Hvarf Birnu hefur kennt okkur

25.Janúar'17 | 22:55
Mynd Haraldur Hjálmarsson

Mynd Haraldur Hjálmarsson

Öll íslenska þjóðin hefur verið undirlögð í átta daga, hvarf og leit að Birnu hefur átt hug okkar og hjarta í átta daga. Við sofnuðum og vöknuðum með nýjustu fréttum, hún er ekki enn þá fundin, vonin lifir. Samkennd, samúð, von, en um leið forvitni og alls konar kenningar hafa tröllriðið samskiptamiðlum og samræðum fólks í átta daga. Birna er ekki fyrsti íslendingurinn til að hverfa, en hún er fyrsta konan og aldrei áður hefur hvarf og leit svo ég muni eftir farið fram fyrir jafn opnum tjöldum og núna. Nánast öll framvinda í leit og rannsókn komin strax í fréttirnar og síðan deilt óhindrað um alla samskiptamiðla, sem eru hið nýja eldhúsborð landsmanna og við það situr ótiltekinn fjöldi einstaklinga, sem allir hafa sína skoðun á hvernig á hvarfinu stóð, hver átti sök á því og hvers vegna.

Hvarf Birnu minnti mig óþægilega á annað hvarf fyrir rúmum 16 árum síðan, þá líkt og núna vissi móðir um leið að eitthvað var að þegar hún hafði ekki heyrt í barninu sínu í smá tíma, þrátt fyrir að barnið væri orðið fullorðið. Það var ekki barninu líkt að láta ekki í sér heyra, það var ekki barninu líkt að láta sig hverfa, barnið var ekki í neinu rugli og því ljóst að eitthvað mikið var að. Fljótlega hófst leit, fyrst fjölskyldu og vina, síðan björgunarsveita og lögreglu, þá eins og núna, endaði leitin á því að sá týndi fannst látinn. Ég vann á sama stað og lögreglan og sá að þekking, reynsla og vönduð vinnubrögð lögreglu leiddu til að það hvarf var til lykta leitt, sá brotlegi játaði og fékk sinn dóm. Þekking, reynsla og tækni lögreglunnar hefur aukist síðan þá og sama mun gerast núna, sá brotlegi mun fá sinn dóm.

Birna átti enga sök á því hvernig líf hennar endaði, hún var bara ung stúlka að lifa lífinu. Var að skemmta sér með vinum sínum og ætlaði svo heim eða eitt hvert annað, við vitum það ekki. Tæknin gerði okkur kleift að fylgjast með Birnu labba eitthvert af djamminu, gera það sama og við höfum flest gert minnst einu sinni: drekka aðeins of mikið, borða á röltinu heim, rekast utan í einhvern, söngla með laginu sem við erum að hlusta á, rölta eitthvert, kannski til að finna meira fjör af því að okkur langar ekki heim alveg strax, kannski til að hitta einhvern sem okkur leist vel á fyrr um kvöldið, kannski til að......Við munum aldrei vita hvert Birna ætlaði, við munum aldrei vita hvað fór í gegnum huga hennar síðustu mínúturnar sem hún lifði, við munum aldrei vita hvað hana langaði að gera daginn eftir eða hvað hana langaði að gera eftir fimm ár, tíu ár.

En það sem við vitum, þrátt fyrir að einhverjar samviskulausar raddir segi annað, er að það er alveg sama hver við erum, í hvaða ástandi við erum, hvar við erum, hvert við erum að fara og með hverjum, við eigum öll rétt á því að komast heim heil á höldnu, við eigum öll rétt á því að vakna daginn eftir og halda áfram með lífið í stað þess að samviskulausar sálir svipti okkur þeim rétti.

Hvarf Birnu hefur kennt okkur það enn á ný að við getum staðið saman þegar á reynir, sýnt samkennd, samhug, elft von, kjark og þor. Komið vel fram við hvort annað og sýnt hvort öðru virðingu og hlýju, en af hverju þarf alltaf eitthvað hræðilegt að koma fyrir til að virkja þennan kraft okkar? Notum hann og virkjum dags daglega og komum fram við hvort annað alla daga ársins hring eins og við höfum gert síðustu átta daga. Verum góðar manneskjur, kennum börnunum að koma vel fram við aðra um leið og við kennum þeim hvað þarf að varast, pössum upp á hvort annað svo að öll börn geti skilað sér heil á húfi heim, af djamminu sem og annars staðar frá. Fyrir Birnu, fyrir börnin okkar, fyrir börn hvors annars. Takk Birna og fyrirgefðu.