Opið bréf til Bjarna Benediktssonar

1.Nóvember'16 | 08:17

Sæll Bjarni.Eins og þú veist þá hef ég alltaf verið Sjálfstæðismaður, væntanlega frá þeim tíma sem sundmenn pabba mættu fylktu liði inn í sundhöll móður minnar.....

Ég hef alltaf verið fylgjandi Sjálfstæðisstefnunni en verð að viðurkenna fyrir þér að ég var ekki svo viss í aðdraganda þessara kosninga.  Um tíma hugnaðist mér hið nýja afl, Viðreisn og fannst ansi líklegt að ég væri að fara setja x-ið mitt við bókstafinn á undan D.....  Það var oddviti Sjálfstæðismanna í Grindavík, Hjálmar Hallgrímsson sem reddaði sínum mönnum með ansi góðri ræðu og ég frelsaðist.  Hans rök voru þau að með því að kjósa t.d. Viðreisn, að þá væru meiri líkur á að vinstri armurinn kæmist til valda.  Þetta dugði til að sannfæra mig því það er það síðasta sem ég myndi vilja fá yfir okkur hér á þessu skeri.

Ég kaus utan kjörstaðar þar sem ég þurfti að mæta á sjóinn fyrir kosningar og eftir að ég horfði á þig og hina formenn flokkanna á Rúv deginum fyrir kosningar, þá sá ég að ég hafði kosið rétt!  Þú barst og berð, höfuð og herðar yfir aðra íslenska stjórnmálamenn, svo einfalt er það.  Það var nánast kalt í kringum þig, þú varst svo yfirvegaður og staðfastur á meðan píratinn gjammaði stöðugt fram í fyrir öðrum.  Ég er viss um að þetta kvöld hafi margt efasemdarfólk kvatt Birgittu og heilsað upp á þig!

Svo þú stendur eftir sem ótvíræður sigurvegari þessara kosninga.  Jú jú, Píratar og Vinstri grænir bættu við sig frá síðustu kosningum og Viðreisn kom sterk inn sem nýtt afl en Sjálfstæðisflokkurinn er sigurvegari.  Þú hlýtur að fá umboð forsetans til að mynda nýja ríkisstjórn.  Og verður einfaldlega svolítið spennandi að sjá hvernig það mun allt spilast....

Þú hefur væntanlega alveg heyrt gagnrýnisraddir á þetta flokkakerfi sem er við lýði og að fólk myndi vilja sjá persónukjör?  Ég sé svo sem ekki hvernig það ætti að geta gengið en mikið er til í því vegna þess að í öllum flokkum er gott fólk sem vinnur af heiðarleika.  Svo ég taki sem dæmi þingmann okkar Grindvíkinga, Pál Val Björnsson.  Mikið hefði ég viljað sjá hann hljóta brautargengi því þar fer góður maður!  Eitthvað segir mér að félagi hans, söngvarinn Óttar Proppé sé heilsteypur maður líka.  Ég er viss um að Katrín Jakobsdóttir er frábær stjórnmálamaður.  Þó ég þekki ekki mikið til Smára McCarthy þá held ég þar fari eldklár og heiðarlegur maður.  Svona mætti lengi telja.  

