- I have to go now, Duane

Tekinn, sjötti hluti

30.Júlí'16 | 09:22

Ein af uppáhalds töku okkar Jónsa bróður er sú sem við gerðum á æskuvinahóp Nökkva Más Jónssonar. Þegar Kristinn Friðriksson, einn úr þessum æskuvinahópi Nökkva, kom og þjálfaði karlalið Grindavíkur árið 2004, þá var ég í stjórn.  Með okkur Kidda tókust góð kynni en á þessum tíma vorum og erum við Nökkvi Már góðir vinir.

Alla vega, eftir þetta tímabil (sem reyndar fór ekki vel......) þá datt Kidda og Nökkva „það snjallræði í hug“, að bjóða mér í sumarbústaðaferð þessa æskuvinahóps.  Mér fannst þetta skrýtið, að bjóða viðhengi inn í svona lokaðan hóp æskuvina en Kiddi og Nökkvi voru sannfærðir um að ég myndi smellpassa inn í hópinn.

Að sumarbústaðarferðinni kom svo en ég komst ekki fyrr en á laugardeginum.  Þegar ég var að renna í hlað þá mætti ég tveimur úr hópnum.  Mér var sagt að þeir hefðu þurft að fara og ég bara trúði því.  Talsverð gleði í sumarbústaðnum og svo mætti Jónsi bróðir sem boðflenna um kvöldið.  Mikið stuð.

Eftir þessa velheppnuðu sumarbústaðarferð hafði Jónsi á orði við mig hvort hann fengi boð líka að ári.  Ég sagðist myndi athuga það.

Þegar við Nökkvi Már vorum svo staddir í útskrift Vignis vinar okkar úti í Glasgow í desember þetta ár, þá skaut ég þessu að Nökkva.  Ég sá hvernig kaldur svitinn spratt af enni Nökkva, hann fyllti í rauðvínsglasið sitt, teygaði og opnaði sig svo við mig........  Hann sagði mér að það hefði ekki alveg verið samstaða innan æskuvinahópsins með mína komu í sumarbústaðinn og það hefði verið ástæða brottfarar tvímenninganna.  Ég sprakk hreinlega úr hlátri yfir vandræðaganginum í vini mínum við að tilkynna mér þetta sem ég skyldi ofurvel og var búinn að vara þá Kidda við.  Þetta snerist ekkert um mína persónu, heldur að þarna var verið að troða einhverju viðhengi inn í jöfnuna!  En þarna var svo sannarlega búið að myndast tækifæri 

Ég byrjaði á að senda Kidda sms eitthvað á þessa leið:  Sæll!  Hvað er gsm hjá X??  Ég frétti að hann hefði ekki verið sáttur við mína komu í bústaðinn og ætla að heyra í honum með það, ég er ekki sáttur!  Svar Kidda:  „Ég tel það ekki ráðlegt“  

Heheheh!!

Ég hitti Jónsa bróður skömmu seinna og shitturinn hvað við náðum okkur í svakalegt hláturskast yfir þessu gullna tækifæri sem þarna var búið að myndast 

Ég skrifaði svo eftirfarandi email á allan æskuvinahópinn:

Sælir keflvískir.

Hvað er títt?

Ég hef nú ekki mikið heyrt í ykkur eftir sumarbústaðarferðina síðustu en hitti þó Bödda til að sækja eitthvað af dóti sem ég gleymdi í ölæði mínu í þessari ferð.  En ferðin var frábær í alla staði og skemmti ég mér konunglega.  Bróðir minn, Jón Gauti sem kom óvænt á síðari stigum í bústaðargleðina, hefur beðið mig um að bera undir ykkur hvort hann fái sama boð og ég fékk.  Hef ég bætt emaili Jónsa eins og ég kalla hann alltaf í cc og hann sagði mér að þið mættuð svara til allra ef þið það viljið, þ.e. hann mun taka höfnunni af karlmennsku ef til hennar kemur 

 

Ég veit að langt er í næstu ferð en því fyrr sem við byrjum að planleggja sumarbústaðarferð 2008, því betri gæti útkoman orðið.  Við bræðurnir höfum aðeins legið yfir þessari hugsanlegu næstu ferð og erum með nokkrar hugmyndir af skemmtilegheitum þessa helgi, hvenær sem af henni verður. 

Við erum með nokkra leiki sem gaman gæti verið að fara í.  Ég legg ennþá til leikinn sem ég lagði til fyrir síðustu ferð, leikinn “þekkirðu lagið??” en oft hefur skapast feiknarleg stemning hjá okkur vinunum þegar við höfum farið í þann leik.  Og Biggi, ef þú grátbiður mig fallega þá skal ég íhuga alvarlega að taka með söngmöppurnar mínar svo við getum tekið nokkur vel valin partýlög.  Við getum hins vegar alveg sleppt því líka.

