Viktor Scheving skrifar

Kynbundin Launamunur og Baráttumál Blökkumanna

28.Október'16 | 09:00

Ég fylgdist að mikilli athygli með baráttudegi kvenna á mánudaginn var. Hvað snýst kvennabaráttan um núna, ótrúlegt en satt þá snýst hún um sömu laun fyrir sömu störf, það er að konur fái jafnmikið greitt fyrir sömu vinnu og karlar, árið 2016 ótrúlegt eða hvað.

 

Hvers vegna er þetta svona. Er þetta kosningamál. Nei það heyrist varla á þetta minnst í þeirri kosningabaráttu sem að nú er að ljúka. Það þykir mér undarlegt miðað við hvað þetta hlýtur að vera eitt stærsta mannréttindamál samtímans. Ég held að konur gætu ef þær einhentu sér í það náð þessari leiðréttingu sjálfar. Með kannski breyttum baráttuaðferðum. Láta sverfa til stáls, tæku sér meira pláss þar sem að ákvarðarnir eru teknar. Ég er viss um að þetta er hægt með ákvörðum margra þeirra öflugu kvenna sem eru í stjórnmálum og verkalýðsbaráttu. Þetta gæti þá orðið t.d 5 ára markmið í stað 50 ára. Ég lít á þennan launamun sem jafnmikið óréttlæti og mörg baráttumál blökkumanna í gegnum tíðina.

Ég skil ekki hvers vegna einhver flokkur setti ekki þetta réttlætismál á oddinn í kosningabaráttunni, þetta mál öskrar á mig. Ég væri brjálaður ef að ég fengi ekki sömu laun fyrir sömu störf á sama vinnustað. Ég myndi ekki sætta mig við það, bara alls ekki! Ég vona og veit að dætur mínar gera það ekki heldur.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur oftast verið í ríkisstjórn á Íslandi undanfarna öld. Það er eins og að hann og aðrir hægri flokkar spái ekki í málefnum kvenna. Konur eiga ekki upp á pallborðið hjá þessum gamla hægri flokki. Við sáum það síðast í prófkjörum fyrir þessar kosningar. Nokkrar af forystukonum sjálfstæðisflokksins sögðu sig síðan úr honum í aðdraganda kosninga. Þær voru búnar að fá nóg af því að komast ekki að með sín mál. Þær trúðu því ekki lengur að sjálfstæðisflokkurinn myndi vinna fyrir og með þeim að þeirra málum, hvers vegna eigum við hin þá að gera það.

 Hverjir eru líklegastir til að taka á þessu óréttlæti sem að gegnsýrir þjóðfélagið og er okkur til skammar. Það eru jafnaðarmenn. Þeir hljóta að finna fyrir mun meiri pressu innan úr sínum röðum en hægri öflin gera, orðið jafnaðarmaður stendur meðal annars fyrir launajafnrétti. 

Við vitum að hægri öflin eru flest að vinna fyrir sérhagsmuni, en ekki athafnafrelsi eða sjálfsögðum mannréttindum. Sérhagsmunadeildir hægri flokkanna eru ekki að spá í mannréttindum.

Ef þú átt í vandræðum með það að finna út hvaða flokk þú ætlar að kjósa. Ef þú ert venjuleg manneskja á Íslandi eins og ég. Ef þú vilt jafnrétti. Ef þú vilt auka líkur á að launamunur kynjanna verði leiðréttur. Ef þú hafnar sérhagsmunum fyrir almannahagsmuni. Finndu þá jafnaðarmannaflokk sem að þú getur felt þig við og settu X-ið þitt við hann á morgun.