Í árslok

31.Desember'16 | 12:49

Það er margs að minnast frá því ári sem nú er að renna sitt skeið á enda. Fyrir mig persónulega var þetta ár eins og góð ferð í rússíbana og það skiptust á skin og skúrir. Að verða vitni af og vera þáttakandi í þeirri átburðarrás sem átti sér stað í pólitíkinni á vormánuðum vegna Panamaskjalanna var ótrúleg lífsreynsla sem seint mun líða úr minni. 

Ég þarf ekkert að fara í gegnum þá atburðarrás hún er öllum kunn en frá mínum bæjardyrum séð var þetta fyrst og fremst sorglegt og niðurlægjandi fyrir íslenskt samfélag.  Þessi uppákoma varð til þess að kosið var nú í haust hálfu ári fyrr en áætlað var og þær kosningar hafa skilað okkur stjórnarkreppu og mikilli óvissu í íslenskum stjórnmálum. 

Þessar kosningar gerðu það líka að verkum að ég missti vinnuna mína sem þingmaður sem urðu mér mikil vonbrigði eins og gefur að skilja þar sem að mér fannst ég eiga margt eiga eftir ógert sem þingmaður. En maður deilir ekki við dómarann og kjósendur hafa alltaf síðasta orðið í lýðræðislegum kosningum og þann dóm verður maður að sætta sig við. Það geri ég líka og mun alla tíð vera þeim 5.8% kjósenda í Suðurkjördæmi þakklátur fyrir það traust sem þeir sýndu mér með því að gefa mér atkvæði sitt. Ég geng stoltur frá borði og þrátt fyrir að maður sé aldrei fullkomlega sáttur og finnst að gera hefði mátt betur þá er aldrei hægt að ná öllum sínum markmiðum í pólitík. 

Þann 15. mars voru á Alþingi samþykkt með öllum greiddum atkvæðum tvö mál frá mér en það var annars vegar þingsályktunartillaga mín og annarra talsmanna barna á Alþingi um að 20. nóvember yrði framvegis dagur helgaður fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins. Og hins vegar var samþykkt frumvarp mitt til laga um lengingu á fæðingarorlofi vegna andvanafæðinga. Þann 20. september var síðan breytingartillaga mín vegna fullgildingar Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaða fólks samþykkt en hún gerði það að verkum að fullgildur verði einnig valkvæður viðauki við samninginn sem gerir réttarstöðu fatlaðra ganvart ríkinu mun sterkari og betri. 

 

 

 

 

 

16. september hlotnaðist mér svo sá mesti heiður sem ég mér hefur verið sýndur á lífsleiðinni en þá  voru mér afhent Barnaréttindaverðlaun ungmennaráða UNICEF á Íslandi, Barnaheilla og ráðgjafarhóps umboðsmanns barna. En verðlaunin falla í hlut þess þingmanns sem ungmennunum þykir hafa staðið sig best í að vekja athygli á og berjast fyrir réttindum barna á Alþingi á ári hverju. Ógleymanlegur dagur. 

 

 

 

Ég lagði mig allan fram við þingmannstarfið og reyndi eftir fremsta megni að auka virðingu Alþingis og tiltrú fólks á þeirri mikilvægu stofnun. Lagði mig allan fram við að koma fram að virðingu við starfsfólk Alþingis sem er hreint út sagt frábært fagfólk sem vinnur ómetanlega vinnu á bak við tjöldin. Kom fram að virðingu og drengskap við alla þingmenn hvar sem í flokki þeir stóðu og bar virðingu fyrir skoðunum þeirra þó ekki væri ég þeim sammála. Geng burt reynslunni ríkari og vona að sú reynsla muni nýtast mér og öðrum til góðs í framtíðinni. 

 

Nú í desember sótti ég síðan um starf sem bæjarstjóri í mínum fallega bæ Grindavík. Það gerði eftir mikla hvatningu frá fjölda manns í bæjarfélaginu og eins vegna þeirrar vissu að ég myndi vel geta leyst þetta starf að hendi svo sómi væri af. Í starfi minu sem sveitarstjórnamaður og alþingismaður hef ég öðlast mikla þekkingu á íslenskri stjórnsýslu og myndað sterk sambönd í þeirri stjórnsýslu sem og  Suðurkjördæmi öllu sem ég taldi að gætu nýst mér og bæjarbúum í Grindavík til heilla og áframhaldandi uppbyggingar hér á svæðinu. En þú deilir ekki við dómarann eins og áður sagði og bæjarstjórn Grindavíkur valdi annan í starfið og óska ég honum farsældar í starfi. 

 

Að lokum vil ég segja að þó réttur okkar sem einstaklinga eigi alltaf að vera sterkur þá má hann aldrei verða sterkari ein réttur heildarinnar, samfélagsins. Við þurfum að byggja upp samfélag sem tekur mannréttindi og skyldur sínar til að tryggja fólki jöfn tækifæri mjög alvarlega og tryggir að allir þegnar þjóðarinnar fá notið arðs af auðlindum sínum, ekki bara fáeinir útvaldir.  Samfélag sem ræktar heiðarleika, kærleika og ábyrgð ásamt hófsemd og auðmýkt, samfélag sem setur málefni barna sinna, fatlaðra og þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu í forgang, samfélag sem tekur opnum örmum nýjum þegnum sem hér vilja búa, og síðast en ekki síst tryggir eldri borgurum sínum áhyggjulausa göngu inn í sólarlag lífs síns. Þannig samfélag lendir ekki í hruni, þannig samfélag setur bönd á græðgina, það hafnar hrokanum og metur heiðarleika og ábyrgð miklu meira en munað og auð. 

 

Gleðilegt ár og megi það færa okkur öllum farsæld, gleði og hamingju.