Í minningu Önnu Lísu.

24.Janúar'16 | 05:42

„Þegar barn er í vændum er tilhlökkunin venjulega mikil, allar væntingar standa til þess að í heiminn verði borinn einstaklingur sem foreldrar og aðrir aðstandendur eiga eftir að njóta framtíðarinnar með.

Á hverju ári verður þó fjöldi fólks fyrir þeirri djúpu sorg að framtíð þessa litla einstaklings verður að engu, þegar barnið fæðist andvana, of snemma til að eiga sér líf, eða deyr eftir fæðingu. Eftir sitja foreldrarnir með brostnar vonir, tóma vöggu og þunga sorg sem engin orð duga til að lýsa. Þó eigum við orð sem lýsa börnum án foreldra, mökum án maka en ekkert orð yfir það að vera foreldri sem misst hefur barn. 

Sorgin vegna framtíðarinnar sem ekki varð er þó ekki einungis foreldranna. Hún er líka sorg ömmu og afa, systkina, frænda, frænku og vinanna. Allt þetta fólk upplifir sorgina með ástvinum sínum“. 

Þessi orð skrifaði vinur minn og fyrrum samstarfsmaður Guðbjartur heitinn Hannesson þá velferðarráðherra í Fréttablaðið 15. október 2012. Tilefnið var  minningarathöfn sem stuðningshópurinn Englarnir okkar stóð fyrir í Hallgrímskirkju um missi á meðgöngu og barnsmissi. 

Ég skrifa þetta og nefni vegna þess að fyrir um sextán mánuðum varð annar fyrrum samtarfsmaður minn og vinur Einar Árni Jóhannsson, kona hans Gulla Sveins og drengirnir þeirra fyrir þeirri sáru lífsreynslu að dóttirin og systirin Anna Lísa fæddist andvana. Málið vakti athygli og Einar Árni tjáði sig um þessa reynslu fjölskyldurnar í fjölmiðlum og m.a. skoraði hann á þingmenn að láta til sín taka og jafna það óréttlæti sem í lögum um fæðingar- og foreldraorlof fælist. 

Óréttlætið fólst í því að fæði kona andvana barn á hún og maki ekki rétt nema á eins og hálfsmánaðar fæðingarorlofi. Fæðist barn lifandi en deyr síðan eiga foreldrar rétt á fullu fæðingarorlofi. Ég tók vin minn á orðinu og lagði fram frumvarp sem ætlað var að jafna þetta óréttlæti og er skemmst frá því að segja að nú í janúar var þetta frumvarp afgreitt með nefnaráliti og breytingartillögu úr velferðarnefnd. Að sjálfsögðu hefði ég viljað að gengið hefði verið alla leið og fullt fæðingarorlof yrði niðurstaðan en í pólitík þarf oftar en ekki að komast að málamiðlunum og það varð raunin í þessu máli. 

Í nefndaráliti segir m.a. „Fyrir nefndinni kom jafnframt fram að reynslan sýndi að núgildandi réttur til fæðingarorlofs eða -styrks í kjölfar andvanafæðingar veitti foreldrum ekki nægt svigrúm til að jafna sig. Nefndin telur í ljósi þessa rétt að rýmka rétt til fæðingarorlofs eða -styrks í kjölfar andvanafæðingar þannig að hvort foreldri eigi sjálfstæðan rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs eða -styrks í kjölfar andvanafæðingar og leggur til breytingar á frumvarpinu því til samræmis“.

Ég er sáttur með þessa niðurstöðu ekki síst í ljósi þess að ef ég hefði ekki gefið eftir þá hefði málið ekki fengið framgang. Þetta er skref i átt að betri umgjörð til handa þeim sem verða fyrir þeirri erfiðu lífsreynslu sem andvanafæðing er. Ég er einnig sáttur við að hafa brugðist við ákalli Einars Árna og Gullu og reynt með því að uppfylla þá skyldu mína að vera þjónn almennings í landinu. 

Og minningin um Önnu Lísu lifir í hjörtum okkar.