Jónsi bróðir hefur sagt mér nokkrar góðar sögur úr sumarbústaðarferðum hans og félaga hans, spurning hvort þú kynnir nokkra af þeim leikjum sem þið hafið leikið Jónsi??

Verið þið endilega ófeimnir við að koma með ykkar hugmyndir af skemmtilegheitum, við bræður viljum alls ekki stjórna ferðinni algerlega.

 

Ég hlakka mikið til!

Sibbi.

17 mínútum seinna ruddist boðflennan frá því í sumarbústaðaferðinni inn á ritvöllinn:

Sælir sælir allir sem einn.

Já, ég er sammála brósa um að því fyrr sem við byrjum að plana þessa dúndur ferð, því betri getur hún orðið. Það miðast vissulega við að ég verði samþykktur inní þessa stórkostlegu grúbbu flottra og sérstakra einstaklinga. Ég mun að sjálfsögðu sýna því skilning ef svo verður hinsvegar ekki. Ég er algjörlega sammála brósa með leikinn“ þekkirðu lagið “ Maður hefur nú verið í ófáum mega partýunm þar sem þessi leikur hefur ráðið ríkjum. Brósi,vorum við ekki frá kl: 22 til að verða 4 einu sinni úti í Svefneyjum með mömmu , pabba, Bússa frænda og þeim!! Það var algjört dúndur . Síðan er ég með nokkrar ferskar hugmyndir að leikjum. Leikurinn “ bannað að tala allt nema ensku“

Sá leikur gengur út að það er bannað að tala allt nema ensku og sá sem klikkar á því þarf að fækka fötum, þannig endum við í rauninni allir allsberir EN tveir fyrstu til að afklæðast verða rassskelltir af öllum hinum, hrottalega fyndið. Þarna er hægt að henda inn verðlaunum fyrir þann sem stendur sig best. Annar leikur sem gæti hentað vel miðað við að við erum konulausir er svona: Við vöknum náttúrulega hálf þunnir á Laugardagsmorgninum, og þá förum við í leikinn “ hver getur drukkið mest af dræ áfengi( sama hvaða áfengi það er ) án þess að æla. Auðvitað drepumst við flestir en við erum pottþétt vaknaðir fyrir kvöldmat og þá náttúrulega eldum við eitthvað gott, td Djúpsteikta Keilu eða eitthvað svipað nammi, ég ætla nú samt ekki að fara stjórna því, ég borða allan mat. Síðan er ég með nokkra mjög góða sem ég ætla að lúra á um sinn en þeir koma á óvart svo ekki sé meira sagt.

Hlakka til að heyra frá ykkur “pjakkar”

 Gauti D

Á þessum tímapunkti er deginum ljósara að allur æskuvinahópurinn klóraði sér í hausnum eða hristi hann og hugsaði með sér; HVAÐA HÁLFVITAR ERU ÞETTA EIGINLEGA?!?! Hehehehe

Júlíus Guðmundsson (sonur Rúna Júl heitins) kom þá með þetta algerlega priceless svar:

Það eina sem mér dettur í hug er „Right. Well, I have to - I have to go now, Duane, because I, I'm due back on the planet Earth.“

Til að skilja þetta comment er í raun nauðsynlegt að horfa á þetta atriði úr myndinni Annie Hall með Woody Allen: https://www.youtube.com/watch?v=BGPcSd7DDLk

Hehehehe!!!

Einhver fleiri svör komu en Jónsi kom svo með þetta:

Ég verð nú að viðurkenna að ég skil ekki alveg svörin hjá ykkur drengir, sér í lagi hjá þér Starri minn, en Júlli! Þetta er væntanlega úr einhverri mynd, það er einmitt einn leikurinn sem við förum oft í, sem sagt einn leikur stutt atriði úr bíómynd og hinir giska á úr hvaða mynd þetta er, oft feikileg stemming sem fylgir þessu. Gæti verið gott að vera með einhver góð verðlaun í þessum leik, ég get græjað það.

Annað, hver er yfirleitt með matinn á sinni könnu, ég gæti verið með ansi skemmtilegar hugmyndir í því dæmi.

 

Gauti

 

Fljótlega eftir þetta losuðum við æskuvinina úr prísundinni en ef hláturinn lengir lífið þá er ljóst að við bræður nældum okkur í einhverja mánuði yfir þessari vitleysu