Ævintýri í Ekvador

27.Júní'15 | 02:22

Eftir tvo daga í fallegu Quito datt okkur í hug að skella okkur í smá ævintýraferð enn hærra upp í fjöllin (en Quito er í 2820 metra hæð) og ákváðum að vera alvöru túristar og skrá okkur í skipulagða ferð sem skiptist í tvennt, hestbak um sléttur Andes fjallanna og ferð á Cotopaxi eldfjallið (sem er líklegt til að gjósa á hverri stundu). Þar ætluðum við að ganga upp í 5000 metra hæð og hjóla svo niður –allt með barnið á bakinu. Ef við yrðum heppin myndum við sjá toppinn á eldfjallinu og hugsanlegan gosmökk. 

Við vorum sótt á hótelið á þessum líka fína pallbíl þar sem dótinu okkar var bara hent á pallinn og brunað af stað. Ég kíkti annars slagið aftur í til að athuga hvort allt væri ekki á sínum stað en auðvitað vissi maðurinn hvað hann var að gera og áhyggjur mínar óþarfar. Klukkutíma seinna komum við á býlið sem við gistum á og hestarnir tilbúnir fyrir okkur.

Ég hafði ekki alveg hugsað þetta til enda, hver ætlaði að hafa Óskar hjá sér? Hestarnir voru mikið stærri en þeir íslensku, hvernig kemst ég á bak? Eru þeir gæfir? Ég kann ekkert á hesta… En hann Xavier fararstjórinn okkar lét þetta sem vind um eyrun þjóta. Magnus komst auðveldlega á hestinn sinn og svo var mér skipað að hendast upp á minn hest sem hét Joy en var víst karlkyns. Ég geri heiðarlega tilraun til að tosast upp á hestinn en dett niður eins og í hágæða hægri endursýningu á RÚV. Vinnumennirnir sem eru á fullu að háþrýstiþvo plötur steinhætta vinnu sinni til að hlægja að mér en eftir skipun frá Xavier koma þeir mér til bjargar og bókstaflega henda mér á hestinn. Síðan fer Xavier á bak og bjargvætta vinnumennirnir elta Óskar sem nú er hlaupandi á milli hesta og lamadýra, ringlaður hvað sé eiginlega í gangi. Þeir ná honum að lokum og fer svo að Xavier treystir engum nema sjálfum sér til að bera drenginn. Ég veit ekki hvort það hafi verið joggingbuxurnar hans Magnusar eða fallið mitt sem gaf það til kynna að við værum alls ekki vanir hestamenn, en ákvörðun fararstjórans var hárrétt.

Eftir smá misskilning á milli mín og Joy í byrjun sem endaði með smá prjóni og svo algerri neitun að stíga skrefin gekk þetta allt saman eins og í sögu og var ólýsanlegt að upplifa Andes fjöllin á hestbaki í poncho. Óskar stóð sig eins og hetja og var svo afslappaður að hann svaf hálfan túrinn. Eftir 4 tíma á hestbaki var ljúft að komast af baki og fá tilfinningu í rassinn aftur. Við fórum snemma í háttinn þennan daginn, enda eldfjallaklifur daginn eftir.

Morguninn eftir vorum við sótt af heilli rútu af pirruðum ferðamönnum sem komu frá Quito og voru greinilega ekki vanir háltíma-seinna reglunni sem er algild hér. Við komum okkur fyrir í rútunni og Óskar náði að kreista fram bros hjá flestum þeirra. Leiðin lá í átt að Cotopaxi en áður en við komum á leiðarenda var stoppað í lítilli sjoppu sem seldi bæði snickers og kókaín-lauf og kókaín-brjóstsykur sem átti að hjálpa við háfjalla-veikina sem hugsanlega gæti hrjáð okkur. Við tuggum þetta í gríð og erg og buðum meira að segja Óskari að smakka en að sögn heimamanna var þetta alveg barnvænt. Óskar vildi ekkert með þetta hafa en fagnaði hins vegar snickers-inu.

Við keyrðum upp í 4600 metra hæð þar sem rútan beið okkar og gangan átti að hefjast. 3 stiga hiti, alvöru íslenskt rok, þoka og haglél tóku á móti okkur og ég varð ansi svartsýn á að Óskar héldist í göngubakpokanum með haglél og rok í andlitinu. Við reyndum að ganga um 10 mínútur með hann en hann grét hástöfum og þar sem við vorum ekki viss hvort þetta var háfjallaveiki eða bara kuldi þá sneri ég við með hann og hlúði að honum inni í rútunni. Til allrar hamingju var barninu bara kalt því gráturinnn hætti um leið og hiti kom í kroppinn og snickers-ið góða í hendina.

Ekki lék lánið við okkur þennan daginn því þokan var svo þykk að ekkert sást. Hópurinn gekk alla leið að jökulmörkum í 5000 metra hæð (en fjallið er 5897 metrar) en sáu heldur ekki neitt (sem betur fer fyrir okkur Óskar sem ásamt nokkrum öðrum höfðum snúið við). En samt sem áður var hjólað niður eldfjallið á fáránlegum hraða í fáranlega vondu veðri en vá hvað það var gaman! Óskar varð eftir hjá rútubílstjóranum inni í rútunni sem ók á eftir okkur og þrátt fyrir frekar misheppnaða eldfjallagöngu fengum við æðislega salíbunu niður og komum glöð og kát til Quito.

Framundan er ferð á markaði innfæddra, heimsókn í heimabæ minn í Latacunga, skoða Quilotoa vatn og síðast en ekki síst ferð til Galapagos eyja. Bestu kveðjur heim og áfram Grindavík!

Ólöf Daðey Pétursdóttir