“Kristin arfleifð íslenskrar menningar” og mannréttindin.

17.Febrúar'16 | 06:41

Vissuð þið að í íslensku grunnskólalögunum er ekki minnst einu orði á mannréttindi?

 

Í annarri grein laganna þar sem fjallað er um markmið þeirra segir:

“Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi”. 

Ekki orð um mannréttindi! Finnst ykkur það eðlilegt?

Mér finnst það alls ekki. Þess vegna hef ég lagt fram frumvarp um að “mannréttindum” verði bætt í markmiðsgrein grunnskólalaganna.

Og hvers vegna finnst mér nauðsynlegt að það verði gert?

Vegna þess að á Íslandi er verið að brjóta alvarlega gegn mannréttindum og ekki síst mannréttindum barna með margvíslegum hætti alla daga ársins. 

Meira en 6000 íslensk börn líða efnislegan skort og þeim hefur fjölgað mikið frá árinu 2009. Ný skýrsla Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, sýnir þetta svart á hvítu. Í okkar auðuga landi eru mörg þúsund börn sem fara ekki aðeins á mis við tækifærin sem félagar þeirra fá og finnst sjálfsögð til að stunda félagslíf og íþróttir og læra á hljóðfæri og fara í ferðalög, þroskast og njóta lífsins, heldur börn sem vegna fátæktar fá ekki viðunandi næringu, búa í vondu og óöruggu húsnæði og klæðast lélegum fötum. 

Margoft hefur verið bent á óþolandi langa biðlista hjá börnum sem þurfa greiningar og viðeigandi stuðning vegna ýmiss konar skerðinga. Gleymum því aldrei að þetta eru börn af holdi og blóði með tilfinningar, væntingar og  metnað og löngun til að verða hamingjusamt fólk. Ef þau fá ekki viðeigandi stuðning og þau tækifæri sem hann skapar munu þær vonir margra þeirra alls ekki rætast. Mörg þeirra munu ekki ná að fóta sig í námi, verða afskipt og einangruð félagslega og óhamingjusöm.

Og það eru ekki bara íslensk börn sem ekki fá að njóta mannréttinda hér á landi. Það mátti glöggt heyra á málþingi um flóttabörn sem UNICEF og lögfræðisvið Háskólans á Bifröst héldu fyrr í þessum mánuði.

Þar kom fram að íslensk stjórnvöld standa sig alls ekki gagnvart börnum sem leita hælis hér á landi. Þau njóta ekki sérstakrar verndar og stuðningur við þau er stopull, ef hann er þá einhver yfirleitt. Þeim er ekki trúað og ekki við þau talað og aðgengi þeirra að menntun og annarri grunnþjónustu er oft mjög ábótavant. 

Ég hef, ásamt fleiri þingmönnum, lagt fram þingsályktunartillögu um að dagurinn sem Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna  var samþykktur, þ.e. 20. nóvember ár hvert, verði helgaður fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins. 

Ég geri þessa tillögu og legg fram þetta frumvarp um að “mannréttindum” verði bætt í markmiðsgrein grunnskólalaganna til að börn og ungmenni fái örugglega fræðslu um mannréttindi, virðingu fyrir mannlegri reisn allra, skylduna til að styðja þá sem standa höllum fæti og tryggja jöfn tækifæri fólks. Ástandið í íslensku samfélagi og áherslur íslenskra stjórnvalda sýna svo ekki verður um villst að það er bráðnauðsynlegt að auka þessa fræðslu svo að ráðamenn fái það aðhald og þau skilaboð frá almenningi sem þeir þurfa svo nauðsynlega á að halda. Ég trúi því og treysti að börnin okkar sem munu erfa þetta land muni standa sig miklu betur við það en við sem eldri erum.