Óli bæjó og Kjartan teknir

Tekinn níundi hluti

17.Ágúst'16 | 05:08

Sú taka sem ég þurfti að hafa hvað mest fyrir er þegar ég náði Ólafi Ólafssyni, fyrrum bæjarstjóra okkar en ég náði reyndar að slá tvær flugur í einu höggi því Kjartan Kristjánsson sem þá vann sem markaðsfulltrúi Grindavíkurbæjar, gekk fyrst í gildruna.  Ég var beðinn um að semja lag af tilefni 30 ára afmælis Grindavíkurkaupstaðar árið 2004.  Ég féllst á það og var bent á í leiðinni að fyndið yrði að láta bæjarstjórann fyrst heyra „steypulag“ 

Alvöru lagið heitir „Grindavík er alltaf bærinn minn“ og hægt er að sjá það hér: https://www.youtube.com/watch?v=scEL5LK1h4U

Steypulagið heitir „Grindavík, við elskum þig“   Titill lagsins segir allt sem segja þarf......   Hér er slóðin á það: https://www.youtube.com/watch?v=yMw9Uctm8Bg

Alvöru lagið var tekið upp í flottu stúdíói og annaðist Pálmi Sigurhjartarson útsetningu og Haffi Tempó upptöku.  Steypulagið hins var tekið upp heima hjá Lárusi Magnússyni, félaga mínum úr hljómsveitinni Stóri Björn.  Tæknin í svona heimastúdíóum er orðin það mikil að erfitt er að greina mun á slíkri upptöku og í „alvöru“ stúdíói.

Þegar kom að því að gera sjálfa tökuna þá bauð ég Kjartani fyrst heim til mín til að hlusta.  Svo skemmtilega vildi til að ég var að bíða eftir nýju sófasetti og var bara með einn stól í stofunni svo Kjartan varð að setjast í hann.  Falin myndavél var á andlitinu á honum og var óborganlegur svipurinn á honum þegar línan um fýluna kemur fram. Viðbrögðin eftir flutninginn sömuleiðis óborganleg og í raun tókst þessi taka betur en á sjálfan bæjarstjórann.  Kjartan var þá auðvitað kominn með mér í lið og kallaði Ólaf á sinn fund til að ræða lagið.  Ég var síðan kallaður á vettvang.  Kjartan var búinn að fela myndavélina og átti Ólafur að sitja á ákveðnum stað en sökum stress vegna afmælishátíðarinnar þá var ómögulegt að fá hann til að setjast niður.  En allt samtalið er til á spólu einhvers staðar og þarf ég sem fyrst að koma þessu á youtube 

Ólafur var kurteisin uppmáluð, fannst lagið vera fínt en ég þyrfti að breyta línunni með fýluna, hún gengi ekki upp.  Við þráttuðum heillengi um þetta, ég sagðist m.a. vera búinn að skila þessu svona inn í STEF og það væri ekkert hægt að breyta þessu núna.  Fór bara í fýlu og spurði hann hvort hann vildi ekki bara fá einhvern annan í að semja lagið!  Við deildum í dágóða stund um þetta og varð Ólafi mikið létt þegar hann vissi að ég væri að bulla í honum.

Svona er textinn:

Viðlag: Grindavík, við elskum þig, við dýrkum þig, tilbiðjum þig

 

Erindi: Grindavík við erum hér, alltaf hér við hliðina á þér

Allir eru hressir hér við hiðina á þér

 

Hér er rosa gaman já, að vera þér öll saman hjá

Allir eru í stuði með Guði

 

Viðlag

 

Ert þú kannski hrifin af mér

Mér finnst ekki vond fýla af þér

Þó að flestum gestum finnist það

 

Við góða eigum íþróttamenn

Sem vinna titilinn eflaust senn

Allir hafa þeir kjark og þor

Og svo eigum við Kalla idol