Það vantar áhuga og drifkraft

8.Apríl'16 | 04:30

Í grein sem rituð var af bæjarstjóra Grindavíkur, í bæjarblaðinu Járngerði, kemur fram að áætlað sé að 2.000 ferðamenn fari um bæinn daglega, sem gerir yfir 700.000 túrista á ári. Með þessar upplýsingar ætlaði stjórn Kvikunnar ásamt bæjarráði að selja menningar- og auðlindahús bæjarins.

Bæjarstjóri talaði um það á síðasta bæjarstjórnarfundi að „að ekki nema“ 15% ferðamanna sæktust eftir því að skoða söfn. 15% prósent eru þó 300 manns af þeim 2000 sem heimsækja Grindavík daglega. Hvers vegna er sá fjöldi sem hefur áhuga á að skoða söfn þá ekki að skila sér í Kvikuna.

Að mínu mati er það fyrst og fremst vegna skorts á drifkrafti og metnaði fyrir Kvikunni. Ferðamenn sem að jafnvel hafa pantað tíma fyrirfram koma að lokuðu húsi. Ef þeir eru svo heppnir að húsið er opið þá er oftar en ekki enginn til að sýna þeim söfnin. Þetta vita flestir Grindvíkingar sem að eru inni í málefnum líðandi stundar.

Það er gott ef að við bættum einhverju af peningum til þess að reka húsið en þar með er ekki björninn unnin. Það þarf að finna réttu aðilana til þess að vinna verkin. Á þessum tímapunkti er lífsnauðsynlegt að fá metnað, dugnað, þekkingu og áræðni inn í þessa vinnu við Kvikuna.

Einnig er ákaflega mikilvægt að settur verði tímarammi fyrir bæjarráð og stjórn hússins til að koma með ferskar hugmyndir um framtíð þess. Magnús Andri Hjaltason kom með góða tillögu á síðasta bæjarstjórnarfundi um að settur yrði tveggja til þriggja mánaða frestur á að stjórn hússins skilaði hugmyndum, því var hafnað. Af hverju er erfitt að vinna undir tímapressu. Af hverju megum við bæjarbúar ekki vita það að eftir tvo, þrjá eða sex mánuði komi fram hugmyndir um framtíð hússins. Það er að mínu mati ekki betra að ætla sér mikinn tíma í verkinn.

Ég hef verið í hafnarstjórn undanfarin ár. Þar höfum við stefnumótunarnefnd. Það er nefnd sem að hefur á undanförnum árum unnið að hugmyndum að stefnumótun fyrir hafnarstjórn. Nefndin er skipuð fólki sem að hefur þekkingu og einnig hagsmuni af því að uppbygging Grindavíkurhafnar sé á sem bestan veg. Þetta er gott fyrirkomulag og hefur reynst vel fyrir hafnarstjórn. Þetta fyrirkomulag eykur stefnufestu og þeir sem að hafa hagsmuni af því að höfnin sé í lagi vita og taka þátt í hvert er verið að fara.

Ég legg til að stjórn Kvikunnar og bæjarráð taki þetta til fyrirmyndar við vinnu við Kvikuna. Að finna rétta fólkið sem að hefur þekkingu en ekki er síður mikilvægt að finna fólk sem að hefur áhuga og metnað til þess að lyfta Kvikunni til vegs og virðingar. Koma þessu fólki saman á fundi og þá er líklegra að eitthvað gott gerist.

Páll Þorbjörnsson er til dæmis einn af þeim mönnum sem að hefur brennandi áhuga fyrir því að Kvikunni verði lyft upp í það sæti sem að hún á skilið. Hann hefur að undanförnu skrifað athyglisverðar greinar um „söluna“ á Kvikunni. Hann hefur áhugann, drifkraftinn og skemmtilegar hugmyndir sem að stjórn hússins gæti unnið úr. 

Það er einmitt svona fólk sem að á að vera í stefnumótunarnefnd um húsið. Auðvitað í bland við annað fólk með öðruvísi sýn og aðra vinkla inn í vinnuna. Fólk með áhuga fyrir verkefninu.

Tíminn flýgur, ferðamönnum fjölgar stöðugt, setjum tímaramma um hvenær hugmyndavinnu um húsið verður lokið. Fáum rétta fólkið til starfa. Kannski á Kvikan þá eftir að koma Grindvíkingum skemmtilega á óvart inni í framtíðinni.