Umfjöllun: KR - Grindavík 85-67

18.Mars'16 | 02:03

Grindavík tapaði fyrsta leiknum í úrlslitarimmunni við KR. Þetta var þó aðeins fyrsti leikur og það skemmtilega við úrslitakeppnina er að allt getur gerst. 

 

 

visir.is voru með beina textalýsingu á meðan leik stóð og gerðu leiknum góð skil að honum loknum:

 

KR vann afar sannfærandi 85-67 stiga sigur á Grindavík í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppni Dominos-deildar karla í gærkvöld en sigurinn var aldrei í hættu eftir að KR náði fimmtán stiga forskoti í fyrsta leikhluta.

 

KR-ingar byrjuðu leikinn af krafti og settu ellefu fyrstu stig leiksins en KR-ingar sem hafa titil að verja settu með því tóninn fyrir það sem eftir lifði leiks.

 

Grindvíkingar náðu að halda í við KR-ingana í öðrum leikhluta en í seinni hálfleik náðu KR-ingar líkt og oft áður að gera út um leikinn í þriðja leikhluta. 

 

Sannfærandi sigur hjá KR staðreynd en það verður erfitt að sjá Grindvíkingana stöðva KR liðið ef þeir spila af sama krafti og á köflum í kvöld.

 

Fyrirfram áttu ekki margir von á því að Grindavík sem hafnaði í 8. sæti deildarinnar ætti möguleika á því að slá út ógnarsterkt lið KR-inga sem eru ríkjandi Íslands-, deildar- og bikarmeistarar.

 

Fyrirliði KR, Brynjar Þór Björnsson, límdi orðin Three-peat í búningsklefa KR fyrir leik kvöldsins en skilaboðin voru skýr. Markmiðið var að hampa Íslandsmeistaratitinum þriðja árið í röð.

 

Brynjar byrjaði leikinn sjálfur af miklum krafti en hann setti níu af fyrstu ellefu stigum KR-inga og náði KR fimmtán stiga forskoti á fyrstu fimm mínútum leiksins.

 

Þriggja stiga skot liðsins voru að detta en á sama tíma gekk ekkert í sóknarleik Grindvíkinga.

 

Grindvíkingum tókst að vakna til lífsins eftir þessa byrjun og náðu að minnka muninn niður í tólf stig fyrir lok fyrsta leikhluta, 27-15. 

 

Sami kraftur einkenndi liðið í upphafi annars leikhluta og nýttu þeir sér villuvandræði heimamanna til að minnka forskotið niður í tíu stig.

 

Þá settu KR-ingar með Helga Má Magnússon fremstan í flokki aftur í gír og náðu nítján stiga forskoti undir lok fyrri hálfleiks. Tóku KR-ingar verðskuldað forskot inn í seinni hálfleikinn og var ljóst að Grindvíkingar þyrftu á kraftaverki að halda í seinni hálfleik.

 

KR-ingar gerðu oft út um leikina í þriðja leikhluta í vetur en í kvöld voru það Grindvíkingar sem voru sterkari aðilinn í leikhlutanum og náðu að saxa á forskot KR-inga. Náðu þeir forskotinu niður í tíu stig en þá tóku KR-ingar aftur við sér.

 

Á lokamínútum þriðja leikhluta og upphafsmínútum fjórða leikhluta gerðu KR-ingar einfaldlega út um leikinn en þegar mest var náði KR 25 stiga forskoti í fjórða leikhluta. 

 

Voru því lokamínúturnar einungis formsatriði fyrir KR-inga eftir góða spilamennsku lengst af í leiknum.

 

Lauk leiknum með 18 stiga sigri KR-inga sem taka 1-0 forskot í úrslitaeinvíginu fyrir leik liðanna í Grindavík á sunnudaginn næstkomandi en það er ljóst að Grindvíkingar þurfa að spila mun betur ef þeir ætla sér að stríða KR-ingum í þessu einvígi.

 

Í liði KR voru það Michael Craion og Helgi Már sem voru stigahæstir með 19 stig hvor en fyrirliðinn Brynjar Þór bætti við 17 stigum. 

 

Hitti Brynjar úr 4 af sex þriggja stiga skotum sínum í leiknum en hann lenti í villuvandræðum og lék því aðeins rúmlega 21. mínútu.

 

Jón Axel Guðmundsson lauk leik með þrefalda tvennu í liði Grindvíkinga með 10 stig, 12 fráköst og 10 stoðsendingar en Charles Garcia var atkæðamestur með 21 stig ásamt því að taka 12 fráköst og gefa 8 stoðsendingar.

 

KR-Grindavík 85-67 (27-15, 22-18, 19-22, 17-12)

 

KR: Helgi Már Magnússon 19, Michael Craion 19/7 fráköst/4 varin skot, Brynjar Þór Björnsson 17/4 fráköst, Þórir Guðmundur Þorbjarnarsson 8, Björn Kristjánsson 7, Snorri Hrafnkelsson 6, Darri Hilmarsson 5/5 fráköst, Pavel Ermolinskij 4/12 fráköst/8 stoðsendingar.

 

Grindavík: Charles Wayne Garcia Jr. 21/12 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 20/8 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 10/12 fráköst/10 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 7/5 fráköst, Jens Valgeir Óskarsson 5/3 varin skot, Kristófer Breki Gylfason 3, Hinrik Guðbjartsson 1.