Ævintýrin gerast í Ástralíu

1.Mars'17 | 05:32

Í byrjun árs ákváðum við fjölskyldan ásamt einni vel valdri frænku að skella okkur til Ástralíu að heimsækja góða vini og skoða þetta fallega land. Það dugði ekkert minna en sex vikur í skoðunarferðina þar sem að ferðalagið sjálft tók um 40 tíma.

 

 

Við byrjuðum í Frakklandi og flugum í gegnum Peking í Kína þar sem að loftið lyktaði eins og nýsprengdar rakettur sökum mengunar. Við vorum búin að undirbúa Óskar, 4 ára, örlítið og kenna honum það helsta sem Ástralar segja.

 

 

 

 

 

 

Mynd frá Ólöf Daðey Pétursdóttir.

Við komuna til landsins segir Óskar við konuna í vegabréfsskoðuninni “Oh crikey!” eins og krókódíla-hvíslarinn Steve Irwin sagði og stoltið skein úr augum okkar foreldranna og vegabréfsskoðunardaman bráðnaði í klessu. En það var fleira sem bráðnaði því það var sko hásumar og skjannahvítu Íslendingarnir máttu sko vara sig á ósonrifnu sólarljósinu og dugði ekkert minna en 50 blokk sem reyndar dugði svo ekki alveg. Við byrjuðum á því að eyða fyrstu 10 dögunum á yndislegu Manly ströndinni í Sydney þar sem við blönduðum geði við brimbretta stjörnur og atvinnu tanara ásamt því að kíkja á sædýrasafnið frá Dory myndinni og dýragarðinn með útsýni yfir óperuhúsið í Sydney. 

 

Eftir strand dvölina lá leiðin í bílferðalag frá Sydney til Heron Island á suðurhluta Kóralrifanna (sem er um 2 tíma sigling frá meginlandinu) með viðkomu á ótrúlegum stöðum. Fyrst og fremst var markmiðið að sjá villtar kengúrur en eitthvað vorum við að misskilja og sáum fyrst og fremst bara dauðar kengúrur við veginn sem höfðu eitthvað misreiknað sig. Viðvörunarskilti með myndum af kóalabjörnum héldu okkur á tánum á veginum, því hvað væri verra en að keyra yfir kóalabjörn! Sem betur fer sluppu kengúrurnar og kóalabirnirnir en við sáum þær fyrrnefndu skoppandi um eftir margra daga keyrslu og stöðvuðum bílinn við veginn eins og verstu túristar við norðurljósasýningu. 

Mynd frá Ólöf Daðey Pétursdóttir.

En staðirnir sem við heimsóttum á leiðinni til Heron Island voru margir og ólíkir en það sem stóð upp úr var sennilega Hunter Valley sem er vínhérað ekki ósvipað  Napa Valley þar sem við upplifðum 40 stiga hita, svima, svima og svitabað. Börnin áttu erfitt með að njóta sín í slíkum hita og létum við eina nótt nægja –sem betur fer því daginn eftir að við fórum geisuðu skógareldar um svæðið.

 

Við heimsóttum einnig Tamsworth, sem hefur verið líkt við Nashville þeirra Bandaríkjamanna, því þaðan koma allar upprennandi kántrí stjörnur Ástrala og kom engum á óvart að Keith Urban væri þar í guðatölu og vorum við svo heppin að sjá skyrtuna hans og gítar. Í Tamsworth sáum við líka stóra gítarinn, en í Ástralíu er þema að hafa stóra styttu af bara einhverju. Við náðum að sjá stóra gítarinn, stóra bananann og stóra gíraffann. Legg til að þetta verði tekið upp á Íslandi og stóra saltfiskinn yrði klárlega að finna í Grindavík.

Mynd frá Ólöf Daðey Pétursdóttir.  Mynd frá Ólöf Daðey Pétursdóttir.

