Arna er kokkur vikunnar

18.September'15 | 03:28

Þar sem ég legg ekki í vana minn að skorast undan áskorunum þá varð ég við þessari áskorun Unndórs, óvinar míns. Þeir sem þekkja mig vita að ég verð seint kölluð sælkerakokkur en hver veit hvort ég leggi matreiðslu fyrir mig í framtíðinni. 

Ég reikna fastlega með að Unndór hafi aldrei eldað sitt salat sjálfur en hann getur alltaf boðið mér í mat þess til sönnunar.  Þó að ég sé ekki sælkerakokkur þá þykir mér samt ekki leiðinlegt að borða góðan mat en Sushi er í miklu uppáhaldi.

Þessi aðferð hefur reynst mér best:

 Sushi-bitar Örnu

 Hráefni:

·         Stutt hrísgrjón (best að nota sushi-hrísgrjón en annars önnur stutt hrísgrjón)

·         Hrísgrjónaedik

·         Sykur

·         Salt

·         Sojasósa

·         Wasabi-mauk

·         Nori þarablöð

·         Fiskur

·         Grænmeti

·         Ostar og sósur

 Aðferð:

1. Kæla hvítvínið.

2. Milli klukkan 17 og 18 – hringja í 420-8800

3. Panta 20 -30 Sushi bita – fer eftir hversu margir eru í mat

4. Leyfi kokkinum á Lava að ráða valinu

5. Næ í bitanna á leiðinni heim úr vinnu

Það var vandi að velja hver yrði næstur en ég tel að Bergvini Ólafarsyni sé margt til lista lagt og hlakka til að sjá hans matargerð.

Með bestu kveðjum Arna Björg Rúnarsdóttir.