Viktor Scheving Ingvarsson skrifar

Gott innlegg í umræðuna, sagði hann

8.Desember'15 | 00:19

Undanfarinn ár hef ég haft meiri áhyggjur. Nýjar áhyggjur, öðruvísi tilfinning.  Kannski fylgir það því að verða miðaldra að hafa meiri áhyggjur af öllu á milli himins og jarðar.

Ég horfi í kringum mig á veröldina og mér finnst halla undan fæti á flestum sviðum. Það er mikill ófriður í veröldinni.

 Hundruð þúsunda stríðshrjáðra flóttamanna flýja heimkynni sín í leit að betra lífi. Hvernig skyldi öllu þessu fólki líða á þessu erfiða ferðalagi, maður gerir sér varla fulla grein fyrir því. Það hlýtur að vera erfitt að vera á þessum flótta með börn sín. Það hlýtur að vera erfitt að vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sér.

Stórveldin eru að dragast meira inn í átök sem að enginn veit hvar enda. Rússlandsforseti er til alls líklegur. Vesturveldin eru heldur ekki skárri í þessu hernaðarbrölti. Vonandi tekur atburðarásin ekki völdin. Vonandi hafa menn stjórn á gjörðum sínum.

Hryðjuverk eru tíðari nú í hinum vestræna heimi en áður. Í mörgum löndum eru þau daglegt brauð. Fólk virðist meira dofið fyrir fréttum frá þeim löndum en þar sem friður hefur ríkt.

Eitt af því sem ég hef hugsað meira um en áður eru umhverfismál. Ég hugsaði lítið um þann málaflokk áður fyrr. Ég tók þátt í spjalli sem að talaði niður umhverfisverndarsinna. Ég er hættur því!

Eitt það nýjasta sem ég hef heyrt í sambandi við umhverfismál er að kuldapollur hefur myndast sunnan við Ísland. Hvers vegna myndaðist hann. Hvaða áhrif hefur hann. Er þetta svona vegna þess að straumar eru að breyttast. Hvað ef umhverfið hér breyttist þannig að einhverjir fiskistofnar hætti viðkomu hér. Hvað ef hafið í kringum Ísland verður ísilagt ef Golfstraumurinn breytir stefnu eða hægir verulega á sér. Hvað gerist þá. Þó að áhyggjurnar beinist að hlýnun jarðar þá gætu hlutirnir æxlast þannig hér að það kólnaði verulega.

Við vitum ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér. Okkur ber allavega örugglega skylda til að hugsa alvarlega um öll þessi mál. Það gerist ekkert af sjálfu sér.  

Til að sefa hugann hugsa ég stundum til baka í söguna. Ég hugsa t.d um mann um fimmtugt árið  1945. Hann er búinn að berjast í tveimur heimstyrjöldum. Búinn að eyða stórum hluta ævi sinnar í hernaði, marineraður af sársauka. Búinn að missa mikið af fólki í tilgangsleysi stríðs sem enginn vann en allir töpuðu. Skyldi þessi maður hafa meiri trú á framtíðinni heldur en ég 70 árum síðar, sennilega ekki.

 Inni í framtíðinni er kannski meiri samvinna. Samvinna hefur stundum myndast þegar að mannkynið er búið að mála sig út í horn. Sameinuðu Þjóðirnar voru stofnaðar úti í horni eftirstríðsára. Við málum okkur nú út í horn umhverfibreytinga. Við höfum alls ekki staðið okkur vel í umhverfismálum. Kannski við náum ekki samstöðu fyrr en við getum ekki annað. Vonandi verður það ekki of seint.

 Jólin eru að koma. Kannski er núið ekki svona snúið. Kannski er þetta bara ágætt í dag. Ég ætla að reyna að vera bjartsýnn. Ég vona að þú sem lest þetta eigir góða daga framundan með þínu fólki. Verum góð hvert við annað. Það besta sem þú gerir fyrir sjálfa/n þig er að gefa af þér. Sú tilfinning sem myndast þegar þú gefur af þér er það sem vonir okkar byggja á. Ef að við öll ákveðum að lifa lífinu í þessari frábæru tilfinningu, þá munum við svo sannarlega upplifa vonir okkar um betri heim rætast.