Viktor Scheving skrifar

Að lifa lífinu feiminn

5.Október'16 | 07:19

Feimni hamlar fólki oft mjög mikið. Viktor Scheving skrifaði stuttan pistil um sína reynslu af feimni sem bæði drengur og fullorðin einstaklingur. Pistillinn hefur vakið fólk til umhugsunar. Hér kemur hann.

Ég var mjög feiminn sem drengur og lengi fram eftir fullorðinsárum. Feimni hamlar fólki mikið við það að uppfylla sína drauma. Ég veit um fólk með mikla hæfileika sem að nýtur sín ekki í lífiinu. Þeirra stóru hæfileikar eru að mestu faldir á bak við feimni, hlédrægni eða hverskyns óöryggi.

Margir úr þessum hópi eru taldir merkilegir með sig. Sagt að þeir heilsi ekki, eða tali ekki við fólk vegna þess að þeir vilji það ekki. Þetta er ekki alltaf svona. Auðvitað er til fólk sem að lítur niður á aðra í kringum sig, það er annar kvilli. En þeir feimnu óöruggu líða oft sálarkvalir fyrir það sem þessi tilfinningin, feimni, segir því að horfa beint fram og þurfa ekki að hafa samskipti sem að þeim langar samt mikið að hafa. Yfirleitt fer þessi niðurbrjótandi tilfinningin með sigur af hólmi.


Hún er skrítin þessi feimni, t.d skemmtikrafturinn sem að getur verið á sviði í allra kvikinda líki, virðist vera þvílíkt öruggur með sig, en engist svo af feimni þegar hann er hann sjálfur í viðtölum. Munurinn er rosalegur. 

Ég veit um íþróttamenn sem eru feimnir, eru til baka. Kannski eru margir t.d knattspyrnusnillingar faldir í inni í óöryggi feimninnar, Þú mátt ekki vera til baka á vellinum. Það eru samt einhverjir sem að geta algjörlega gleymt sér við akkúrat þessar aðstæður og blómstra eins og skemmtikrafturinn.


Allavega næst þegar þú hittir manneskju sem að heilsar þér ekki, hugsaðu um hvernig henni líður eða hvort hún sé feimin. Hvort henni langi til að spjalla en hafi sig ekki í það. Það er eðlilegt að fólk sem er svo heppið að vera algjörlega laust við feimni skilji ekki hvað sé í gangi. En það er jafnframt gott að því sé sagt frá þessu þannig að það geti hugsað um þetta. Feimni minkar oft með árunum en ekki alltaf. 
Fólk á það líka til að hrökkva í gamla gírinn. 


Feimni er meðfædd, það hef ég séð á ungum börnum. Hlédrægni hefur líka sína kosti. 


Þetta sem að ég er að tjá mig um hef ég sjálfur reynt. Það hefur rjátlast af mér með aldrinum. Ég stíg oft skrefinu lengra en mig langar. Það er gott að finna fyrir þeim breytingum sem verða við það. 
Ég finn oft til með góðu fólki sem að ég sé að er til baka, jafnvel allt lífið. Það gæti áorkað svo margt skemmtilegt og liðið mun betur. Við getum aðeins sýnt skilning og vonað það besta fyrir það. 

Ég vona að þú eigir góðan dag