Elsta kona heims

11.Desember'16 | 22:56

Emma Morano, elsta núlifandi manneskja heims, á afmæli fyrir stuttu. Hún er orðin 117 ára og er eina manneskjan á lífi sem fædd er fyrir árið 1900. Morano fæddist 29. nóvember 1899. Hún býr í bænum Verbania á norðanverðri Ítalíu, við Maggiore vatn.

Lykillinn að langlífi hennar virðist vera að sneiða hjá hefðbundnum læknisráðum. Breska dagblaðið Guardian hefur eftir henni að hún borði aðeins tvö egg á dag, og kex. Morano segist ekki geta borðað mikið því hana vanti tennurnar.

Hún átti sjö systkini, en þau eru öll látin. Hún hefur búið ein frá árinu 1938, þegar hún yfirgaf eiginmann sinn sem beitti hana ofbeldi. Skömmu áður en hún fór frá honum hafði hún misst sitt eina barn kornungt. Það var ekki fyrr en í fyrra sem hún þurfti á heimilisaðstoð að halda allan sólarhringinn. Hún býr enn í sama húsi og hún hefur búið síðustu tvo áratugi, en hún hefur verið rúmliggjandi síðasltiðið ár.

 

Morano segist fólk vera forvitið um sig. Það drífi hvaðanæva af til að heimsækja hana, en hún hafi þó ekki boðið neinum. Hún minnist á gesti frá Bandaríkjunum, Sviss, Austurríki, Torino og Milan. 

 

Heyrn hennar er orðin slæm, hún á í erfiðleikum með tal og sér ekki nógu vel til þess að geta horft á sjónvarp en hugur hennar er enn kvikur. Blásið var til afmælisveislu þar sem ættingjar hennar og blaðamenn voru væntanlegir ásamt bæjarstjóra Verbania, Silvia Marchioni. Aðspurð hvort hún hyggist smakka á afmæliskökunni kvaðst hún ekki spennt. Síðast hafi hún fengið sér smá, en orðið illt á eftir.

 

Aðeins tvær konur til viðbótar sem fæddust á þarsíðustu öld eru enn á lífi. Það eru þær Violet Brown frá Jamaíku og Nabi Tajima frá Japan.

 

 

 

Rúv.is