Ég er NÓG!

3.Janúar'16 | 23:43

Að eiga nóg af öllu þýðir hagsæld, eða búa yfir mikilli velmegun.

               Það er mikið lagt upp með að kenna okkur út á hvað ábyrgur og þroskaður einstaklingur þarf til að lifa í okkar samfélagi. Alveg frá fæðingu, þá eru leiðbeinendur okkar (foreldrar, kennarar, gangaverðir, þjálfarar, æskulýðsfulltrúar, stjórnmálamenn, fjölmiðlar, trúarbrögð o.fl.) að leggja sig fram við að kenna okkur og móta eftir þeim samfélagslegum viðmiðum sem eru uppi hverju sinni.

                Þrátt fyrir góðan ásetning hjá öllum þeim sem leiðbeindu mér í gegnum tíðina, þá upplifði ég allt of oft að ég væri ekki nóg. Leiðbeinendur mínir gáfu mér þekkingu og leikni til að lifa í samfélagi þar sem að ákveðin viðmið eru til staðar og álitin vera samfélagslega rétt en þau gleymdu að færa mér þá visku sem fylgir því að geta upplifa sig við hverjar aðstæður sem koma upp að „ég sé NÓG“.

                Það er mín reynsla að ef ég ætla að taka þátt í viðmiðum samfélagsins á þann hátt að ég þurfi að uppfylla þau, þá er ég sjaldan NÓG. Það var alveg sama hvort ég var bestur í einhverju eða lakastur, viðmiðin voru alltaf þannig að mér fannst ég sjaldan nóg á mínum yngri árum. Ég finn enn fyrir þeirri tilfinningu að vera ekki nóg en ég er meðvitaður um að það er ekki út frá mínum viðmiðum, heldur samfélagsins.        

                Við þráum öll að verða viðurkennd og að okkur sé gefin gaumur fyrir það sem við gerum og það sem við erum. En samfélagið er of upptekið af þeim viðmiðum sem það hefur sett sér að það getur ekki leyft sér að hrósa þér eða verðlauna þig fyrir það sem þú ert. Það er alltaf það sem þú átt að verða eða hefur verið. Af hverju eyðum við mest allri orku okkar í að viðhalda grímu sem að samfélagið getur sætt sig við í stað þess að vera það sem ég er, sem er NÓG.

Með vinsemd og virðingu
Pétur Rúðrik Guðmundsson