Viktor Scheving skrifar

Ekki Pólitískt Sexí

18.Október'16 | 11:01

Ég var á Hafnarsambandsþingi fyrir helgi, ég er í hafnarstjórn í Grindavík. Það var bæði gaman og fræðandi að sitja þingið. Eftir að heim var komið fór ég að hugsa um það sem að hafði komið fram og sat eftir hjá mér. 

Þeir sögðu mér á þinginu að það væri ekki pólitískt sexí að ræða málefni hafna, það væri ekki mikill áhugi fyrir sjálfri lífæðinni á eyjunni Íslandi. Kannski er það þess vegna sem að maður heyrir ekki mikið rætt um þennan málaflokk fyrir bæjar og alþingiskosningar.

Ég tók eftir því á þinginu sem ég vissi svo sem fyrir að sumar hafnir eru mjög illa staddar fjárhagslega. Að einhverju leyti má um kenna þá stöðu að fyrirtæki sem að jafnvel höfðu pressað á hafnarframkvæmdir höfðu síðan flutt starfsemi sína annað, þar með urðu hafnirnar fyrir stórum forsendubrest.

Lánin falla á íbúa þeirra sveitarfélaga sem að höfðu farið að óskum fyrirtækja um góðar hafnir. Þar með hefst keðjuverkun, t.d er ekki hægt að sinna eðlilegu viðhaldi sökum fjárskorts.

Við hjá Grindavíkurhöfn erum að fara í stórar framkvæmdir. Ég hugsaði líka um það á þinginu hvað gerðist ef að þegar að við erum búinn að byggja upp höfnina að þá flytti stórt fyrirtæki úr bænum, höfnin stæði uppi með lánin en minni tekjur til að greiða þau niður.

Hvað er til ráða. Hvernig eiga þessar stórskuldugu hafnir að geta rekið sig með tilheyrandi viðhaldi og öðrum kostnaði, það er ómögulegt.

Hvað með veiðigjöldin. Getur hluti af þeim farið í það að greiða niður þau lán sem að útgerðin hefur hvatt til að hafnirnar tækju sjávarútvegnum til hagsbóta. Lán sem að síðan hafa orðið íbúum þeirra sveitarfélaga sem þau taka baggi. Er hugsanlegt að skynsamlegt sé að stofna sjóð í þeim tilgangi að ábyrgðin á forsendubrestinum dreifist.

Útgerðin vill hafa fyrirsjáanleika. Hún vill vinnuumhverfi sem að þeir geti unnið í og gert áætlanir fram í tímann. Hvað með hafnirnar. Þurfa þær fyrirsjáanleika. Spáir útgerðin í því. Getur hafnarstjórn reiknað með að útgerð sem að pressar á hafnarframkvæmdir verði á staðnum næstu 5 til 10 ár, sagan segir okkur að það er því miður ekki hægt.

Það verður samt að halda áfram að byggja upp og viðhalda hafnarmannvirkjum. Við getum ekki dregið okkur inn í skel óttans við morgundaginn. Það væri samt gott að vita af tryggingasjóð sem að tæki þátt í ófyrirsjáanlegum áföllum þegar að kvótinn fer annað. Sjóðurinn gæti byrjað á því að taka á áföllum úr fortíðinni sem að nokkrar hafnir eru nú að sligast undan.

Veiðigjöldin gætu að hluta til farið í þennan tryggingarsjóð sem að greiðir niður þann skaða sem að orðið hefur við það að útgerðin hefur flutt sig um set.Núna eru hafnir sem að sannarlega þurfa aðstoð. Þetta gæti verið hluti af þeirri leið. Í sumum tilfellum gæti þetta verið nóg aðstoð til þess að hafnir réttu úr kútnum.

Hafnir landsins eru og hafa verið lífæð okkar í gegnum tíðina. Þær eru þjóðhagslega gífurlega mikilvægar, ekki bara fyrir fiskveiðar heldur einnig fyrir ferðamannaiðnaðinn, strandflutninga og ekki síst inn og útflutning. Það gengur ekki að þær eigi í vök að verjast vegna ákvarðanna stórútgerða sem að geta flutt sig um set án samráðs við einn né neinn. Þetta er mikið réttlætismál sem þarfnast skoðunar sem allra fyrst.