Páll Valur: Við stæðum sterkari sameinuð

14.Júní'16 | 07:05

Viðtalið birtist fyrst í blaðinu Reykjanes.

Þú komst nýr inn á Alþingi eftir síðustu kosningar. Hvernig hefur þér líkað að starfa á þinginu þessi þrjú ár sem liðin eru af kjörtímabilinu?

Mér hefur líkað nokkuð vel en eins og ég hef sagt áður þá er það að vera alþingismaður frábrugðið öllu öðru sem ég hef reynt á minni ævi og þetta starf er gríðarlega krefjandi en á sama tíma afskaplega gefandi og lærdómsríkt. 

 

Það sem situr kannski helst eftir og er mér efst í huga er sá mikli fjöldi fólks sem ég hef kynnst og fengið tækifæri til að vinna með. Þetta starf er ekki alltaf dans á rósum og ég hef oft líst þessu eins og að vera í rússíbana maður sveiflast til og frá, er annað hvort hátt uppi eða þá langt niðri. En heilt yfir hefur mér líkað þetta vel og þetta er gríðarleg reynsla.

 

 

Telur þú rétt að kjósa í haust?

Já, úr því sem komið er þá tel ég það rétt, krafa fólksins í kjölfar uppljóstrana Panamaskjalanna voru kosningar strax. Það var að mínu mati réttmæt krafa en stjórnarflokkarnir komust að þeirri niðurstöðu að kjósa í haust og ég virði þá ákvörðun.

 

 

Samkvæmt skoðanakönnunum er útlitið ekki gott fyrir þinn flokk (Björt framtíð). Hver er skýringin á því að þið náið ekki eyrum kjósenda?

 

Ég hreinlega hef ekki svör á reiðum höndum um hvers vegna staða okkar er eins og hún er. Við höfum lagt okkur öll fram við að standa við það sem við lögðum upp með fyrir síðustu kosningar og það hefur tekist að ég tel. En ég játa mig sigraðan og get ekki útskýrt stöðu okkar.

 

 

Þingmenn búsettir hér á Suðrnesjum eru nú 7 talsins. Það hefur aldrei verið eins hátt hlutfall þingmanna héðan. Er þetta að skila Suðurnesjunum góðum árangri? Hvernig er samstarfið í hópnum?

Samskipti okkar þingmanna eru oftast nær góð en ég játa það að ég hefði viljað sjá miklu meira samstarf okkar á milli og þá sérstaklega í málefnum Suðurnesja. 

Við erum bara tveir þingmenn úr minnihluta flokkunum ég og Oddný Harðardóttir og höfum verið mjög samstarfsfús. Ég hef ekkert slæmt um stjórnarþingmenn okkar segja allt er þetta mikið öndvegisfólk en ég hefði viljað sjá meiri árangur Suðurnesjum til handa á síðustu þremur árum.

 

 

Hver eru að þínu mati stærstu málin framundan?

Heilbrigðismálin án nokkurs vafa, það er gríðarlega mikilvægt að byggja upp nýtt þjóðarsjúkrahús og styrkja heilsugæsluna enn frekar. Sterkt heilbrigðis og velferðarkerfi er lykilstoð í nútímasamfélagi og það segir sig sjálft að hagvöxtur og framleiðni er miklu meiri eftir því sem heilbrigðiskerfið er sterkara. 

 

En það eru mörg gríðarlega stór mál sem þarf að taka á og nægir þar að nefna styrkingu innviða grunnþjónustunnar, löggæslu, vegamál, uppbyggingu á ferðamannastöðum, uppbyggingu hjúkrunarheimila, menntamálum o.s.frv.

Eins og sést á þessari upptalningu þá eru þetta alltaf sömu málin sem um ræðir þegar að pólitíkin er annars vegar, þetta snýst bara um forgangsröðun. Svo liggur það alveg ljóst fyrir að styrkja þarf tekjustofna ríkis og sveitrafélaga svo hægt sé að standa undir því velferðarsamfélagi sem við öll viljum búa í.

 

 

Nokkuð er rætt um að sterkast væri að sameina sveitarfélögin á Suðurnesjum í eitt. Ert þú sammála þeirri skoðun?

 

Þetta er nú aldeilis eldfimt mál en frá mínum bæjardyrum séð þá stæðum við sterkari sameinuð. Þetta mál er mikið tilfinningamál og ég er ansi hræddur um að íbúar í mínum heimabæ muni aldrei samþykkja þessa tillögu og þegar að upp er staðið þá eru það íbúarnir sem eiga síðasta orðið í þessu máli.

 

 

 

Stefnir þú á framboð í næstu kosningum?

Já, ég stefni að öllu óbreyttu að því

 

 

Framundan eru forsetakosningar. Ert þú búinn að ákveða hvern þú styður?

Það eru þrír kandídatar sem ég gæti hugsað mér að kjósa en er ekki búinn að gera það upp við mig hver það verður.