Ræða mín frá störfum þingsins í gær

Óréttlæti

19.Ágúst'16 | 03:10

Að undanförnu hefur verið mikil umræða í samfélaginu um kvótakerfið og ekki af ástæðulausu. Fólki blöskrar að sjálfsögðu hvernig útgerðarmenn sem ráða yfir fiskveiðikvótunum geta selt þá og keypt eins og þeim sýnist og stungið ágóðanum í vasann án þess að þurfa að taka nokkurt tillit til fólksins sem byggir afkomu sína á því að veiða fiskinn og vinna hann og hafa reist samfélög sín á því.

Þetta er staðan. 

Ráðamenn hafa lengi vitað að þetta væri svona en þó ekkert aðhafst. Núverandi ráðamenn hafa þó margir látið fá tækifæri ónotuð til að þylja fagurgalann um að þeim sé svo annt um fólkið sem býr á landsbyggðinni og í sjávarplássunum og engu megi breyta í fiskveiðistjórnarkerfinu því að það ógni hagsmunum og lífsafkomu þessa fólks. 


Hvílíkur blekkingarleikur.

Fólki blöskrar að sjálfsögðu líka hvernig staðið er að því að skipta þeim mikla arði sem nýting fiskstofnana skilar. Sérhagsmunaöfl og talsmenn þeirra hér á Alþingi og annars staðar verða að fara að skilja og sætta sig við þá staðreynd að fólkið í landinu vill fá að eiga og njóta arðsins af fiskveiðiauðlindinni. Fólkið í landinu á að ráða þessu. Það er lýðræðislegur réttur þess. Það er líka réttur fólksins í landinu að fá að njóta arðsins af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. 


Nýtingu fiskstofna í þágu þjóðarinnar verður að haga þannig að fiskveiðiarðurinn verði mikill og deila honum svo þannig að allir landsmenn njóti góðs af. Það er óhjákvæmilegt að takmarka aðganginn að fiskveiðiauðlindinni til að nýting hennar verði hagkvæm og arðbær. Aðalatriðið er að almenningur fái þann hlut í arðinum sem nýtingin skapar sem honum ber sem eiganda auðlindanna. 


Og að sjálfsögðu er sanngjarnt og eðlilegt að fólk sem býr í hefðbundnum sjávarbyggðum fái drjúgan hluta af þeim arði til að styrkja samfélög sín og byggja upp fjölbreytt atvinnutækifæri þar. Við höfum nýleg dæmi um það eins og í Þorlákshöfn þar sem stór hluti kvótans er seldur burt og eftir situr samfélag í sárum og 20–30 manns atvinnulaus sem hafa ekki í nein hús að venda. Það er óþolandi að örfáar manneskjur skuli hafa það í hendi sér hvort samfélögin á Íslandi skuli deyja eða lifa.   

Páll Valur Björnsson