Ólöf Daðey Pétursdóttir

Prinsinn af Tuvalu og Leikhúsraunir

17.Mars'16 | 04:46

Grunnskóli Grindavíkur frumsýndi í dag tvö verk, Prinsinn af Tuvalu og Leikhúsraunir. 

Sýningarnar tókust gríðarlega vel og var það mál manna að nemendurnir hafi staðið sig með stakri prýði. Mikið er um söng og gleði og ótrúlegt hvað Grunnskóli Grindavíkur er ríkur af hæfileikaríkum söngvurum og leikurum. Það er engin smá vinna sem fer í uppsetningu sem þessa og margt sem þarf að huga að. Ég tók að mér að vera leikstjórunum Pálmari og Kristínu til aðstoðar en ég hef aldrei tekið að mér slíkt hlutverk áður, enda þekkt fyrir það að geta alls ekki leikið. Ég var því að stíga mín fyrstu spor eins og margir í leikarahópnum. Ferlið byrjaði á því að við völdum leikrit, síðan var farið í að lesa handritið og setja í hlutverk. Þá var farið að æfa á fullu og núna nokkrum vikum seinna er verkið fullklárað og krakkarnir sem byrjuðu margir sem óreyndir leikarar standa uppi með leiksigrana hægri vinstri. 


Prinsinn af Tuvalu fjallar um strák sem er nýr við Grunnskóla Grindavíkur og þær raunir sem því fylgir að vera nýr í skóla. Pálmar Örn Guðmundsson samdi leikritið sem og lögin í því. Það eru nemendur 7. og 8. bekkjar sem flytja verkið. 

Það eru nemendur í 9. og 10. bekk sem flytja leikritið Leikhúsraunir undir leikstjórn Kristínar Gísladóttur. Það fjallar um hóp atvinnuleikara sem eru að setja upp leiksýningu. Í leikritinu frumsýna þau svo leikrit þar sem ýmislegt kemur upp á. Mikið er um söng þar sem söngstjörnur okkar fá að láta ljós sitt skína. Alls komu um 50 nemendur að sýningunni og ég hvet alla til þess að sjá stjörnur framtíðarinnar á bæjarsýningunum miðvikudaginn 16. mars og fimmtudaginn 17.mars kl. 20:00. 

Ég vil að lokum þakka Pálmari og Kristínu og ekki síst krökkunum sjálfum fyrir að opna augu mín fyrir leikhúslífinu og veita mér innblástur. Þetta hefur verið yndislegur tími með frábærum krökkum sem gáfu allt í þetta. Með fólk eins og ykkur er framtíðin svo sannarlega björt. 
Allir að mæta að sjá vonarstjörnur Grindavíkur á miðvikudag og fimmtudag kl. 20:00.

Með kveðju, aðstoðarleikstýran.