Sumarbústaðargrín sem á endanum fór úr böndunum....

Tekinn, fjórði hluti

25.Júlí'16 | 00:01

Þrjú ár í röð tókst að spila með vinahóp sem fór saman í sumarbústaðarferð.  Kannski best að nefna engin nöfn....

Fyrsta árið lugu strákarnir af stelpunum að vegna lélegs rennslis í ánni sem rann fram hjá bústaðnum þá væri ekki hægt að sturta niður úr klósettinu.  Svona gekk þetta alla helgina og mátti oft sjá vinkonurnar læðast saman út í móa og gera þarfir sínar.  Á sunnudeginum þegar einn drengjanna skilaði sér eftir að hafa lent á séns kvöldinu áður, þá byrjaði hann á að fara á klósettið og sturtaði hátt og kyrfilega niður úr klósettinu.  Það er nokkuð ljóst að makar þessara kvenna voru ekki „heppnir“ þetta kvöldið eða jafnvel næstu kvöld á eftir.

Annað árið datt einum í hug að búa til rifrildi sem myndi fara úr böndunum.

Eftir mat var sest niður og spilað og var einungis kveikt á kertum.  Sá sem átti hugmyndina fór að fá sms-skilaboð í símann sinn í tíma og ótíma með allri þeirri truflun sem því fylgir.  Eftir nokkur skilaboð fór að fjúka í einn „spilaranna“ og hann sagði viðkomandi að slökkva á símanum, þetta væri truflandi fyrir leikinn.  Sá símasjúki lét sér ekki segjast og það fauk meira og meira í félagann.  Á endanum stóð hann upp og tók platsíma úr hendi þessa símasjúka og grýtti honum í vegginn og splundraði honum!!  Að sjálfsögðu tók enginn eftir því að um platsíma var að ræða og má segja að stemningin hafi aðeins dottið niður í vinahópnum......  Leikararnir settu m.a. á svið smá slag og leist  fórnarlömbunum ekkert á blikuna!  Einn þeirra sem tók beituna, var nýútskrifaður úr lögfræði og hafði á orði að það væri ljóst að x ætti kröfurétt á hendur y vegna símans.....

Lokahnykkurinn á þessum sumarbústaðargrínum var grín sem ég lenti sjálfur í.  Það er eitt það magnaðsta sem ég hef lent í!

Fljótlega eftir mat á föstudagskvöldi var verið að ræða málin og bryddað upp á umræðu efni um stöðuna í Persaflóa en eitthvað hafði verið að krauma þar ef ég man rétt.  Þar með var búið að tendra logann....

Fljótlega var farið að spila og á furðulegum tíma kom fréttastefið á Rás 2 og þekktur útvarpsmaður tók til máls:  „Við rjúfum útsendinguna til að færa þær fréttir að rétt í þessu var ráðist inn í Ísraelsríki með miklum loftárásum!  Ekki er vitað hverjir voru þarna á ferð en við færum ykkur fréttir um leið og þær berast“.  Stemningin í sumarbústaðanum breyttist á augabragði!  Næsta lag á eftir var „Peace on earth“ með U2.....  Hópurinn ræddi þetta fram og til baka, hvað hefði þarna verið á seyði og hver ætti sök.  Eftir ca 15 mínútur kom fréttastefið aftur..............   „Þær fregnir voru að berast að kjarnorkusprengja lenti á Vesturstönd Bandaríkjanna og eru nokkrar borgir rjúkandi rúst!  Það er ljóst að 3. heimsstyrjöldin er skollin á!  Kveikið á sjónvarpinu, bein útsending hefst von bráðar og mun Davíð Oddsson forsætisráðherra flytja ávarp“  Við vorum sem lömuð í bústaðnum!!  Ég átti að fara spila á balli á Selfossi þetta kvöld og var mjög nálægt því að hringja í félagana í bandinu og segja að við myndum AÐ SJÁLFSÖGÐU cancel-a gigginu.....  Kærasta eins sökudólgsins laumaði sér inn í herbergi og hringdi í mömmu sína sem var að halda saumaklúbb, eðlilega fór sá klúbbur í „nett uppnám.....“  Hún sagði mömmu sinni að stilla á sjónvarpið því Davíð Oddsson væri að fara halda ræðu.  Allur saumaklúbbur tilvonandi tengdamömmu kappans lá sem sagt límd fyrir framan skjáinn. Ein stelpan í hópnum átti meira bágt en aðrir og var kærastinn hennar að hugga hana allan tímann.  Ég spáði í hvort ég ætti að hugga mína kærustu.....  Í ljós kom þá að náfrændi hennar bjó í Seattle og m.v. fréttirnar var ljóst hver örlög hans voru......

Svona gekk þetta í smá tíma þar til þekkti útvarpsmaðurinn sagði eitthvað á þessa leið: „Jæja, nú getið þið fyllt á glösin og skálað og Jón Jónsson (nafni breytt), Magnús Magnússon (nafni breytt) átti engan þátt í þessu gríni“

Þar með kom hið rétta í ljós og ég gleymi ekki léttinum!!  Heimurinn var sem sagt ekki á leiðinni í 3. heimsstyrjöldina.  Ekki tóku þessu allir eins vel og urðu varanleg vinslit í hópnum upp frá þessu......