Þjóðhátíð, enginn þöggun

31.Júlí'16 | 09:00

Það að vera í gæslunni á Þjóðhátíð Vestmannaeyja er upplifun sem að óhætt er að segja að sé nokkuð sérstök. Ég hef á undanförnum átta árum ásamt öðrum séð um gæslu á Þjóðhátíð Vestmannaeyja. Hlutirnir hafa æxlast þannig að ég hef verið í fríi frá minni aðalvinnu á þeim tíma sem að hátíðin er haldin. Ég er sjómaður og er ekki á landinu núna í þetta skiptið.

Undanfarið hef ég fylgst með umræðu um þjóðhátíðina í fjarlægð. Umræðan um hátíðina er á villigötum.

Ég hef séð og upplifað þessa hátíð frá mörgum sjónarhornum. Sem gestur, drukkinn þegar ég var ungur, en oftast ódrukkinn, bæði sem barn og fullorðinn.

Mest hafði ég gaman af hátíðinni sem barn. Það er ekki skrítið að fólki frá Vestmannaeyjum leiðist að heyra umræðu um þessa hátíð sem þau hafa sótt vandræðalítið frá barnæsku. Það er að segja umræðu sem á ekki við rök að styðjast.

 

Auðvitað á að ræða hlutina, eins og þeir eru.

Hvernig er þá hlutunum háttað á Þjóðhátíð Vestmannaeyja. Er verið að þagga niður umræðu um nauðganir. Ef til dæmis kona kemur til gæslunnar á hátíðinni og tjáir sig um það að henni hafi verið nauðgað. Hver er raunveruleikinn. Hver er málsmeðferðin. Er þessari konu þá sagt að fara út í dal, skemmta sér og gleyma orðnum hlut. Er reynt að fá hana til að þegja.

Nei, það er af og frá. Þið sem talið um að þetta sé raunveruleikinn ættuð að hinkra við og kynna ykkur málin betur.

Vinnureglan er sú að það er strax kölluð til lögregla og sálgæsla, það er ófrávíkjanleg regla gæslumanna. Í sálgæsluna hefur valist frábært vel menntað fólk. Ég hef séð af vinnubrögðum þessa fólks að það getur  verið til staðar fyrir fólk í áfalli. Það er ekki nóg að hafa menntun í svona störfum. Á undanförnum árum hefur verið lagður mikill metnaður í sálgæslu á þjóðhátíð. Ekki síst vegna aukinnar umræðu um nauðsyn áfallahjálpar.

Ég veit að allir þeir sem að koma að vinnu við þjóðhátíð Vestmannaeyja gera það að heilum hug. Þjóðhátíðarnefnd, lögregla, gæsla, sjúkraflutningamenn, hjúkrunarfólk, læknar og annað starfsfólk. Allt þetta fólk á annað hundrað manns á þá ósk heitasta að sem flestir fari heilir á líkama og sál þegar að fólk yfirgefur Þjóðhátíð. Þetta fólk horfist í augu við vandamálin þegar þau koma upp. Í þessum hópi eru fólk eins og ég og þú. Fólk sem að líður ekki þöggun. Þess vegna er útilokað að þöggun sé möguleiki á þjóðhátíð. 

Allt skipulag hátíðarinnar er til fyrirmyndar. Mjög margir gestir koma ár eftir ár og eru ánægðir með hátíðina. Aðrar hátíðir hafa verið haldnar þar sem að skipulag, gæsla og annað það sem að þarf til að halda svona útihátíð hefur verið í molum. 

Það væri gott ef að komið væri í veg fyrir slíkt. Það er hægt að stuðla að því með því að setja reglur um framkvæmd útihátíða. Hver er lágmarks gæsla, sálgæsla,hver er lágmarksfjöldi hjúkrunarfólks, lækna, sjúkraflutningamanna og annað það sem að nauðsynlegt er til að halda hátíð sem slíka. Ég er viss um að þjóðhátíðarnefnd í Vestmannaeyjum tæki slíkum reglum fegins hendi. Það á að halda áfram að betrumbæta öryggi gesta hátíða sem slíkra. Og já það að ræða um hlutina eins og þeir eru og að fræða fólk er besta leiðin að bættum samskiptum, það er klárt mál. Besta leiðin er hinsvegar stundum vandmeðfarinn. 

 

Þjóðhátíð Vestmannaeyja er eins og annað í lífinu, hefur sínar björtu og dimmu hliðar. Eitt er þó öruggt. Hún er ekki það sem margir halda, bara drykkjuhátíð. Hér hittast gamlir vinir og ættingjar og eiga góðar stundir saman, líka án áfengis. Rómantíkin í textum þjóðhátíðarlaga er ekki þar út af engu. Rómantík ljóðskáldanna er innblásin af upplifun fólks í eyjum af hátíðinni í gegnum kynslóðirnar. Ég vona að Þjóðhátíðin í ár gangi vel og að fólk skemmti sér vel. Ég bið að heilsa í dalinn.

Kv. Viktor Scheving Ingvarsson.