Ferðamennirnir eru að koma, best að loka

27.Mars'16 | 01:09

Í grein sem rituð var af bæjarstjóra Grindavíkur, í bæjarblaðinu Járngerði, kemur fram að áætlað sé að 2.000 ferðamenn fari um bæinn daglega, sem gerir yfir 700.000 túrista á ári. Með þessar upplýsingar ætlar stjórn Kvikunnar ásamt bæjarráði að selja menningar- og auðlindahús bæjarins.

Bæjarráð fól bæjarstjóra að auglýsa húsnæði Kvikunnar, að Hafnargötu 12a, til sölu seint á haustmánuðum. Þennan fund sátu Hjálmar Hallgrímsson varaformaður, Kristín María Birgisdóttir formaður, Ásrún Helga Kristinsdóttir aðalmaður, Marta Sigurðardóttir áheyrnarfulltrúi, Róbert Ragnarsson bæjarstjóri Grindavíkurbæjar. Þá hafði málið hvorki verið tekið upp hjá umhverfis- og ferðamálanefnd né frístunda- og menningarnefnd Grindavíkurbæjar. Sem er frekar sérstakt. En nú eru komin tilboð í húsið, sem þarf að taka ákvörðun um. 

En af hverju að selja þetta húsnæði, hafa stjórnendur bæjarins ekki sinnt sínu starfi? Hefur stjórn Kvikunnar ekki verið áhugasöm um starfsemina eða er fólk ekki að greina þann fórnarkostnað sem bærinn þarf að leggja út til að bæta hag bæjarbúa, fyrirtækja og ferðamanna?

Forsvarsmenn fyrirtækja í nánd við menningarhúsið Kvikuna hafa bæði á samfélagsmiðlum sem og sagt mér það sjálfir að þeir skilja ekki af hverju Kvikan sé ekki opin, og hve oft ferðamenn jafnvel með fyrirfram bókaða tíma koma að lokuðu húsinu. Kvikan er ein af fyrstu auglýsingum sem farþegar með Icelandair sjá á flugi um Íslandið okkar góða.

Ég held að það sé eitthvað slæmt búið að gerast innan í stjórnkerfi bæjarins og menn ekki að líta fram í tímann eða hafa ekki áhuga á þessu starfi eða þessari starfsemi þar sem erfitt er að ráða verkamann til að stjórna og betrumbæta auðlindarhúsið, og ekki hægt að leita til umboðsskrifstofu til að fjölga gestum. Menn eru of uppteknir af einhverju allt öðru en að kynna bæinn sem áhugaverðan stað til að sjá og eða vera með starfssemi í bænum.

Er það svo slæmt að fá þessa túrista? Nýlega var birt grein á www.kvotinn.is og www.grindavik.net þar sem Gunnar Tómasson framkvæmdastjóri hjá Þorbirni hf. ræddi um mikilvægi ferðamanna varðandi fisksölu. 

En aftur að sölu Kvikunnar, Kvikan er upplýsingamiðstöð ferðamanna eins og segir á vef bæjarins.  ,,Kvikan, auðlinda- og menningarhús Grindavíkur, var opnað 2002 og er sérhannað sýningarhús. Kvikan er hluti af upplýsingastofum fyrir Reykjanes Jarðvang, stefnt er að því að jarðvangurinn verði lyftistöng fyrir svæði á sviðum ferðamála, framleiðslu og fræðslu. Auðlinda- og menningarhúsið Kvikan hefur verið burðarstólpi í ferðamennsku í Grindavík." Með öllu þessu er mér óskiljanlegt að fara út í þessar aðgerðir.

Ég næ ekki einu sinni að tengja af hverju þessir aðilar sem sátu þennan bæjarráðsfund hafa viljað þetta, né hver sé upphafsmaður þessa máls. Sá aðili hefur ekki áhyggjur af framtíð Grindavíkur né hugsar mikið um eðlilega uppbyggingu og gæti trúlega ekki látið neitt vaxa eða blómstra. Hörð orð, en ég er svo gáttaður á þessu að ég næ engri átt og langar mest til að dýfa hausnum í blómabeð og öskra HVAÐ ER AÐ!

