Körfuboltasumarið 2016

2.Júní'16 | 04:11

KKÍ hefur sett á laggirnar verkefnið Körfuboltasumarið sem á að efla iðkun körfuknattleiks yfir sumartímann. Verkefnið nær yfir sumrin 2016 og 2017 og er það styrkt af Þróunarsjóði FIBA Europe (FIBA Europe Development Fund).

Karfan.is greindi frá þessu fyrr í vikunni, einnig segir: 

Fyrsti áfangi verkefnisins snýst um að A-landsliðsfólk heimsæki þau félög sem eru með sumaræfingar og eða námskeið. Verða landsliðsmennirnir til taks fyrir þau félög sem óska eftir því og geta félög haft samband við skrifstofu KKÍ fyrir nánari upplýsingar.

Annar áfangi verkefnisins snýst um að setja á laggirnar götukörfuboltamót. Í sumar verður haldið úti-götuboltamót og ef vel til tekst verður þeim fjölgað á næsta ári.

Í þriðja áfanganum verða búin til myndbönd með landsliðsfólkinu okkar þar sem þau gera sínar uppáhaldsæfingar og eða sýna hvernig þau æfa á sumrin. Myndbönd þessi verða gerð aðgengileg á netinu og munu þau auka aðgengi ungra iðkenda að skemmtilegum og flottum æfingum sem þau geta gert sjálf.

Umsjónarmenn verkefnisins eru A-landsliðsmennirnir Haukur Helgi Pálsson, Hörður Axel Vilhjálmsson og Martin Hermannsson. Veita þeir allar nánari upplýsingar í gegnum netfangið kki@kki.is.

Sumarstarf félaganna
KKÍ óskar eftir því að fá sendar upplýsingar um allt sumarstarf sem verður á vegum félaganna í sumar. Vinsamlegast sendið tengla og eða upplýsingar á 
kki@kki.is. Verður öllum þessum upplýsingum safnað saman á einn stað á www.kki.is og verður svæðið merkt KÖRFUBOLTASUMARIÐ. Inn á þetta svæði verður öllum sumarkörfubolta safnað saman. Einnig ef félög standa fyrir öðrum körfuboltaviðburðum í sumar viljum við fá upplýsingar um það.