Stemmarinn í stúkunni.

12.Október'16 | 06:22

Og það held ég nú og sei sei og góðan daginn. Körfuboltinn kominn af stað og örlitlar vísbendingar um meistaraflokkana byrjuð að sjást. Stelpurnar búnar með tvo heimaleiki þar sem að annarsvegar var boðið uppá sannfærandi sigur og svo hinsvegar óvænt sannfærandi tap. Dr. Jeckyll og Mr. Hyde er eitthvað sem að mér dettur helst í hug en þær munu undir stjórn Björns Steinars vinna úr þessu og stefna hátt í vetur. Spáð 3.sæti en ætla ofar en það. 

Svo er það karlaliðið ! Þar erum við á svolítið nýjum slóðum. Í fyrsta skipti í mörg ár hefur verið ótti og neikvæðni yfir sumarið og miklar pælingar hjá nokkrum hörðum stuðningsmönnum. Ég lenti td í umræðu um miðjan ágúst um hvort við værum á leið í fallbaráttu ?? Ég svaraði því þannig að ég myndi nú helst vilja sjá liðið tapa fyrstu 6 leikjunum áður en ég tæki þátt í þeirri umræðu. En við erum búin með einn leik og unnum hann á heimavelli? Þýðir það að við séum ekki í fallbaráttu? Nei nei, en  við erum svosem nær toppnum eftir þennan eina leik. En stundum gengur vel að ná í leikmenn og stundum ekki.

 Flestir eru með skoðun á hversvegna það er og kunna að hafa rétt fyri sér......ég hreinlega veit það ekki. En karlaliðið sem við erum með í dag er nefnilega betra en margir halda, mikil uppbygging í gangi og  stemningin sem getur myndast í kringum það getur verið alveg hrikalega skemmtileg ef að.......og taktu nú eftir......ef að VIÐ viljum hafa hana þannig !! Við eigum alveg eftir að tapa leikjum í vetur en við eigum sko heldur betur eftir vinna leiki líka og ég gæti trúað að fleiri leikir í vetur verði svona „óþægilega“ spennandi eins og sá fyrsti var. Stemmarinn í kvennaliðinu er góður, stemmarinn í karlaliðinu er góður en hvernig er stemmarinn í stúkunni hjá okkur??? Hefur þú spáð í því? Ég man ekki hvort ég setti smá pistil sem status eða hér á grindavik.net um þetta umræðuefni og kann því að endurtaka mig talsvert en þar sem að ég þarf nú nokkuð oft að endurtaka mig við yngsta son minn þá er það ekkert nýtt fyrir mér 

Við höfum að mínu mati á síðastliðnum 3 árum náð ákveðnum lág-punkti varðandi stemmarann okkar meginn í stúkunni. Margir leikmenn okkar hafa hugsanlega rutt veginn í þessu og við fylgt með. Kannski er þetta spurning um hvort kom á undan eggið eða hænan?? Enn og aftur þá bara hreinlega veit ég það ekki. Og auðvitað er ekki sanngjarnt af mér að segja „við öll“ því þetta á ekkert við um alla sem koma leiki.....eigum við ekki að segja að við tökum það til okkar sem eigum það?  Við þá sem aldrei kalla neitt inná völlinn myndi ég nú segja láttu í þér heyra og taktu þátt í þessu því það er nú bara þannig að þetta er skemmtilegra þegar maður er með „passion“ í þessu. Við þessi háværu, og taktu eftir, ég tel sjálfan mig með í því. Spáum aðeins í því hvað við segjum og hvernig við segjum það. Það er í raun allt og sumt. Bara spá pínu. Ég er ekki að biðja um að þetta verði eins og verið sé að reyna að setja heimsmet í kurteisi eða allir hvísli inná völlinnn eitthvað fallegt til dómaranna heldur bara að finna þessu fínu línu sem jafnvel gæti kallast „meðalhóf“  Áttum okkur bara á því að dómararnir,  þeir kunna þetta bara betur en við?? Sorry! Og við erum ekki að gera liðinu einn einasta greiða með því að vera eitthvað að hrauna yfir þá blessaða eða aðkomuliðið. Ég hef lent í umræðu vegna orðbragðs í stúkunni hvort sem er í húsinu eða á fótboltavellinum. Þar var bent á að það væru börn í stúkunum. Ég er bara ekkert að hugsa um það. Viðurkenni það bara. Ég vil að börnin læri „ákveðið passion“ af okkur......finnið bara þennan gullna meðalveg sem er einmitt svo auðfundinn ef maður skoðar mannkynssöguna??

Að öðru leiti hlakka ég bara hroðalega til komandi tímabils og vona að ég sjái Mustad-Höllina sem oftast þétt setna, við það að vera full, með tilheyrandi hávaða sem dynur jákvætt og fallega í eyrum allra  Djöfullinn hafi það......var þetta kannski neikvætt??

Njótum. Gauti D