Páll Þorbjörnsson skrifar

VÁ REYKJANES

13.Júlí'15 | 07:50

Ég hugsa oft um hvernig þetta landsvæði varð til. Á sumum stöðum má auðveldlega sjá hvernig hraun rann til sjávar. Við lifum og munum lifa við það að við erum á virku svæði. Það eru ekki nema rúm 700 ár sem mikið að því hrauni sem við sjáum dags daglega varð til. Skaginn okkar er ungur í jarðfræðilegum skilningi.

 

Ég hef framtíðarsýn, ekki of skemmtilega. Það mun gjósa nálægt okkur meðan við lifum. Ég vona ekki. En kannski er ég of smitaður af þeim stað sem ég ólst upp á. Þar bjóst enginn við neinum hræringum, þar sem 5000 manna bæjarfélag þurfti að flytjast búferlum á einni nóttu.

Sumir komu til Grindavíkur, þar á meðal faðir minn, afi og Amma. Já Heimeyjargosið hafði afleiðingar. Værum við til í að byggja upp Grindavík á ný, ég spyr?. Faðir minn og afi stofnuðu hér veiðarfæraverslunina Bláfell, en seldu og snéru aftur heim til eyja.

Ég er kannski of svartsýnn, en ég hef varan á. Suðurstrandavegur er kominn, hann er almannavarnarvegur í ýtrasta skilning en um leið okkar gildra til að ná ferðamanninum.

Við getum aldrei verið undirbúin, enda ekki hægt að tímasetja hamfarir sem eldgos getur haft í för með sér. Þó svo að tæknin í dag sé önnur og betur sé hægt að sjá fyrir með fyrirvara. Erum við undirbúin þeirri vá sem hugsanleg er, erum við upplýst. Það er ég ekki viss um. Hvað með æfingar, hvað með að upplýsa íbúa, hvað með ef þetta gerist.

Íbúar Grindavíkur eru ekki öryggir, við höfum jú sjóleiðina, en hver eru áform  almanna varna. Mér hefur ekki verið kynnt þau.

Út úr stofuglugga mínum sé ég til fella og fjalla. Fjallabeltis sem nær til Hveragerðis. Þetta eru svæði sem eiga sögu. Mörg þúsund ár og niður í árhundruð. Erum við örugg. Svarið er alltaf NEI.

Ég hef kastað fram spurningu um hvaðan nafnið Grindavík sé komið. Ein tilgátan sem mér hefur verið sögð er sú að til forna var landsvæðið torvelt í yfirferð vegna úfins hrauns. Ég fer oft inn á góða síðu um sögu Reykjaness.www Ferlir.is frábær síða sem er full af fróðleik, mæli með að fólk kynni sér þá síðu.

Ég er mikill áhuga maður um land og hvernig land byggðist upp, oft velti ég mér fyrir mér hvort það sé minn vettvangur. Ég hef áhveðið að vera leikmaður, eins og þið hin.