Troðfullt veski bæjarstjóra?

17.Desember'15 | 00:29

Ég las frétt á vef víkurfrétta. Fréttin var um fjárhagsáætlun Grindavíkurbæjar. Þetta er mjög jákvæð frétt fyrir Grindavík, en það sama má ekki segja um Reykjanesbæ. Það var samt aðallega fyrirsögnin „Troðfullt veski hjá bæjarstjóranum í Grindavík“ sem vakti mig til umhugsunar.

Er veski Grindvíkinga troðfullt eða eigum við ekki frekar að segja að staðan sé eðlileg. Eins og við viljum alltaf hafa hana.

Það á að hrósa stjórnendum og starfsfólki Grindavíkurbæjar fyrir góða stöðu fjármála, það hefur verið gert hér á Grindavík.net.  

Mér finnst það hinsvegar ákveðin léttúð og ábyrgðarhluti að tala um troðið veski bæjarstjóra.

Mörg sveitarfélög hafa farið flatt á því á undanförnum árum að eyða aðhaldslítið um efni fram. Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í umræðu um meðferð fjármuna í eigu almennings, aðhald fjölmiðla er nauðsynlegt, þeir mega ekki dansa með þegar óvarlega er farið.

Ég varð lítið var við það að Reykjanesbær hafi verið að sigla í fjárhagsvandræði fyrr  en undir það síðasta.

Lengi vel leit út fyrir að bæjarstjórinn í Reykjanesbæ væri með úttroðið veski. Því miður var það ekki svo fyrir íbúa bæjarins.

Grindavíkurbær stendur vel að vígi í dag. Það er ekki sjálfgefið að svo verði áfram. Göngum hægt um gleðinnar dyr.