mínum huga mjög góður túr. Það er í raun ótrúlega sjaldan að upp komi atburðir um borð sem að gætu talist hættulegir. En það oft stutt á milli feigs og ófeigs Það kom upp atvik í þessari veiðiferð sem að hefði getað farið mun verr.

Við vorum að hífa inn trollið í frekar leiðinlegu veðri. Það átti bara eftir að hífa inn pokann með aflanum. Það voru alls sex tonn í honum. Það kemur kvika og við það slitnar tiltölulega ný stroffa þannig að pokinn og það sem í honum er þeyttist niður skutrennuna. Annar gils er enn tengdur við belginn og er einn af mínum mönnum að bogra við að leysa hann úr.

Þetta er nýliði í fyrsta túr. Hann gerir það sem að er búið að brýna fyrir honum að gera alls ekki. Hann stendur klofvega yfir belgnum við gilsinn. Þegar að pokinn þeyttist út þá strekkist á belgnum þannig að hann þeyttist marga metra upp í loft.

Ég stend inni í brú og horfi á manninn þjóta upp með belgnum. Fyrir Guðs mildi nær drengurinn að halda sér í belginn. Hann hefði getað þeyst út í sjó eða lent mjög illa eftir tíu, fimtán metra fall. Finnst að þetta fór svona þá var gott að þetta var ungur maður. Gamlingjarnir um borð hefðu sjálfsagt farið illa út úr þessu. Þeir hefðu reyndar ekki lent í þessu. Reynslan hefur kennt þeim að vita hvar hætturnar leynast.

Ég gleymi ekki óttanum sem að skein úr augum þessa unga manns þegar að ég kom niður á dekk til þess að athuga með hann. Hann hlustar væntanlega betur á sér eldri og reyndari menn hér eftir. Það má kannski segja honum til varnar að hann er á „það kemur ekkert fyrir mig aldrinum“. Ég hafði reyndar tekið eftir því að hann er efni í góðan sjómann. Þessi reynsla ætti að hjálpa honum við það að ná því markmiði.

Mér finnst svona uppákomur til sjós tengja menn saman. Skyndilega verða allir skelfingu lostnir. Við erum líka mörg hundruð mílur úti í hafi. Við þurfum að stóla á hvern annan. Enginn vill hugsa um það alla daga að eitthvað slæmt hendi okkur. Svo er það skyndilega raunveruleikinn. Þá ríður á að geta gert það sem að gera þarf. Öryggisfræðsla sjómanna spilar þar stóra rullu.

Þetta fór vel í þetta skiptið. Nú eru liðnir nokkuð margir dagar síðan þetta gerðist. Áhöfnin vinnur í veiðarfærum á landleiðinni. Allir eru kátir og hressir. Við löndum í Tromsö í fyrramálið.

Mig langar líka að deila með ykkur smá hugleiðingu um sjómann sem að ég tel mig þekkja nokkuð vel. Ég veit hvernig hann er eftir að hafa verið mörg ár með honum til sjós. Hann er ekki eins og flestir, hann býr utan kassans sem að flestir búa í. Hann er frá Eistlandi og talar ekki ensku.

Ég er ekki viss um að það gangi um betra eintak af manni á þessari kúlu. Ég er reyndar ekki alveg viss um hvort hann gangi yfirleitt. Allavega hef ég staðið mig af því líta niður á lappirnar á honum þegar ég mæti honum á göngunum til að ath hvort hann svífi ekki um. Góðmennskan skín úr augunum. Sumir segja að hann sé skrítinn.

Í snjókommu eru oft villuráfandi fuglar á dekkinu. Hann leggur sig extra vel fram um að bjarga hverjum og einum þeirra áður en að trollið skröltir með látum inn dekkið.

Það eru ekki margir sjómenn sem sitja við það að hekla á frívöktum. Hann býr til svona óróa sem að eru reyndar frekar rólegir vegna þess að þeir eru heklaðir.

Það skrítna er að ég hef í raun aldrei talað við þennan félaga minn. Það er að segja ekki hefðbundið talað mál. Við tölum saman á okkar handapatísku með nokkrum stikkorðum, normal, good, bad, víra, mæna og bled.

Síðan klappar góðmennið mér á bakið með augunum þegar að mér hefur orðið á í messunni. Þegar okkur gengur vel þá er brosið eins og sól í heiði. Núna er kappinn að nálgast sextugt. Vonandi verður hann hér sem lengst.

Ég flýg heim og verð kominn um miðjan dag á laugardaginn sjötta júní. Sjóarinn síkáti er í fullum gangi í Grindavík og það verður gott að koma heim. Fjölskyldan bíður eftir því að kallinn komi eftir rúmlega mánaðar fjarveru. Fjarverunar eru einn partur af sjómennskunni og reynir þar á alla í fjölskyldunni.

Ég vil að lokum aftur óska öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.