Ólöf Daðey Pétursdóttir skrifar

Mánahraunsrokkararnir spila á Karabíska hafinu

12.Nóvember'15 | 23:04

Það þekkja flestir Grindvíkingar fimm stráka fjölskylduna í Mánahrauni. Þeir Guðjón, Sighvatur, Pálmar, Fjölnir og Hilmir sjá til þess að halda foreldrum sínum Sólnýju og Svenna uppteknum frá degi til dags.

Það sem flestir vita kannski ekki er að alla tíð hefur tónlistin skipað stóran sess í uppeldi drengjanna. Svenni og Sólný kynntust í hljómsveit í framhaldsskóla og þar kynnti Svenni Sólnýju fyrir tónlistinni sinni eins og hann kallar það en Sólný hafði fram að því meira verið að syngja rómantísk sjómannalög með móður sinni Margréti Sighvatsdóttur. Hér má heyra 26 ára gamla upptökufrá þeim tíma með hljómsveitinni þeirra sem hét Efri deild Alþingis og lagið heitir Morgundagurinn.

Elsti sonurinn, Guðjón, ólst svo upp við að hlusta á hljómsveitir á borð við Pink Floyd, Rush, Police, Peter Gabriel og þegar fjölskyldan bjó á Djúpavogi bað sá stutti um að fá að hlusta á Rush á leiðinni á milli Djúpavogs og Grindavíkur og lét pabba sinn um að hækka hressilega í græjunum. Tónlistin hefur ávallt fylgt Guðjóni sem kláraði nám við Verzlunarskóla Íslands í síðasliðið vor stundar nú nám við Háskóla Íslands og stefnir einnig á hljóðupptökunám eftir áramót. Guðjón þykir mjög efnilegur gítarleikari og mun eflaust ná langt á því sviði. Hann spilaði til að mynda á níu tónleikum á sex dögum á Airwaves hátíðinni um síðustu helgi með hjómsveitunum sínum Váru og Ring of Gyges, sjá hér Facebooksíðu þeirra síðarnefndu.

En ólíkt jafnöldrum sínum vildi Guðjón ekki eyða peningum sínum í útskriftarferð með tilheyrandi djammi, heldur gera eitthvað allt annað. Hann fann áhugaverða siglingu um Karabíska hafið auglýsta á Facebook síðu hljómsveitarinnar Yes. Þetta er sigling þar sem tónlistin ræður ríkjum og stór bönd troða upp ásamt svokölluðu semi-pró tónlistarfólki. Honum fannst komið að því að kynna foreldrum sínum fyrir nýrri Prog rock tónlist sem hann er hlusta á í dag, og bað þau um að skoða þessa siglingu og hvort að þau ættu ekki að senda inn prufur til að reyna að komast að sem semi-pró tónlistarfólk. Þau sendu inn upptökur og voru samþykkt. Það kom dómnefndinni skemmtilega á óvart að þau væru skyld en það kom ekki í ljós fyrr en eftir að var búið að velja tónlistarfólkið.

Fyrirkomulagið er þannig á siglingunni að stóru böndin, sjá listann hér, spila fyrst og svo spilar semi-pró tónlistarfólkið með einhverjum aðilum úr stóru böndunum, sjá listann hér,  en það er kallað After hours electric prog jam.

Svenni, Sólný og Guðjón koma ýmist fram ein eða saman með tónlistarfólki frá ólíkum stöðum í heiminum. Saman spila þau lagið Trains (Porcupine Tree) þar sem Sólný syngur, Svenni er á bassa og Guðjón á gítarnum, á trommum verður enginn annar en trommuleikarinn úr Steve Rothery Band auk þess sem hann mun spila í siglingunni með Marillion. Svenni spilar á bassa í laginu Wish you were here og hefur engar smá söngkonur (Lorelai og Durga McBroom) með sér en það eru systur sem hafa túrað með Rod Stewart, Rolling Stones, Pink Floyd og fleirum. Lokalag siglingarninnar fær Guðjón svo þann heiður að spila ásamt bassaleikaranum úr Neal Morse band lag með “Supergrúppunni” Transatlantic auk þess að spila lag með trommuleikaranum úr kanadísku hljómsveitinn Saga. Herlegheitin byrja á fortónleikum í Miami á laugardeginum og svo verður lagt upp í 5 daga siglingu með viðkomu á Bahamas og Key west. Hérna má sjá kynningu semi-pró tónlistarfólksins og er okkar fólk að sjálfsögðu á listanum .

Aðspurð hvort þau hafi ekki þurft að æfa sig mikið þá segja þau að feðgarnir hafi aldrei hljómað betur en mömmunni er þetta svo eðlislægt að hún þurfi bara að læra textana og ætli að nota tímann í flugvélinni til að gera það. Sighvatur, sem er næst elstur af strákahópnum þeirra, fer einnig með í ferðina.

Við hlökkum til að heyra hvernig þetta hefur gengið hjá Mánahraunsrokkurunum og óskum þeim góðs gengis. Við erum viss um að þau verði Grindavík og Íslandi til sóma. Áfram þið!

Ólöf Daðey Pétursdóttir.