Viktor Scheving Ingvarsson skrifar

ERRARE HUMANUM EST

11.Desember'15 | 01:41

Errare humanum est,  að verða á að gera mistök er mannlegt, þetta er haft eftir rómverska heimspekingnum Seneca fyrir tuttugu öldum síðan. Mannleg hegðun hefur lítið breyst frá tímum rómverja. Þetta hefur verið vitað í allan þennan tíma og örugglega lengur.

Í fræðum 12 spora samtaka segir „Þegar út af bar viðurkenndum við yfirsjónir okkar undanbragðalaust“ Þarna er í raun sama hugsun að baki og hjá Seneca fyrir 20 öldum síðan. Það segir ekki ef út af ber, heldur þegar út af ber. Að það sé öruggt að þú gerir mistök, það er ekki hjá því komist ef þú ert mennskur.

Hvernig stendur þá á því að fólk almennt leyfir sér ekki að gera mistök. Af hverju er fólk að berja sig í huganum fyrir jafnvel hin minnstu mistök. Af hverju að berjast við það að vera nánast fullkominn ef það er ekki hægt. Þetta finnst mér skrítið en ég hef tekið þátt í þessu af fullum þunga í gegnum lífið.

 Ætli það sé jafnmannlegt að vilja ná fullkomnun eins og það að mistök eru óumflýjanleg, mér finnst það vera þannig. Það er „frábært“ að vilja alltaf hið ómögulega. Það er vandlifað í þessum rússíbana sem að lífið getur verið.

Jólin eru að koma. Það þýðir að það er meira álag er á okkur flestum. Á álagstímum er manneskjunni hættara við mistökum en þegar að allt er í rólegheitum. Okkur er sem sagt hættara við að gera mistök á næstu dögum.

Það verður samt að halda einu til haga. Það er fullt af fólki sem að hefur náð að fækka verulega mistökum í lífsins ólgusjó. Það hefur lært af mistökum sínum. Það veit að það verður aldrei fullkomið. Það gerir sín mistök en þeim fækkar með árunum.  

Jólin eru að koma. Fjölskyldur sameinast og eiga góðar stundir saman. Vonandi eiga sem flestir gleðileg jól. Ég veit það eitt að ég ætla að eiga "fullkominn" jól.