Kjúklingaréttur og súkkulaðimús

Albert Sævars kokkur vikunnar

19.Desember'15 | 05:57

Albert Sævarsson er kokkur vikunnar að þessu sinni, hann ætlar að bjóða uppá kjúkling með sætum kartöflum og Ritzkexi.

 

Kjúklingaréttur með sætum kartöflum og Ritzkexi. 

·        Það sem þarf er:

·        Ein stór sæt kartafla

·        Ein krukka feta ostur

·        Einn bakki kjúklingabringur

·        2 msk. mango chutney

·        Einn pakki ritzkex.

Kartaflan rifin niður með rifjárni í eldfast mót og fetaostinum hellt yfir. 

Næst er kjúklingur skorinn í bita, steiktur á pönnu og mango chutney sett yfir, setja kjúklinginn ofan á kartöflurnar og brjóta ritzkexið yfir allt. Síðan er álpappír settur yfir og bakað við 180 gráður í 20 mínútur. 

Súkkulaðimús (fyrir 4).

·        100 g súkkulaði (gjarnan 50 g rjómasúkkulaði og 50 g suðu-súkkulaði)

·        2 eggjarauður

·        2,5 dl rjómi 

Bræðið súkkulaðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Látið það kólna aðeins áður en eggjarauðum er hrært saman við. Hrærið þar til blandan er orðin slétt (ef hún verður kekkjótt eða of þykk er smá rjóma hrært saman við).  Þeytið rjómann en alls ekki of stífan. Hrærið léttþeyttum rjómanum saman við súkkulaðiblönduna í smáum skömmtum með sleikju. Hrærið blöndunni varlega saman þar til hún hefur blandast vel.  Setjið súkkulaðimúsina í 4 skálar og látið standa í ísskáp þar til hún hefur stífnað. Berið fram með berjum og jafnvel þeyttum rjóma. Verði ykkur að góðu.

Ég skora á Sigga Alfreðs. Ég vil ekki þakka Alla fyrir að skora á mig svo ég skora á frænda hans.