Lygin er Lotterí

18.September'15 | 03:53

Margir taka nú eftir breytingum í samfélagi okkar. Fólk er orðið leitt á augljósri lygi fólks með mikil völd. Þetta er farið að hafa mikil áhrif á fylgi flokka.

Í raun er fjórflokkurinn svokallaði kominn niður í járn í fylgi. Hvort að það járn ryðgi í gegn verður að koma í ljós. Ég hef heyrt af ýmsum vangaveltum um hvers vegna þetta sé að gerast.

Breytingin sem á að mínu mati langmestan þátt í  hruni flokka er gegnsæi veraldarvefsins.

Að standa og segja ósatt á atkvæðaveiðum fyrir kosningar er orðið illmögulegt. Það er að segja ef þú vilt ekki vera staðinn að verki. Myndavélar og hljóðupptökur eru allstaðar.

Samt sem áður hafa dæmin sýnt að stjórnmálamenn ljúga sig til valda. Þeir hafa gripið til lyginnar til að halda flokkum saman eða til að fá nýja til liðs við sig. Verst hefur mér þótt að sjá hvað menn eru öruggir með sig mitt í lygavefnum. Þeir reikna ekki með afleiðingum.

Ýmis loforð hafa á undanförnum árum flogið út í loftið á atkvæðaveiðum. Allir þekkja einhver svikin loforð sem að spiluð eru á facebook eða á öðrum samfélagsmiðlum. Þeir sem staðnir eru að verki eiga ekki að sleppa með það.

Þjóðin hefur kallað eftir heiðarleika stjórnmálamanna, bæði á þjóðfundi og úti í samfélaginu. Stjórnmálin hafa ekki orðið við því ákalli. Þingið er rúið trausti. Næsta skref hlýtur því að vera að þrengja með lögum það frelsi sem þingmenn hafa haft til að viðhafa óheiðarleika.

Það ætti að smíða afgerandi lög um ábyrgð þingmanna á orðum sínum í aðdraganda kosninga. Að gera stjórnmálamönnum það illfært að ljúga sig til valda.  

Ef að þú lofar einhverju, eins og til dæmis þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál, Þá verður þú að leggja fram frumvarp þess efnis innan t.d. sex mánuði frá kosningum. Þegar kosið væri um þessi frumvörp væri nafnakall þannig að ekki færi á milli mála hver kysi hvað.

Flókið segja þingmenn eflaust. Hvað er flókið við það smíða lög um ábyrgð á því að lofa t.d þjóðaratkvæðagreiðslu um stórmál fyrir kosningar. Eða að lofa að byggja spítala, smíða nýja ferju, breyta kvótakerfi eða afnema verðtryggingu. Hrein og klár loforð.

Viðurlög við kosningasvikum ættu að vera hörð enda um almannahagsmuni að tefla. Þeir sem að komast til valda með svikum hafa ekkert við völd að gera. Þeir ættu þannig að vera búnir að dæma sjálfa sig úr leik.

Þjóðin á að hafa möguleika á því að gefa rauða spjaldið við þessar aðstæður. Ekki eftir fjögur ár. Heldur strax þegar brot er framið innan ramma nýrra laga um ábyrgð þingmanna á orðum sínum og gerðum.

Með þessu gæti tvennt gerast. Innistæðulaus loforð myndu hverfa og traust þjóðar á þingi myndi vaxa.

Ekki veitir af.