Ertu að missa vitið?

Er unglingurinn þinn eða þú haldinn tölvufíkn

16.Mars'17 | 14:30

Er unglingurinn þinn og/eða þú sem foreldri haldinn tölvufíkn? Ef svo er þá gæti málþing um netnotkun unglinga fært þér lausn á vandanum.

Nemendur í viðburða- og verkefnastjórnun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands standa fyrir málþingi föstudaginn 17.mars kl.9:00 og er áætlað að því ljúki kl.12:00. Málþingið verður haldið í fyrirlestarsal Bratta í Stakkahlíð HÍ. Málþingið er opið öllum og er aðgangur ókeypis.

Dagskráin er bæði fjölbreytt og fróðleg og hvetjum við alla áhugasama til að mæta.

Viðburður á facebook er hér.

Þorsteinn Kristján Jónsson eigandi vefsins tolvufikn.is var í viðtali á Rás 2 í morgun. Hann hefur haldið fjölda fyrirlestra um tölvufíkn í grunnskólum landsins og þekkir hana af eigin raun. Í viðtalinu segist hann hafa verið algjörlega staðnaður á sínum tíma, en eftir að hann tók tölvuna úr fyrsta sæti, gat hann snúið lífinu til hins betra. Hann hefur miðlað reynslu sinni meðal ungmenna landsins með fyrirlestrum sínum.

Hjá Hugarafli stýrir hann stuðningshópum fyrir tölvufíkla, en þeir hópar tóku til starfa í janúar. Fundirnir eru á fimmtudögum kl. 21 hjá Hugarafli. Félag áhugafólks um tölvu- og netfíkn tók til starfa 15. mars síðastliðinn.

En hvað er tölvufíkn? Þorsteinn segir ýmis einkenni lýsa tölvufíkninni, fjórar meginviðvörunarbjöllur eru: farinn að taka tölvu fram yfir vinnu og skóla, farinn að klúðra samskiptum við maka eða fjölskyldu, maður er farinn að einangrast (talar til dæmis bara við fólk á netinu), tölvan er tekin fram yfir eigin heilsu.

Viðtalið má heyra í heild sinni hér.