 

Við héldum strandarfílingnum áfram og komum við í Surfer’s Paradise sem er eins og Miami þeirra Ameríkana og Byron Bay sem er lítill sætur hippabær með æðislegri gönguleið frá bænum að vita í fjallinu. Eins komum við við í bæ sem heitir Noosa og hefðum við viljað eyða meiri tíma þar, en það verður að bíða betri tíma. Við komum einnig við á Rainbow Beach en þar sáum við sandfjöll og fleiri brimbretta stjörnur.

Mynd frá Ólöf Daðey Pétursdóttir.  Mynd frá Ólöf Daðey Pétursdóttir. 

Frá Rainbow Beach fórum við með ferju til Fraser Island sem er eyja úr sandi. Þar þarf leyfi til að keyra um og þurfa bílarnir að vera

fjórhjóladrifnir og eru einungis tvö hótel á þessari pínulitu eyju, annars gistir fólk bara í tjaldi.

Mynd frá Ólöf Daðey Pétursdóttir.

 

 

Þar eru villtir dingóar sem eru líkir hundum en eru alls ekki hundar. Þeir eiga það nefnilega til að vera grimmir og hafa drepið fólk og sérstaklega börn. Það voru því skilti út um allt að sleppa börnum aldrei úr augsýn og létum við ekki segja okkur það tvisvar og var Óskar settur á háhest og Mía (4 mánaða) í kengúrupoka.

 

Þrátt fyrir háleit markmið að gista í tjaldi þá var tekin ákvörðun um að gista á einu hótelanna á síðustu stundu, sem betur fer því hótelið var girt af fyrir dingóunum og gat Óskar synt í sundlaug og gengið einn og óhræddur.

 

En eyjan var fögur og margt skemmtilegt að sjá. Einungis var hægt að keyra á meðan að það var fjara og margir sem náðu að festa sig í erfiðum sandinum. Það eina var að ekki var hægt að synda í sjónum vegna eitraðra marglyttna en nóg var af vötnum til að kæla sig í. 

 

 

 

Frá Fraser Island fórum við svo áleiðis til Gladstone þar sem við tókum bátinn til Heron Island sem er sem fyrr segir á suðurhluta Kóralrifjanna. Bátsferðin var áhugaverð, vont í sjóinn og nokkrir farþeganna skiluðu hádegismatnum beint út í sjó. En við víkingarnir létum ekkert á okkur fá, ekki einu sinni börnin og fegurðin sem blasti við okkur var ótrúleg. Tær sandur, grænn tær sjór og fuglar. Fullt af fuglum. Í sjónum sáum við beint frá bátnum skjaldbökur synda um, hákarla, alls kyns skötur og litríka fiska. Næstu þremur dögum eyddum við í sjónum að kynnast þessum mögnuðu verum og var sérstaklega ánægjulegt að upplifa þetta með Ágústu frænku sem hafði ekki snorklað áður og Óskari Fulvio sem hafði reyndar gert þetta áður en hafði fyrst gaman af þessu núna.

Mynd frá Ólöf Daðey Pétursdóttir. 

Við sólsetur sátum við á ströndinni og horfðum á sólina setjast og pínulitlar skjaldbökur nýskriðnar út úr eggjunum á leið í sjóinn í fyrsta sinn. Eftir sólsetur horfðum við á stjörnurnar og skjaldbökurnar stóru koma upp úr vatninu eftir daginn til að leggjast á eggin sín. Ógleymanleg lífsreynsla. 

 

Síðustu dögunum eyddum við svo í Sydney með góðum vinum, borðuðum síðustu franskarnar og steikarsamlokunar og gíruðum okkur upp í 40 tíma ferðalagið heim. Allt gekk að óskum, börnin voru lygilega góð á leiðinni og enginn tapaði kúlinu. 

Mynd frá Ólöf Daðey Pétursdóttir.  Mynd frá Ólöf Daðey Pétursdóttir.

 

Ég vil þakka samferðafólkinu mínu fyrir yndislega tíma og vinum okkar í Ástralíu fyrir ógleymanlegar stundir. 

Ást og friður!