Guðmundur Ásgeirs kokkur vikunnar

6.Desember'15 | 06:42

Ég vil byrja á því að þakka kaupmanninum og útivistardrottningunni henni Rakeli Einars fyrir áskorunina. Þetta er þrælmikil áskorun því ég get með góðri samvisku sagst vera ágætur í mörgu, en eldamennska er ekki eitt af því. 

Ef að listinn yfir innihaldið í uppskriftinni er mikið yfir 5-6 atriði lendi ég í vandræðum þannig að ég reyni að halda mig undir því.

Ég gerði einn einfaldan rétt sem ég fann síðustu helgi og uppfyllti skilyrðin um fjölda hráefna. Hann er kallaður krakkavæni kornflexkjúklingurinn og er svona:

Kornflexkjúklingur

4 kjúklingabringur

1 dós sýrður rjómi

2 bollar mulið kornflex

1 msk krydd (bara það sem er til í kryddskápnum, papríka, grænmetiskrydd t.d.)

1 msk brætt smjör

Aðferð

1. Hitið ofninn á 175°c.

2. Látið bringurnar og sýrða rjómann í poka og blandið vel saman.

3. Látið mulið kornflexið og kryddið á disk og blandið vel saman.

4. Dýfið kjúklinginum húðuðum sýrða rjómanum í kornflexið og látið það hylja allan kjúklinginn.

5. Látið kjúklinginn ofnfast mót sem hefur verið penslað lítillega með olíu.

6. Hellið smjörinu yfir kjúklingabringurnar.

7. Látið í ofninn og eldið í um 1 klukkustund.

Þetta gerist ekki mikið einfaldara en ég hafði með þessu salat og hrísgrjón. Svo væta menn í þessu eftir smekk en ég var með piparsósu sem mér fannst stórfínt.

Karrýfiskur

Þessi réttur er alveg á mörkunum því að það eru 7 hráefni í karrýsósunni sem fer yfir fiskinn. Það þarf að hafa einbeitninguna í lagi hérna

• 600 g ýsuflak

• 2 dl hrísgrjón t.d. jasmín

• 4 dl vatn

• salt

 

• Sósa

• 4 msk majónes

• 2 dl súrmjólk eða grísk jógúrt

• 2 tsk gott karrí

• örl. af Aromati

• 1 tsk Maldon-salt ofan á fiskinn.

• 100 g sveppir

• 4 msk rifinn ostur

Hrísgrjónin eru soðin þangað til þau er rétt mátuleg undir tönn.

Það sem fer í sósuna er hrært saman í skál.

Soðin hrísgrjónin eru sett í smurt eldfast fat, þjappað aðeins og þessu næst er fiskinum, sem skorin hefur verið í bita, raðað yfir og Maldon-saltinu stráð ofan á. Sneiddum sveppum dreift yfir. Og sósunni þessu næst hellt yfir og jafnað út. 

Bakað í ofni við 200° hita í ca 30 mín. og þá er rifnum ostinum dreift yfir og bakað í 10 mín. í viðbót eða þangað til osturinn hefur fengið á sig gulbrúnan lit.

Gera má réttinn enn sparilegri með því að setja rækjur á móti fiskinum. 

Ég vil svo skora á Alfreð Elías Jóhannsson, nýráðinn aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla hjá ÍBV að vera næsti kokkur vikunnar. Hann er góður fulltrúi okkar Grindjána á Heimaey.