Svar til Bjarna

2.Nóvember'16 | 22:05

Sæll aftur Bjarni og takk fyrir greinargóð svör við pælingum mínum.  Ég er ekki frá því að álit mitt á þér hafi aukist og sé ég ennþá betur núna að auðvitað var atkvæði mínu best varið hjá D. En nú fer í hönd mikilvægur tími hjá þér og ef þú vilt mínar ráðleggingar og pælingar þá vil ég glaður rétta þér hjálparhönd.

Í þessum skrifuðu orðum ert þú nýbúinn að hitta Guðna í annað sinn og hann búinn að veita þér umboð til stjórnarmyndunar.  Besta mál.  Eins og þú veist þá er staðan ekkert einföld.  Ekki lengur möguleiki á 2. flokka stjórn og því þurfa fleiri að mæta að samningaborðinu.  Af fréttum að dæma þá líturðu fyrst til Viðreisnar og sagan á götunum er að þú viljir fá hinn söngelska Óttar á sviðið með þér til að láta kapalinn ganga upp.  Sumir tala um að þú munir gera hosurnar grænar fyrir þeirri grænu, Katrínu Jakobs en einhvern veginn sé ég það ekki gerast.  Það er langt í sjóræningjann í þér svo það má útiloka þá.  Þú hefur sagt að samstarfið við Framsókn hafi gengið vel en kannski ertu smeykur við það á meðan SDG gengur laus.....   Veist þú frá hvaða plánetu sá gaur er?  Stórkostlegur skilningur hjá honum að með hann í forsvari fyrir Framsókn, þá hefði það skilað flokknum 19% atkvæða.  Að mínu mati hefði Framsókn bara skorað hærra ef hann hefði haft vit á því að taka sér pásu.  Ég held að hann eigi bara að flytja alfarið til Tortola....
En er ekki nokkuð ljóst Bjarni að ef þú ætlar að vera áfram í fararbroddi í íslensku þjóðfélagi og stýra hér málum, að þú verðir að gefa einhvers staðar eftir og svara kalli landans eftir ákveðnum breytingum?  Viðreisn vill tengja krónuna við einhvern erlendan gjaldmiðil og breyta hér vaxtamálum.  Ef ég væri Benedikt þá myndi ég ekki hnika frá þessum kröfum því annars væri hann að svíkja sína kjósendur.
Katrín frænka þín vill sjá meiri jöfnuð sem þýðir basically bara það að sjávarútvegurinn verður að skila meira til samfélagsins.  Þar reynir á hversu mikið LÍÚ er með þig í hundaólinni sinni.  En eins og ég sagði þér í fyrra bréfi mínu þá hugnast mér Katrín og margt af hennar fólki.  Sé hana t.d. fyrir mér sem prýðis velferðisráðherra.  En vissulega þurfið þið fyrst að komast að einhverju samkomulagi varðandi sjávarútvegsmálin.
Sigurður Ingi vill eflaust bara halda áfram á svipaðri braut og þið voruð á en yfir höfuð var sú braut góð þótt hún hafi tekið netta u-beygju til Panama.....
Hvað með Óttar og co?  Þeir vilja ekki umbylta sjávarútvegsmálunum en þeir líta alltaf svolítið til ESB.  Ég veit að þér hugnast það ekki en gætuð þið fundið einhvern milliveg þarna?  Ég trúi ekki öðru en söngur um tengingu krónunnar við erlendan gjaldmiðil sem svo myndi vonandi leiða af sér lægra vaxtastig, hljómi vel í eyrum Óttars.
Ég veit ekki hvort þú tókst eftir því Bjarni en ansi margir á samfélagsmiðlunum voru að reyna bendla þig við Panama eins og Sigmund frænda þinn.  Ég tjáði mína skoðun, að ef einhver fótur hefði verið fyrir þessum ásökunum og eitthvað ljúffengt kjötmeti væri á þínum Panamabeinum, að þá hefðu hrægammarnir tætt þig í sig!  En þú svaraðir einfaldlega vel fyrir þetta, lagðir öll þín spil á borðið svo andstæðingarnir sáu að ekkert bitasætt var í þessu.  Ég gæti trúað að þetta hafi verið svipað og því sem ég lenti í en hvort sem þú trúir því eða ekki þá lenti ég á svörtum lista skattmanns vegna fyrirtækis skráðu á Panama.....  Ég gæti trúað að þín aðkoma að Panama hafi verið með svipuðum hætti og þetta dæmi mitt en þetta fyrirtæki sem ég var bendlaður við, „Percola partners“ var vegna eignarhalds á hlutabréfum í skosku flugfélagi, City Star Airlines sem nokkrir Grindvíkingar fjárfestu í.  Til að minnka flækjustigið þá var hugmyndin að þessi hópur væri saman með eignarhlut í þessu flugfélagi í gegnum þetta Percola partners fyrirtæki.  Ráðgjöf bankans var á þá leið að það væri ódýrara að stofna svona félag heldur en einkahlutafélag eða eitthvað annað fyrirtækjaform.  Bankinn væri með fullt af svona skúffufyrirtækjum og það væri tilbúið, það eina sem þyrfti væri að taka ákvörðun.   Það var vaðið í þetta en þegar allt kom til alls þá varð ekkert af því að við notuðum þetta Panama-félag og hver og einn hluthafi átti bara sinn hlut.  Samt lenti ég á listanum en gat útskýrt mitt mál.  Finnst þér þetta ekki vera svakalegur glæpur?  Ætti ég ekki bara líka að láta mig hverfa af skerinu eins og Sigmundur ætti að gera?? :)  Eins og með þitt fyrirtæki, þá var bara enginn ásetningur í gangi en að sjálfsögðu vildu pólitískir andstæðingar þínir taka þig af lífi.....
Gangi þér vel í baráttunni.
Þinn vinur, Sigurbjörn


Ps.  Ef einhver lesenda trúir því að þessi pistill hafi átt að rata inn á borð til Bjarna Ben og hvað þá að hann hafi svarað mér, þá er spurning hvort hér sé enn ein TAKAN á ferðinni...... :)