Hvað missum við, jú tekjur fyrirtækja í þjónustu. T.d veitingastaðir og afþreyingarfyrirtæki, þegar ekkert verður hægt að sjá lengur í Grindavík. Annað sem ekki hefur verið hugsað út í er hvað lóðin er stór sem fylgir húsnæðinu, þessu sérhannaða húsnæði. Lóðin er 5000 fm. skilgreind sem viðskipta og þjónustulóð. Með sölu á húsnæðinu missir bæjarfélagið einnig "stúkuna" bak við húsnæðið, en þar hafa verið haldnar ýmsar uppákomur svo sem sjómannaskemmtun, 17. júní og þrettándagleði, þar sem lóðarmörk eru út að Seljabót. ÚPS!

Með sölu á húsinu má segja að Grindvíkingar verði án sýnilegrar menningar og sögu eftir að Festi og Kvikan hafa verið seld. Þetta er ekki í takt við aukningu á ferðamönnum og nýtingu á þeirri auðlind. Þegar ríki og aðrar greinar í atvinnulífinu eru að styrkja stoðir undir þessa auðlind, þá vilja menn í Grindavík helst loka. Kannski er ég of svartsýnn. GEO Hótel er til fyrirmyndar, EN ennþá vantar meiri afþreyingu fyrir ferðamenn, erlenda sem íslenska.

En hvað er hægt að gera?

Eða er þetta það dauðadæmt að draugasetrið á Stokkseyri gæti opnað útibú í Grindavík. Held ekki. Kannski kemur eitthvað frábært í staðinn. Held að vandamálið séu stjórnendur og þeir sem koma að ákvörðunartöku fyrir húsið. Menn vantar greinilega framtíðar og viðskiptasýn fyrir húsið. Það verður ekki til skógur nema að undirbúa jarðveginn. Að mínu mati eru möguleikar Grindavíkur sem sveitafélags svo miklu meiri en öll nærliggjandi sveitarfélög hafa. Nærvera okkar við sjómanninn, fiskinn, orkuna sem undir okkur er og hvað landið okkar er jarðfræðilega ungt. Mikið til 700 ára hraun sem umliggur okkur. Og Grindvíkingar eru Grindvíkingar.

Ég væri líka til í að sjá hér auðlinda- og náttúrusafn, þar sem auðlindin Grindavík væri til sýnis og spanna um leið háskóla og fræðisamfélögin til að vera með starfstöðvar hér og auka með því starfs- og menntunarframboð í bæjarfélaginu. Fræðasetur um auðlind okkar, og út frá henni myndi skapast lifandi sýning með lifandi sjávarlífverur stórar sem smáar, jarðsögu okkar og hvernig auðlindin sem undir okkur er nýtt í formi húshitunnar, rafmagn og þær afurðir sem myndast frá auðlindinni hvort sem það sé iðnaður eða list. Hvernig væri það að vera með lítinn heimabúinn hver í húsinu. Ferðamaðurinn vill eitthvað áþreifanlegt fyrir snertingu og auga. Ég er að segja, við þurfum að selja okkur. Þó ekki eins og gleðikonan.

Að lokum velti ég því fyrir mér hvort það sé ekki bara spurning um að færa bæjarskrifstofurnar niður í menningarhúsið Kvikuna, held að það myndi sóma sér vel þar og verslun og þjónusta fengi núverandi húsnæði bæjarins. Allavega í dag er vöntun á minni þjónustu- og skrifstofurýmum í Grindavík. Bingó, komið einfalt hlutverk fyrir húsið og önnur starfsemi mun blómstra.

Að öllu gamni slepptu þá er ég enn svo gáttaður af þeirri fáránlegu hugmynd að selja þetta hús, og myndi vilja að sá aðili sem fór með þetta mál fram rétti upp hönd og útskýri fyrir okkur hinum AFHVERJU!.