Hamingjuhornið

Í dag er því Alþjóðlegi Hamingjudagurinn og því ber að fagna

20.Mars'17 | 02:28

Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað 20. mars hamingjunni og hvetja þjóðir heims til að gera slíkt hið sama. Í dag er því Alþjóðlegi Hamingjudagurinn og því ber að fagna.

 

Við getum fagnað á ýmsan hátt - t.d. með því að vera þakklát. Við getum öll verið þakklát fyrir svo margt en hjá mörgum er hún sterk sú tilfinning að manni finnst maður ekki vera nægjanlegur eins og maður er og því þurfi eitthvað stórkostlegt að gerast til að maður geti leyft sér að fagna sjálfum sér. 

En lykillinn að því að fagna sjálfum sér liggur einmitt hjá manni sjálfum. Það erum bara við sjálf sem höfum tækin og tólin til að laga það sem er hægt að laga, sætta okkur við það sem við getum ekki breytt og áttað okkur á því að ófullkomleiki er hluti af því að vera manneskja. Það erum við sjálf sem setjum merkimiða á okkur og getum gagnrýnt okkur út í það óendanlega eða við getum tekið þéttingsfast utan um okkur og sagt; þú ert bara nóg eins og þú ert. Enginn annar einstaklingur, staða, menntun, útlit, peningar eða valdastaða getur fært okkur þetta ef við trúum því ekki sjálf. Við getum auðveldlega dottið í þá gryfju að halda að eitthvað annað eða annar einstaklingur sé með lykilinn að hamingju okkar og sátt, en þannig er það ekki. Verum þakklát fyrir okkur.

Það er líka ótrúlega mikilvægt að muna að sögur okkar allra skipta máli því VIÐ skiptum öll máli. Reynum að njóta þess að lifa lífi okkar til fullnustu þrátt fyrir ófullkomleika, mistök, aukakíló, og annað sem við teljum til galla sem haldi hamingjunni frá okkur. Málið er að þegar við förum að lifa ,,okkar“ lífi af fullum krafti upplifum við til skiptis mikinn kjark og hræðslu en á sama tíma upplifum við líka að við séum full af lífi. Að lifa til fullnustu snýst um að taka þátt í lífinu með þá vissu að maður sé mikils virði og eigi SAMA rétt og aðrir. 

Við getum líka aukið hamingjuna með því að efla kjarkinn og þá með því að prófa sig áfram í þeim verkefnum sem valda manni óöryggi. Á sama tíma og við höfum kjarkinn til að prófa okkur áfram erum við að efla tengsl við okkur sjálf og aðra. ÉG gat þetta – fyllir okkur öryggi og þá eigum við auðveldara með að deila okkur með öðrum. Þegar við förum að efla okkur sjálf verða samskipti við aðra betri en manneskja sem á í sífelldum útistöðum við aðra á yfirleitt í innri baráttu við sjálfan sig. Breytingar eru erfiðar en eina leiðin til framfara. Þegar við stöndum frammi fyrir breytingum höfum við stundum meiri áhyggjur af því hvað öðrum finnst og látum eigin tilfinningar og þarfir mæta afgangi. Þannig tökum við almenningsálitið framyfir eigin sannfæringu og svíkjum þannig okkur sjálf. Við getum aukið hamingjuna með því að vera okkar eigin besti vinur - alla leið.

Mikið væri lífið gott ef við slepptum samanburði og viðmiðum við aðra og mundum njóta þess að vinna meira saman. Þrátt fyrir að viðmið geti aukið samkeppni og metnað geta viðmið líka rænt okkur hamingjunni. Þegar fólk er óröruggt er það oft fast í viðmiðum og hvort sem það er verið að miða sig við þá sem eru betur eða verr settir þá eru báðar tilfinningar vondar. Við getum alltaf fundið okkur einhvern sem er verr settur en við eða einhvern sem að okkar mati hefur það miklu betra eða er hæfari á einhvern hátt. Þeir sem erum hamingjusamir og þ.a.l með sjálfstraustið í lagi eru ekki uppteknir af því að verða betri en næsti maður, en stefna að því að verða besta eintakið af sjálfum sér. 

Held að það væri aldeilis frábært ef við mundum sleppa því að vinna okkur til óbóta til að ná okkur í stöðutákn eða auka sjálfsvirðinguna. Best af öllu væri ef við hættum að reikna með því að eftir góð tímabil taki óhjákvæmilega við slæm tímabil - allt gott taki enda. Svo væri náttúrulega algjörlega frábært ef við viðurkenndum bara oftar að við erum bara alls ekki alltaf með stjórnina og það er bara allt í lagi.

Ég ætla að nota hamingjudaginn vel og minna sjálfa mig á hvað það er margt sem ég get verið þakklát fyrir. Ég ætla líka að vera meðvituð um hvaða hugsunum ég leyfi að stýra lífi mínu því neikvæðar hugsanir sem við tileinkum okkur virka eins og sannleikur miðað við áhrifin sem þær hafa! Þannig ef þú ert að hugsa núna að þú getir engu breytt í lífi þínu þá er það nákvæmlega það fyrsta sem þú þarft að skoða!

Kveðjur til ykkar og óskir um góðan hamingjudag!

Hamingjuhornið
Anna Lóa