Íslandsmeistararnir sýndu heimamönnum enga miskunn

26.Nóvember'15 | 22:14

   Hjá Grindavík var Eric Wise stigahæstur með 21 stig og 10 fráköst, Jóhann Árni setti niður 15 stig og gaf 3 stoðsendingar og Ómar var með 13 stig og 16 fráköst.

    Leikurinn í kvöld var nú ekki eins skemmtilegur og við “lofuðum” hér á grindavik.net. Hann byrjaði hægt og voru liðin að skiptast á skora í fyrsta leikhluta þangað til á lokamínútunum þá gáfu KR-ingar aðeins í og enduðu leikhlutann með 7 stiga forystu 20:27. 

 Annar leikhluti var eiginlega keimlíkur, leikurinn var frekar hægur og vörnin var sterk, þá sérstaklega hjá KR-ingum sem náðu trekk í trekk að ýta Grindvíkingum út úr sókninni sinni og koma þeim þannig úr jafnvægi. Gestirnir voru yfir allan tíman en heimamenn náðu að hanga í þeim út fyrri hálfleikinn og setja fínar körfur niður. Jóhann Árni var ágætlega sprækur í fyrri hálfleik hjá okkar mönnum en annars var eins og fæstir hefðu mætt til leiks.  Staðan í hálfleik 36-44.  Grindvíkingar náðu skora fyrstu körfuna í þriðja leikhluta en voru alltaf skrefinu á eftir gestunum úr Vesturbænum. 3. leikhluti var eiginlega sýning af hálfu  Ægis Þórs Steinarssonar leikmanns KR sem hreinlega funhitnaði eftir hnoð við Jón Axel undir körfu heimamanna og það héldu honum engin bönd það sem eftir lifði leiks. 

    Grindvíkingar náðu aldrei að komast inn í leikinn og bilið á milli liðanna breikkaði bara í fjórða leikhluta og fengu yngstu leikmenn beggja liða að klára leikinn.  Ómar var sá eini með lífsmarki í röðum heima manna í síðasta leikhlutanum og reif niður fráköst einsog honum einum er lagið. Lokatölur 73-93.

   Hjá Grindavík var Eric Wise stigahæstur með 21 stig og 10 fráköst, Jóhann Árni setti niður 15 stig og gaf 3 stoðsendingar og Ómar var með 13 stig og 16 fráköst.  Kr-ingurinn Michael Craion setti niður 20 stig og tók 14 fráköst og áðurnefndur Ægir Þór setti 15 stig og var með 6 stoðsendingar og eins má nefna þátt Snorra Hrafnkels sem kom sterkur inn af bekknum og setti 19 stig á 20 mín.