Hamingjuhornið

Skilaboð til ykkar sem eruð að fara í gegnum erfiðar breytingar

15.Mars'17 | 03:37

Skilaboð til ykkar sem eruð að fara í gegnum erfiðar breytingar, hverjar svo sem þær eru. Það tekur á að fara í gegnum breytingar og hluti af því er einmitt að leyfa sér að fara í gegnum ákveðið umbreytingarferli.

 Við sem manneskjur erum alltaf að taka breytingum og reynslan mótar okkur. Því betur sem við þekkjum okkur sjálf og viðbrögð okkar við erfiðleikum því öruggari verðum við gagnvart því sem við þekkjum ekki. 

En til þess að vinna sig í gegnum erfiða tíma þarf að horfa í sárið. Það getur hamlað ferlinu ef maður horfist ekki í augu við þann missi sem maður er að upplifa - getur verið missir á gamla lífinu eða missir einhvers sem við elskum. Það er svo eðlilegt að vilja víkja sér undan sársaukanum en við þurfum að vera meðvituð um að þegar við deyfum dimmu stundirnar erum við að deyfa þær björtu.

Þessu tímabili geta fylgt hugsanir eins og: get ég tekist á við lífið aftur – tekur þetta einhvern tímann enda, get ég hlegið aftur! Þeir sem hafa tekist á við djúpa sorg kannast við það að halda að þeir upplifi aldrei aftur góða tíma – en eðli sorgarinnar er einmitt sá að þú finnur hana af því að þú hefur hæfileikann til að elska, og sá hæfileiki fer ekki með missinum.

Smám saman kemur maður til sjálfs sín og myndar ný tengsl við þann sem maður missti og hvort sem það er í tengslum við andlát eða annan missi er ekki óalgengt að maður segi við sjálfan sig: þetta var svo þungbært að ég mun aldrei elska aftur/takast á við svona breytingar aftur o.s.frv! En ferlið felst í því að vinna sig smám saman í gegnum spennu fortíðar og framtíðar, en þessu fylgir ákveðin togstreita sem er annars vega þörfin fyrir að segja skilið við það sem var á sama tíma og maður vill bara halda í það. 

Ferlið felst í því að vinna sig í gegnum þessar andstæðu tilfinningar og ná valdi á þeim og sætta þær. Ef þetta tengist missi einhvers sem maður elskar þá tekur sú sorg í sjálfu sér aldrei enda – en breytist úr því að vera í aðalhlutverki í að vera hluti af lífinu.

En við þurfum líka að minna okkur á að elska til eins þarf ekki að ýta burt elsku til annarra. Við lærum og þroskumst í gegnum tengsl við aðra en öll tengsl fela í sér áhættu en þessi áhætta er sú sem gerir okkur meira og meira að manneskjum.

HAMINGJUHORNIÐ

Kærleikskveðja úr snjónum!
Anna Lóa