Ég vil skýra út fyrir þér vegna hvers ég var í vafa um að setja x við D.  Þótt ég sé fylgjandi frelsi einstaklingsins þá finnst mér ansi margt hér á Íslandi vera farið að lykta af of miklum ójöfnuði og stutt virðist stundum í spillinguna.....  Þótt ég efist um að stór þorri óánægjufólks yfir kvótakerfinu, viti nákvæmlega hvernig það kerfi er og að ca 90% kvótans hafi skipt um hendur, þá get ég alveg skilið að fólki svíði að heyra gígantískar hagnaðartölur Samherja t.d.  Fólk vill sjá meira af þessari þjóðareign, skila sér til þjóðarinnar.  Leið Jóhönnu og Steingríms eftir hrun var algerlega galin að mínu mati og hefði gengið af útgerðinni dauðri en er ekki hægt að finna einhvern sanngjarnan milliveg??  Að mínu mati verður að vera gulrót í fyrirtækjarekstri og gulrótin í þessu samhengi er hagnaður.  Enginn heilvita maður/kona fer út í fyrirtækjarekstur án þess að ætla sér að hagnast á rekstrinum.  Ég veit með mig persónulega að ef ég ætti fyrirtæki sem myndi hagnast, þá myndi mér líða vel með að skila vel til samfélagsins.  Og ég væri alveg til í að skila þeim mun meiri hluta af kökunni eftir því sem hún stækkar.  Þá er ég að hagnast og ég skila meira til samfélagsins.  Einhvern tíma myndi þetta kallast win, win situation.  En væntanlega hugsa ekki allir svona og maður hlýtur að spyrja sig hvað vaki fyrir þeim sem velja að fela peninga sína á Panama t.d.  Geturðu ekki bara sett þannig lög sem banna algerlega slíka gerninga?  Það getur ekki verið önnur ástæða með slíku en að svíkja undan skatti og það á bara ekki að líðast, svo einfalt er það!  Og ef mín leið yrði farin þá verður tekjuskattur fyrirtækja stighækkandi, svipað og skattakerfi einstaklinga.  Þú borgar 20% skatt af hagnaði upp að X mörgum milljónum, frá xx-xxx milljónum borgarðu 30% skatt og koll af kolli.  Er þetta ekki sanngjarnt fyrir alla?  Mér myndi líka hugnast sú leið að fyrirtæki geti ekki tekið út arð fyrr en starfsmenn hafi fyrst fengið hlut í hagnaðinum.  Hugsaðu þér hvað það væri hvetjandi fyrir starfsmennina??   Aftur – win , win situation!

Hvað finnst þér persónulega um verðtryggðu lánin okkar?  Hvernig getur slíkur kapall átt að geta gengið upp?  Spáðu í steypunni, ég tók 15,5 milljóna kr. verðtryggt lán árið 2005 og tæpum 10 árum seinna var það búið að hækka upp í 25 milljónir......  Pældu í steypu, ég borgaði meira og meira og lánið bara hækkaði og hækkaði!  Það sem mér hugnaðist varðandi Viðreisn voru pælingar þeirra varðandi vaxtamuninn sem við búum við, væntanlega mest út af þessari krónu sem flestir vilja meina að sé bara úr sér gengin.  Ertu ekki sammála því?  Hvernig er virkilega ekki gott fyrir okkur að eyða þessum óstöðugleika??  Geturðu skýrt það út fyrir mér?  Jú, þú hlýtur að vilja eyða þessum óstöðugleika, bara spurning um aðferðarfræðina.

Óvinir Sjálfstæðisflokksins tala um að flokkurinn hygli bara þeim ríku, sérhagsmunahópum eins og útgerðarmönnum.  Getur verið að það henti þessum aðilum að hafa þessa krónu við lýði?  Eða eru það kannski bankarnir sem græða mest á henni og þessari bölvuðu verðtryggingu.  Ef það er málið, ertu þá ekki bara maður af meiri ef þú heggur aðeins á þau tengsl og gerir frekar það sem hentar fjöldanum?  Áfram má alveg ýta undir frelsi einstaklingsins en verður að gera það svona?  Ég trúi ekki að þú myndir frekar kjósa Trump en Hillary?  Sumir vilja meina að við stefnum nær og nær Trump, varla viljum við fara þangað?

Jæja, þetta eru kannski nægar pælingar að sinni.  Ég er ánægður með útkomuna, Grindvíkingurinn Vilhjálmur Árnason sem mér skilst að þú hafir kallað okkar efnilegasta þingmann, flaug inn og er væntanlega búinn að festa sig í sessi.  Mér líst vel á framhaldið en mikið myndi ég vilja sjá þig hlusta aðeins á greinilegar óánægjuraddir í samfélaginu og reyna minnka þann ójöfnuð sem klárlega á einhvers staðar við.

Gangi þér vel í framhaldinu.

Bestur kveðjur,

Sigurbjörn Daði Dagbjartsson.