„Erum við ekki nógu sætir?!?!“

Tekinn 11.hluti

5.Nóvember'16 | 09:59

Ótrúlegt að ég skyldi gleyma þessari töku í skrifunum um daginn en þessi verður bara að vera með!  Ef þú ert búin/nn að fá nóg af þessum skrifum, þá bara einfaldlega hættirðu núna að lesa.

Við vinirnir, ég, Vignir og Óli Stefán skelltum okkur í sjónvarpsþáttinn Djúpu laugina á Skjá 1 í ársbyrjun 2001.  Þessir þættir nutu mikilla vinsælda og við ákváðum að láta slag standa.  Þátturinn gekk vel – fyrir utan „netta skitu“ hjá sumum þegar spurningin „Hvaða stórstjörnu líkistu?“.......

Alla vega.  Okkur vinunum leið nokkurn veginn eins og frægum kvikmyndastjörnum fyrstu dagana/vikurnar eftir þáttinn, slík var athyglin og þá sérstaklega frá veikara kyninu.....

Issi koppur frétti af þessu og hringdi í mig og bað mig um emailið í Djúpu lauginni.  Hann sagðist hafa heyrt að við hefðum vaðið í konum og vildi fá smjörþefinn af þessu líka.  Ekkert mál og ég lét Issa fá emailið.

Ca mánuði seinna þegar Vignir bjó hjá mér um stundarsakir, þá skeði það að Nökkvi vinur okkar var að reyna spila með okkur en þá var hægt að fara inn á slóð á netinu; manicmail.com og hægt að senda póst frá hverjum sem er.  Allt í einu gat maður t.d. fengið email frá Davíð Oddssyni sjálfum.....

Sem betur fer þá hafði Issi skrifað emailið vitlaust niður og hann hringir í mig á þessum tíma sem Nökkvi var að spila með okkur og spyr aftur um emailið í Djúpu lauginni......  Ég og Vignir nikkuðum hvorn annan og vissum sem var að þarna vorum við með gullið tækifæri í höndunum!

Við plönuðum lítilega, sendum svo email frá djupalaugin@s1.is og sögðum eitthvað á þessa leið:

„Sæll Jóhann (Issi). 

Það gleður mig að tilkynna þér að þú og vinir þínir eruð komnir í Djúpu laugar þáttinn á föstudaginn og viljum við hitta ykkur á morgun kl. 18:00 á Sportkaffi til að taka upp kynningarmyndbandið af ykkur

Við verðum í símasambandi á morgun,

Kv. Marikó og Dóra Takefúsa“

Þarna voru Issi og félagar í raun komnir í netið og eftirleikurinn yrði auðveldur.

Issi var reyndar ekki alveg búinn að fylla hópinn því Leifur Guðjóns var sá eini sem var klár.  Helgi Einar hafði sýnt áhuga en var eitthvað upptekinn svo Ingibergur Ólafarson var kallaður til.  Leifur var á þessum tíma kokkur hjá Gauja pabba sínum á Reyni og var í mikilli tímapressu við að komast í kynningarþáttinn og mátti Issi m.a. kaupa kostinn fyrir hann áður en þeir brunuðu svo í þáttinn.

Við Vignir fengum vini okkar til að leika Marikó, aðstoðarkonu Maríkóar og Dóru og svo upptökumanninn en í einum af síðustu símtölum „Marikóar“ við Issa sagði hún að það gæti verið að hún myndi ekki komast til að taka kynningarmyndbandið upp og þá myndi Guðrún aðstoðarkona hennar mæta, þetta væri oft gert svoleiðis.  Ekki séns að Issi hefði átt að geta grunað eitthvað.

Til að gera langa sögu stutta þá mættu þessi Guðrún og Skarphéðinn vinur Vignis, vopnuð mini-cam myndavélinni minni einu vopna og það má svo sem alveg velta því upp hvort kvikna hefði átt á viðvörunarbjöllum þremenninganna þá.  Þegar kynningarmyndbandið var tekið upp af okkur þá var sérstök lýsing, við allir með hljóðnema, risastórar upptökuvélar.  En ég skal ekki segja, þarna voru þremenningarnir einfaldlega búnir að festa sig í netinu og áttu ekki séns að losna.

Þremenningarnir voru teknir einn og einn í einu og man ég hve stressaður Issi var þegar hann byrjaði!  Kaffibollinn svoleiðis hristist til í höndinni á honum þegar hann fékk sér sopa.  Svo voru þeir allir teknir í lokin og þá var nú sjálfstraustið komið hjá okkar mönnum og þeir slóu á létta strengi. (Ég sá keppendur aldrei svona saman í kynningarmyndbandi en aftur, okkar menn gátu ekkert alveg vitað það)

Ca klst eftir að upptöku á kynningarmyndbandinu lauk þá hringdi „Marikó“ í Issa og sagði honum að hún og Dóra hefðu verið að horfa á myndbandið og þetta hefði ekki komið nógu vel út og þær ætluðu að reyna fá einhverja nýja í þáttinn!  Marikó spurði Issa hvort hún mætti hringja seinna ef í harðbakkann myndi slá og Issi samþykkti það, sagðist alltaf vera til í að prófa eitthvað nýtt.  „Ok, bæ“ og Marikó skellti á!

Issi hringdi strax í Leif til að tjá honum fréttirnir og það stóð ekki á svari Köggla; „Hvaða rugl er þetta eiginlega Issi, erum við ekki nógu sætir eða hvað?!?!  Ég skal segja þér Issi að ég á meiri sénsa í gellur en allir þessir gaurar sem hafa farið í Djúpu laugina!  En Issi, þetta má alls ekki fréttast, að okkur hafi verið hafnað eftir kynningarmyndbandið!!“  BWAHAHAHAHAHAHAHA!

„Marikó“ hafði ljáðst að setja leyninúmer á símann sinn þegar hún hringdi í síðasta skiptið og þannig komust Issi og Leifur á sporið um að einhver brögð væru í tafli.  Hin raunverulega Marikó hringdi svo seinna þetta kvöld ef ég man rétt eða daginn eftir og Issi og Leifur komust eftir allt í þáttinn.  Þá var Helgi Einar dottinn aftur og fóru þeir þrír og slógu í gegn.

Grunur féll strax á mig en ég náði að bægja hættunni frá, sagði Issa að þetta væri pottþétt Helgi Einar sem stæði á bak við þetta og hefði fengið Hemma í Stakkavík með sér í lið!  Issi var sammála því en ca mánuði seinna fékk Issi svo spólu senda í pósti og þar komu sökudólgarnir í ljós J

Það sem hefði verið ennþá fyndnara var, að ef að mér hefði tekist að finna 3 aðra stráka til að mæta í þáttinn þennan föstudag, þá hefðu okkar þremenningar mætt í kynningarmyndbandið, blásið út um allt að þeir væru að fara í Djúpu laugina en svo þegar þeir hefðu bankað upp á þar sem þátturinn er tekinn upp, þá hefðu þeir komið að luktum dyrum og þeim tjáð að það væru komnir 3 strákar í þáttinn hehehehehehe

Issi fékk spóluna lánaða hjá mér og setti á dvd-disk en hvorki diskurinn né spólan finnast núna og er ljóst að Issa verður seint fyrirgefið ef þetta finnst ekki!